Bjarni Þjóðleifsson fæddist 29. janúar 1939. Hann lést 30. desember 2024.

Útför hans fór fram 10. janúar 2025.

Mér er ljúft að minnast í fáeinum orðum góðs samstarfsmanns og vinar, Bjarna Þjóðleifssonar.

Samstarf okkar hófst á Landspítalanum við Hringbraut árið 1987, en Bjarni var þar yfirlæknir meltingarlækninga. Ég hafði ekki kynnst honum persónulega áður, en mundi vel eftir áhugaverðum fyrirlestrum hans í Læknadeildinni um áratug fyrr, þegar hann var nýlega kominn heim frá námi á Bretlandseyjum.

Í stuttu máli voru öll frekari kynni og samstarf við Bjarna eins og best varð á kosið. Samstarf okkar á spítalanum varði í alls 22 ár og var náið, þar sem við vorum ekki margir meltingarlæknarnir á Hringbrautinni á þessum tíma, raunar bara þrír fyrstu níu árin. Það er óhætt að segja að það var gott að hafa Bjarna sem yfirmann, en hann sýndi sínu fólki alltaf fullt traust og hvatningu í starfi.

Bjarni var góður læknir, og sem forystumaður í okkar sérgrein á Íslandi hafði hann ódrepandi metnað fyrir faginu. Klínískar meltingarrannsóknir voru viðamiklar á Landspítalanum á þessum tímum, enda margt áhugavert að gerast í fræðunum. Þar má nefna að öflug byltingarkennd sýruhamlandi lyf komu fram á sjónarsviðið, nýlega uppgötvuð magabaktería, (Helicobacter pylori) var mikið í sviðsljósinu og einnig aukaverkanir bólgueyðandi lyfja á meltingarveginn. Þróun í speglunarrannsóknum og –aðgerðum á meltingarveginum var einnig á þessum tíma á fleygiferð.

Auk klínískra rannsókna voru ýmsar faraldsfræðilegar athuganir á meltingarsjúkdómum framkvæmdar á Íslandi, oft undir forystu eða í samvinnu við Bjarna.

Já, það var sannarlega gaman að vera í þessari sérgrein lyflækninga á þeim rúmlega tveimur áratugum sem við unnum saman. Það var mikið speglað til greiningar og í þágu vísindanna á Landspítalanum í þá daga.

Bjarni var einstaklega ljúfur og vandaður maður í allri umgengni, þannig að það var ómögulegt annað en að kunna vel við manninn. Bjarna var eðlislæg mikil háttvísi og góð samskipti.

Utan Landspítalans var lífið gott hjá þeim samrýndu hjónum, Siggu og Bjarna, og minnisstæð eru matarboðin og mikil gestrisni á fallegu heimili þeirra í Fossvoginum. Þau hjónin nutu sín vissulega vel í gestgjafahlutverkinu.

Bjarni var afar vel á sig kominn líkamlega á þessum árum og naut sín til fulls í hinum ýmsu íþróttum, ekki síst í golfinu. Hávaxinn var hann og hann sagði mér að það hefðu verið söguleg mistök að hann fór ekki einnig í körfuboltann. Sjálfur keppti ég við hann í skvassi og átti þar sannarlega á brattann að sækja, en þessi íþrótt reynir verulega á snerpu og úthald. Bjarni hafði lært skvass eins og margir sem búið hafa í breska heimsveldinu og gaf þar ekkert eftir gegn yngri mönnum.

Mér er efst í huga þakklæti þegar ég hugsa til samstarfs og allra kynna við Bjarna. Minningin um vandaðan og góðan samstarfsmann lifir. Innilegar samúðarkveðjur til þín, kæra Sigga, og til allrar fjölskyldunnar.

Hallgrímur Guðjónsson

Við lífslok Bjarna Þjóðleifssonar er virðing fyrir því sem hann náði að gera í læknisstarfi og vísindavinnu það sem kemur einna fyrst í hugann. En svo bætast við margar góðar minningar um mann sem var fyrirmynd, samstarfsmaður, vinur og félagi á síðustu fjórum áratugunum. Um mann sem það var ómetanlegt að kynnast og fá að eiga samleið með á Landspítalanum og í Háskóla Íslands. Bjarni var forveri minn meðal íslenskra lækna sem réðust til starfa í sérnám á háskólasjúkrahúsin í borginni Dundee í Skotlandi. Hann var þar áratug á undan mér. Bjó með fjölskyldu sinni í strandbænum Monifieth við mynni Tay-fjarðarins rétt utan við miðborgina. Ég skynjaði seinna að það var með bestu tímum í hans ævi, bæði faglega og persónulega, rétt eins og hjá mér sem bjó ekki langt þar frá, þar hann og Ingigerður, fyrri eiginkona hans, höfðu átt heimili. Ég get séð fyrir mér hvernig þau fóru um þetta fallega landsvæði um helgar með þrjár rauðhærðar stelpuskottur í aftursætinu, heimsóttu skoska vini og samverkamenn, nutu daganna saman. Bjarni lagði svo til sitt álit þegar ég sótti um starf á Landspítalanum og var eftir það meðal þeirra sem ávallt var hægt að leita til vegna skjólstæðinga og sjúklinga.

Bjarni lét til sín taka við uppbyggingu fræðasviðs síns, meltingarlæknisfræði, á Íslandi – sem forvígismaður fagsins, kennari og fræðimaður sem um munaði. Listi yfir tillegg hans í vísindavinnu er umtalsverður og spannar fjóra áratugi. Hann birti ekki bara vísindagreinar heldur tók virkan þátt í umræðum sem vörðuðu fagsvið hans, bæði alþjóðlega og á vettvangi íslenskrar læknisfræði og íslensks samfélags. Margir gera góða vísindavinnu en ná ekki að stíga þetta viðbótarskref sem skiptir svo miklu máli. Bjarni var þar. Hann lagði líka mikið til í læknadeild HÍ, sem og með aðkomu í stjórn og uppbyggingu Landspítalans, opinn fyrir því að nýta og skapa tækifæri. Velferð sjúklinga og samstarfsfólks skipti þennan vel menntaða, hjartahlýja og víðsýna mann miklu máli.

Bjarni stóð ungur uppi sem ekkjumaður með fjögur börn. Þá kom Sigríður nokkru seinna inn í líf hans og barnanna. Það var gæfa hans að fá þá nýjan lífsförunaut sem dansaði svo vel og í takti með honum gegnum seinni helming ævinnar. Ég og eiginkona mín áttum því láni að fagna að verða góðvinir Bjarna og Sigríðar þegar fram liðu stundir og finna einlæga vináttu þeirra á góðum og erfiðum stundum. Parkinsons-sjúkdómur gerði því miður allra síðustu árin hans æ erfiðari með versnandi hreyfi- og talgetu. Það tók á alla.

Við sem nutum þeirra forréttinda að verða vinir Bjarna Þjóðleifssonar erum nú með hugann hjá eiginkonu hans og fjölskyldu. Í hjarta og huga látum við minningar um góðan og fágaðan mann lifa.

Reynir
Tómas Geirsson.

Kynni mín af Bjarna Þjóðleifssyni hófust í Menntaskólanum á Akureyri 1955. Í fyrstu var það einkum á vettvangi skákfélags skólans, en Bjarni var þá þegar orðinn mjög sterkur í íþróttinni og hefði auðveldlega getað náð mjög langt í henni. Auk þess var hann einn skæðasti fótboltamaður bekkjarins, ef ekki skólans. Ekki bjó hann á heimavistinni en leigði rólegt herbergi úti í bæ, á Gilsbakkavegi ef ég man rétt. Undraðist ég bókakostinn sem þar blasti við og var nokkuð óviðkomandi pensúmi skólans. Minnist ég þar merkra bóka, meðal annars um stjórnmálakenningar, sálkönnun og tilvistarspeki, þ. á m. Courage to Be eftir guðfræðinginn Paul Tillich svo eitthvað sé nefnt. En Bjarni var hógvær og gumaði aldrei af getu sinni og þekkingu.

Er skólagöngu lauk dreifðist hópurinn og leiðir skildu að nokkru en góður vinskapur hélst áfram alla tíð. Samfundir voru jafnan hinir ánægjulegustu, og það var einstaklega gott að leita ráða hans og aðstoðar ef á þurfti að halda. Bjarni var prúðmenni sem gott er að hafa kynnst. Aðstandendum hans votta ég samúð.

Magnús Skúlason.