Sigurveig Sæunn Steindórsdóttir fæddist 11. maí 1940. Hún lést 23. júlí 2024.

Útför hennar fór framm 9. ágúst 2024.

Sæja frænka var kona sem enginn gleymir sem henni kynntist. Ung fékk ég stundum að dvelja hjá henni og Gudda í Kvistalandi, það var gaman, og það sem Benni frændi nennti að drösla mér með sér út um allt. Ég var nokkurs konar dúkkubarn, Sæja lét setja göt í eyrun á mér, krullaði á mér hárið og við fórum út að labba í rigningu í kjól, kápu og með regnhlíf. Það gerðu bara drottningar. Hún lét í ljós skoðanir sínar og álit á ákvörðunum mínum. Allt frá fatavali, námi og þeim starfsleiðum sem ég valdi mér að því sem var ofarlega í huga hennar – og gallhörð á – fæðuvali! Enga bumbu takk! Hún sagði oft: „Sæunn mín, við erum allt of fallegar til að hafa vömb.“

En Sæja frænka var einnig kletturinn, hún var sú sem sá til þess að við systur misstum ekki af neinum fjölskylduskemmtunum eftir að Silli, vinur hennar og frændi, faðir okkar, féll frá. Hún var límið okkar. Ég bjó hjá henni í Háaleitinu hálfan vetur eftir að ég flutti í borgina, það var skemmtilegt. Ég vann mikið og var lítið heima en við náðum alltaf kvöldrettunni saman rétt fyrir miðnætti. Eitt kvöldið sagði hún: „Sæunn, þú ert að standa þig! Nú er kominn tími til að þú standir á eigin fótum og fáir þér íbúð og flytjir út næstu mánaðamót!“

Já, hún var ákveðin kona og oft var bara betra að hlýða. Þegar hún flutti norður á Dalvík og bjó um tíma hjá Aðalbergi Péturssyni frænda okkar fékk hún þá góðu hugmynd að hann yrði góður kostur fyrir ekkjuna hana mömmu. „Aðalberg, þú bara keyrir vestur með blómvönd og kynnist henni Sigurlaugu.“ Aumingja karlinn þeyttist milli landshluta að skipun Sæju. Svo kom að því að eitt skiptið kom Sæja með karlinum og þau voru hjá okkur heila páskahátíð. Þá fóru hjólin að snúast. Sæja var alltaf á stalli í huga Aðalbergs, á Ásveginum á Dalvík var alltaf til rautt Nizza og lítil kók í gleri sem enginn mátti snerta, þetta var handa Sæju þegar hún kæmi í heimsókn, enda fá drottningar sérmeðferð.

Lengi vel fór forsjárhyggja Sæju í taugarnar á mér en lærði svo með tíð og tíma að hjá henni var þetta merki um ást. Ætli hennar kynslóð, bakland og ævi hafi ekki litað þessar oft óumbeðnu athugasemdir. Ég kveð Sæju með þakklæti í hjarta því hún kenndi mér að ekki gleyma fjölskylduböndum.

Sigurveig, Heiðar, Benni, Palli, makar og börn, innilegar samúðarkveðjur til ykkar.

Sæunn Vigdís
Sigvaldadóttir.