Þessi tjákn, ef þið eruð ekki búin að giska, merkja rass og lim, takk fyrir. Þú gætir alveg eins bara skrifað að þú sért að bjóða heim í orgíu.

Pistill

Ásdís Ásgeirsdóttir asdis@mbl.is

Líflegar umræður sköpuðust í kaffitímanum hér á Morgunblaðinu um daginn þegar rætt var um notkun tjákna (emoji) en í vikunni var einmitt skemmtilegt viðtal við Önnu Steinsen um þau mál. Í ljós kom að við sem eldri erum notum tjáknin bandvitlaust, eða að minnsta kosti er það skoðun þeirra sem fæddir eru á þessari öld.

Það er til að mynda mjög dónalegt að svara skilaboðum með einum þumli, við gætum víst eins verið að sýna á okkur löngutöngina.

„Slík skilaboð eru nánast á við löðrung,“ segir Anna í greininni.

Ég er þá greinilega búin að móðga mann og annan og það mjög lengi!

Eins þykir argasti dónaskapur að setja punkt á eftir orði og alls ekki skrifa OK, heldur frekar ókei eða ókey. Og þá alls ekki OK., með punkti á eftir, það jafnast á við líkamsárás ef ég skil þetta rétt. Og punktar almennt í skilaboðum eru ekki boðlegir því unga fólkið les út úr þeim reiði eða hörku. Ekki er að furða að íslenskukunnátta fari hrakandi með hverju árinu ef ekki má lengur setja punkt á eftir setningu.

Svo er það broskallinn góði. Hann er víst alls ekkert góður lengur, heldur sérlega móðgandi, sem ég skil bara alls ekki. Hvernig er hægt að túlka broskall einhvern veginn öðruvísi en einfaldlega broskall? Krökkum í dag finnst hann gefa til kynna eins konar háð eða kaldhæðni frá sendanda. Ég bar þetta undir mína syni, nýkomna á þrítugsaldur, og þeir staðfestu þetta allt saman. Ég sýndi þeim venjulegan broskall og viðbrögðin voru: „OJ, þessi!“

Þetta er alls ekki upptalið. Blikkkallinn er algjörlega bannaður en það eru bara perrar sem senda hann, samkvæmt aldamótakynslóðinni.

Varðandi önnur tjákn þá merkja þau oft eitthvað allt annað en myndin af þeim gefur til kynna. Þannig er ekki sniðugt fyrir foreldra eða ömmur og afa að bjóða í mat og senda myndir af ávöxtum eða grænmeti og þá ber sér í lagi að forðast myndir af ferskjum eða eggaldini. Þessi tjákn, ef þið eruð ekki búin að giska, merkja rass og lim, takk fyrir. Þú gætir alveg eins bara skrifað að þú sért að bjóða heim í orgíu.

Ekki má heldur senda myndir af kirsuberjum, (brjóst), ananas (sving) eða kökusneiðum, sem synir mínir segja að tákni líka rass. Ég sem er svo mikil kökumanneskja og hef oft sent kökutjáknið! Það ætti kannski bara að loka mig inni ásamt öllu öðru miðaldra og eldra fólki sem kann á tölvu. Okkur er að minnsta kosti ekki treystandi þegar tjákn eru annars vegar!