Í ljósmyndaverkum mínum er ég að velta fyrir mér beinum áhrifum mannsins á náttúruna, segir Pétur.
Í ljósmyndaverkum mínum er ég að velta fyrir mér beinum áhrifum mannsins á náttúruna, segir Pétur. — Morgunblaðið/Eyþór
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Margt sem við gerum er vanhugsað, ranghugsað eða ekkert hugsað.

Sýningin Landnám stendur yfir í Hafnarborg.

Landnám er ljósmyndaröð sem Pétur Thomsen hefur unnið í nokkur ár. Þar er sjónum beint að landsvæðum sem hefur verið raskað og breytt til dæmis með landnýtingu, námavinnslu, skógrækt, jarðrækt og vegagerð.

„Ég byrjaði að vinna að þessari ljósmyndaröð árið 2015 og í heild eru verkin einhverjir tugir. Verkin sem eru á þessari sýningu eru átján, flest frá árinu 2024,“ segir Pétur.

Spurður hvar hann hafi tekið myndirnar segir hann: „Ég bý á Sólheimum í Grímsnesi og er búinn að mynda allt svæðið þar í kring og víða á Suðurlandi. Svo hef ég verið í nokkur ár að taka myndir í Teigsskógi og á sýningunni eru myndir af Teigsskógi og nýja vegarstæðinu þar.

Frá því ég byrjaði á þessu verkefni um samband mannsins við náttúruna hef ég notað hugtakið „landnám“ yfir ljósmyndaverkin. Nú þegar ég sýni í fyrsta sinn sýningu sem heitir Landnám þá fannst mér nauðsynlegt að takast á við það hugtak á víðari grunni og skoða einnig það sem er að gerast við hliðina á okkur, hér í Grindavík, og sýni hraunmyndir þaðan.“

Hraunmyndirnar virka eins og málverk og það má reyndar segja um fleiri ljósmyndir Péturs á sýningunni.

„Myndirnar eru á veggjunum án glers. Sýningargestir eru í beinni snertingu við verkin. Þarna er ekki filter eða gler sem er oft á ljósmyndum en er kannski ekki í málverkinu. Þá getur verið að fólk tengi við ljósmyndirnar eins og málverk,“ segir hann.

Ljósmyndirnar voru allar teknar að nóttu til. „Það er viðleitni hjá mér til að reyna að stjórna betur fagurfræðinni í myndatökunni. Ég hef ljós með mér til að lýsa upp. Svo er þetta bara spurning um vinnsluferli og prentferli en ég prenta á ákveðinn pappír með vissri tækni sem ég hef þróað.“

Hann hefur í langan tíma unnið með samband manns og náttúru í ljósmyndaverkum. „Það má segja að þetta hafi byrjað árið 2003. Ég bjó í Frakklandi og fór að fylgjast með umræðunni um Kárahnjúka. Ég endaði á því að fara þangað og myndaði þar í mörg ár.

Í ljósmyndaverkum mínum er ég að velta fyrir mér beinum áhrifum mannsins á náttúruna og þetta tímaskeið sem við erum komin inn í sem heitir mannöldin en þar sjást spor mannsins úti um allt. Svo hef ég tekið fyrir einstaka kafla til að vinna með, eins og til dæmis landnýtingu, hvernig bændur rækta land, skógrækt, vegagerð, námur og fleira.

Þetta er tímafrek vinna. Ég þarf að ná réttu útliti og þróa tæknina og ná fram þeirri fagurfræði sem ég sækist eftir. Þegar það er komið þá dælast myndirnar út.“

Pétur lærði listasögu í Frakklandi og tók þar kúrs í fornleifafræði. „Það hefur klárlega haft áhrif á verk mín, vinnuferlið og flokkunarferlið,“ segir hann.

Hann segir ljósmyndaverk sín sprottin af umhyggju fyrir náttúrunni enda hefur hann áhyggjur af átroðningi mannsins. „Margt sem við gerum er vanhugsað, ranghugsað eða ekkert hugsað. Mér finnst ég verða að leggja mitt af mörkum til umræðunnar um náttúruvernd. Þetta er mitt framlag til að halda umræðunni og samtalinu á lofti,“ segir Pétur.

Segja má að ný ríkisstjórn landsins hafi átt þátt í að vekja aukaathygli á sýningu Péturs, en formenn stjórnarflokkanna, Kristrún Frostadóttir, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Inga Sæland, völdu sýningarsalinn í Hafnarborg til að kynna helstu stefnumál ríkisstjórnarinnar. Í bakgrunni blöstu við glæsileg verk Péturs Thomsens.

Sýning hans í Hafnarborg stendur til 16. febrúar.

Höf.: Kolbrún Bergþórsdóttir