Evrópubikarinn
Bjarni Helgason
bjarnih@mbl.is
„Þessir leikir leggjast mjög vel í mig og við erum allar mjög spenntar,“ sagði Elín Klara Þorkelsdóttir, leikmaður kvennaliðs Hauka í handknattleik, í samtali við Morgunblaðið.
Hafnfirðingar mæta Galychanka Lviv frá Úkraínu í 16-liða úrslitum Evrópubikarsins um helgina en báðir leikirnir fara fram á Ásvöllum. Sá fyrri fer fram í dag, klukkan 17, og sá síðari á morgun, sunnudag, klukkan 17 en síðari leikurinn er titlaður heimaleikur Hauka í einvíginu.
Haukar höfðu betur gegn Dalmatinka frá Króatíu í 32-liða úrslitum keppninnar en báðir leikirnir fóru fram í Ploce í Króatíu. Fyrri leiknum lauk með eins marks sigri Hafnfirðinga, 24:23, og þeim síðari lauk einnig með eins marks sigri Hauka, 17:16.
Á sama tíma hafði Galychanka Lviv betur gegn Garabagh frá Aserbaídsjan í 32-liða úrslitunum, 33:20 og 34:19, en báðir leikirnir fóru fram í Aserbaídsjan. Vegna stríðsástandsins í Úkraínu leikur Galychanka í pólsku B-deildinni en þar er liðið með fullt hús stiga á toppi deildarinnar eða 27 stig eftir fyrstu níu umferðirnar og hefur fjögurra stiga forskot á Radom sem á leik til góða í öðru sætinu með 23 stig.
Galychanka Lviv hefur tíu sinnum orðið úkraínskur meistari og sjö sinnum bikarmeistari en liðið er eitt sigursælasta handboltalið Úkraínu.
Erfiðir leikir í Króatíu
„Þetta voru tveir mjög erfiðir leikir sem við spiluðum í Króatíu í 32-liða úrslitunum og það var mjög gaman að vinna það einvígi úti. Það er mjög gaman að spila þessa leiki í Evrópubikarnum og það verður skemmtilegt að spila báða leikina á Ásvöllum núna. Þetta er líka góð tilbreyting fyrir okkur, að mæta nýjum liðum og nýjum leikmönnum frá öðrum þjóðum. Maður er orðinn vanur því að spila við liðin hérna heima og Evrópbikarinn er risastór keppni og það fylgir því ákveðið stolt að vera komnar þetta langt í henni.
Við erum búnar að fara ágætlega vel yfir þetta úkraínska lið og ég á von á hörkuleik á móti þeim. Þær eru með mjög öfluga skyttu sem er bæði hávaxin og góður skotmaður. Miðjumaðurinn þeirra er mjög snögg og góð maður á mann. Hún getur líka skotið fyrir utan þannig að það er ýmislegt sem við þurfum að varast. Miðað við þær myndbandsklippur sem við höfum séð þá erum við að fara að mæta mjög góðu liði og ég á því von á hörkuleik gegn þeim,“ sagði hin tvítuga Elín Klara en Haukar hófu keppnina með tveimur sigrum gegn Eupen í Belgíu.
Mæta fullar sjálfstrausts
Hvernig metur Elín Klara möguleika Hauka?
„Við mætum fullar sjálfstrausts inn í þessa tvo leiki. Það eru einhverjir leikmenn í Galychanka Lviv sem eru fastamenn í úkraínska landsliðinu og ég mætti því þessum leikmönnum á Evrópumótinu í Austurríki, Ungverjalandi og Sviss á síðasta ári. Við unnum þær þar og það gefur manni sjálfstraust fyrir þessa viðureign.
Ég tel okkur eiga góða möguleika gegn þeim en þetta verða hörkuleikir. Mér finnst við ekki hafa neinu að tapa heldur og við höfum mikla trú á því sem við erum að gera. Við tökum einn leik fyrir í einu og við spilum auðvitað á Ásvöllum, okkar heimavelli, og það er óskandi að fólk mæti og fylli stúkuna um helgina.“
Yrði fyndið að mæta Val
Íslands- og bikarmeistarar Vals eru einnig komnir áfram í 16-liða úrslit keppninnar en Valskonur mæta Málaga Costa del Sol frá Spáni og fer fyrri leikur Vals fram á Spáni í dag.
„Það er langt síðan kvennalið Hauka tók síðast þátt í Evrópukeppni og við viljum að sjálfsögðu fara eins langt og mögulegt er í keppninni í ár. Við erum samt með báða fætur á jörðinni og förum ekki neitt fram úr okkur. Undirbúningurinn fyrir þennan leik er í raun ekkert öðruvísi en fyrir aðra leiki og þegar allt kemur til alls er þetta bara handbolti.
Það er fyrst og fremst mjög jákvætt fyrir íslenskan handbolta að það séu tvö íslensk lið komin áfram í 16-liða úrslit Evrópubikarsins. Þetta er mjög jákvætt, bæði fyrir Hauka og Val, og mikið fagnaðarefni. Það yrði reyndar mjög fyndið að dragast gegn Val í 8-liða úrslitunum en það yrði þá bara seinni tíma vandamál,“ sagði Elín Klara þegar hún var spurð út í það hvort hún væri spennt fyrir því að mæta Valskonum ef íslensku liðunum tekst að leggja mótherja sína að velli.
Spennustigið hærra
Elín Klara viðurkennir að spennustigið í Evrópuleikjunum sé talsvert hærra en í hefðbundnum deildarleik í janúar í úrvalsdeildinni hér heima.
„Spennustigið í þessum leikjum er klárlega hærra, ég get alveg viðurkennt það. Í Króatíu sem dæmi var mjög vel mætt í höllina og stemningin var geggjuð. Tilfinningin var í þá áttina að maður væri að spila bikarúrslitaleik eða í úrslitakeppninni hér heima.
Þetta er klárlega stærra en þessi hefðbundnu deildarleikir en eins og ég kom inn á áðan þá er þetta samt alltaf bara handbolti. Vonandi sjá sem flestir sér fært að mæta í Hafnarfjörðinn og styðja vel við bakið á okkur því við þurfum á stuðningnum að halda,“ bætti Elín Klara við í samtali við Morgunblaðið.