Stefán Einar Stefánsson
Hólmfríður María Ragnhildardóttir
Ólöf Örvarsdóttir, sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar, segir borgina munu finna leið til að laga þau mistök sem urðu við Árskóga í Breiðholti þar sem gríðarstór skemma reis allt í einu og byrgir þar íbúum sýn og sólarljós. Skemma sem hefur fengið viðurnefnið Græna gímaldið.
Hún segir borgina hafa átt frábært samstarf við Búseta og kveðst hafa fullt af hugmyndum um hvernig megi bæta úr stöðunni sem upp er komin, til að mynda að endurhugsa íbúðirnar í fjölbýlishúsinu.
„Það er líka hægt að horfa á grunnmyndir Búseta; af hverju snúa svalirnar og betri rýmin í þá átt sem þau gera þar sem það er ekki í raun og veru besta áttin gagnvart sól. Er hægt að gera einhverjar tilfærslur á íbúðunum?“ spyr Ólöf.
Þannig að það kemur til greina að gera breytingar á íbúðarhúsnæðinu sem lausn á vandanum frekar en hinu?
„Nei, alls ekki frekar en hinu. Fyrst er auðvitað hitt,“ segir Ólöf.
Hún kveðst ekki hafa viðrað þessa hugmynd við Búseta. „Þetta er bara ég sem arkitekt að horfa á grunnmyndir og hugsa: af hverju eru svalirnar í þessa átt? Af hverju eru þær ekki gagnvart sólu, væri það betri íbúð?“ segir Ólöf og heldur áfram: „Þá kannski fengju þau tvennar svalir í staðinn fyrir einar og útkoman yrði kannski betri á endanum.“
Hún segir úrlausnina munu kosta fjármuni og að auðvitað hafi orðspor Reykjavíkurborgar beðið hnekki vegna málsins. „Og við tökum það bara mjög nærri okkur. Ég er Breiðhyltingur þannig að ég þekki þetta svæði vel og þetta er ekki nógu gott eins og þetta er en það er enginn þarna held ég með slæman ásetning. Þetta bara fór ekki vel.“