Rannveig Jónsdóttir fæddist 8. júní 1935. Hún lést 21. desember 2024.
Rannveig var jarðsungin 9. janúar 2025.
„Það var eitt af uppeldismarkmiðum rauðsokka að piltar jafnt sem stúlkur yrðu ábyrgir, sjálfbjarga einstaklingar innan heimilis sem utan,“ skrifar Rannveig í bókina Á rauðum sokkum (2011). Hún hafði samband við okkur nokkrar sem komum að stofnun Rauðsokkahreyfingarinnar og hvatti okkur til ritunar bókar um upphafsárin, líf okkar og baráttu. Hún taldi okkur gleymdar og að verk sem við hefðum staðið fyrir væru nú eignuð öðrum, en minnti jafnframt á að hreyfingin hefði náð að breyta hugsunarhætti um stöðu kvenna, andæft hefðum og barist gegn illkleifum múrum. Vaxandi óánægja kvenna leitaði sér farvegar á sjöunda áratugnum og þá varð Rauðsokkahreyfingin til. Við þökkum Rannveigu frumkvæðið að skrifunum.
Í kafla sínum í bókinni segir Rannveig frá vinnu sinni við saltfiskvinnslu í Bæjarútgerð Reykjavíkur eitt sumar. „[Þar] fann ég fyrst fyrir launamisréttinu á eigin skinni.“ Hún vitnar í dagbókina sína frá 1952: „Það er nú einu sinni svo að mér er ómögulegt að láta það afskiptalaust þegar traðkað er svona á réttlætinu á skítugum skónum.“
Hún lýsir einnig baráttu sinni fyrir gæsluvelli þegar þau hjónin áttu orðið þrjú börn. Ásamt skólasystur náðu þær 92 mæðrum á áskorunarskjal um örugg leiksvæði fyrir börn sem lagt var fyrir borgarráð Reykjavíkur 1963. Fyrir borgarstjórnarkosningar 1966 spurði Rannveig borgarstjóra um málið – sem fékk framgang nokkrum mánuðum síðar. Þarna fann hún að almennir borgarar gátu haft áhrif á gang mála.
Hún rifjar upp: „Við stefndum að vitundarvakningu. Með skýrum rökum og markvissum aðgerðum vildum við vekja fólk til vitundar um misrétti kynjanna … Framan af fannst mér eins og við værum að sá fræjum út í vindinn og enginn vissi hvar þau mundu lenda eða hvort nokkurt þeirra festi rætur.“ En í upprifjun um útvarpsþætti hreyfingarinnar „Ég er forvitin rauð“ minnist Rannveig orða manns sem sagðist lesa blöðin með öðru hugarfari eftir að hafa hlustað á okkur: „Seint gleymi ég fögnuðinum sem fór um mig við að heyra þetta … Maðurinn hafði orðið fyrir vitundarvakningu. Við vorum á réttri leið!“
Á þessu ári er liðin hálf öld frá Kvennafrídeginum 1975. Rannveig var mikilvirk í undirbúningnum. Eftir að hreyfingin var lögð niður hélt hún áfram að sinna jafnréttismálum. Hún skrifaði í blað Kvenréttindafélags Íslands 19. júní, sat þar í ritnefnd og tók m.a. viðtal við Vigdísi forseta þar sem hún ræddi framboð sitt: „Kvennafrídagurinn 1975 var auðvitað afleiðing af þeirri vakningu sem Rauðsokkahreyfingin kom af stað og framboð mitt 1980 kom í kjölfar Kvennafrídagsins því að ákafinn við að koma konu í framboð var auðvitað í beinu framhaldi af honum.“ Nýlega áttum við saman ánægjulega kvöldstund og glöddumst yfir stöðu jafnréttismála, Rannveig lifandi og virk í umræðunni – eins og alltaf.
Í minningunni sjáum við hana fyrir okkur hlýja og virðulega, hógværa en um leið eitilharða og hugrakka. Rannveigar er sárt saknað og við hugsum jafnframt til þeirra úr hópnum sem á undan eru gengnar. Við sendum fjölskyldu Rannveigar innilegar samúðarkveðjur.
Edda Óskarsdóttir, Gerður G. Óskarsdóttir, Guðrún Ágústsdóttir, Guðrún Hallgrímsdóttir, Helga Ólafsdóttir, Hildur Hákonardóttir og Lilja Ólafsdóttir.