Ingibjörg Isaksen þingmaður Framsóknarflokksins skrifar um fyrirhugaða þjóðaratkvæðagreiðslu um viðræður um aðild að Evrópusambandinu. Bendir hún á að ekki sé um framhald fyrri viðræðna að ræða, heldur nýjar viðræður sem yrðu tímafrekar og kostnaðarsamar. „Er það tímans og kostnaðarins virði að hefja aftur viðræður á byrjunarreit þegar grundvallarspurningum, sem sigldu viðræðunum í strand síðast, hefur ekki enn verið svarað með fullnægjandi hætti?“ spyr Ingibjörg og svarið blasir við.
En af því að ríkisstjórnin segist vilja spara, og hefur munstrað almenning upp í að veita gervigreind stjórnarráðsins ráð í því sambandi, er einnig ástæða til að benda á grein Haraldar Ólafssonar formanns Heimssýnar. Hann vekur athygli á að ætla megi að árleg aðildargjöld að ESB yrðu um þrír milljarðar króna.
Þessu til viðbótar kæmi auðvitað gríðarlega aukinn kostnaður utanríkisþjónustu Íslands ef ríkisstjórninni tækist að véla landsmenn til að samþykkja aðild að ESB. Þar eru augljóslega milljarðar á ári í húfi þó að vitað sé að áhrif Íslands í Brussel yrðu engin.
Hvernig getur það farið saman að biðja almenning um sparnaðartillögur en leggja um leið upp í rándýra erindisleysu, sem þar að auki mundi, ef illa færi og Ísland yrði aðili að sambandinu, kosta þjóðina milljarða á ári?