Tómas Guðbjartsson er fæddur 11. janúar 1965 í Reykjavík. Hann bjó fyrstu æviárin á Grenimel 29 en flutti þriggja ára á Grenimel 41, þar sem hann býr enn.
„Ég var prakkari og átti til að koma mér í bobba, en námið sóttist vel þrátt fyrir „Tómt-mas“ í kennslutímum. Eftir Tjarnaborg, Melaskóla og Hagaskóla tóku við ekki síðri ár í Menntaskólanum í Reykjavík þar sem líffræðikennarinn Hálfdán Ómar Hálfdánarson kveikti í mér áhuga á mannslíkamanum. Sama ár og ég útskrifaðist úr MR var ég því kominn í læknisfræði í HÍ og sex árum síðar tók við kandídatsár á Landspítala þar sem ég fann að skurðlækningar væru málið. Þarna vorum við hjónin komin með tvö börn og áttum hreiður í kjallaranum á Grenimel 41.“
Tómas vann í þrjú ár sem deildarlæknir á hinum ýmsu skurðdeildum Landspítala áður en fjölskyldan hélt utan til Helsingjaborgar í Svíþjóð þar sem hann hélt áfram sérnámi í almennum skurðlækningum. „Þremur árum síðar var sérfræðiviðurkenning í höfn, en ég hafði skömmu áður ákveðið að „kíkja á“ hjarta- og lungnaskurðlækningar í Lundi – sem er ein stærsta hjarta- og lungnaskurðdeild Norðurlanda. Þarna uppgötvaði ég að hjörtu og lungu væru líffærin sem mig langaði til að vinna með og það var áskorun að fá að taka þátt í flóknum skurðaðgerðum eins og hjarta- og lungnaígræðslum.“
Tveimur árum eftir að Tómas varð sérfræðingur í brjóstholsskurðlækningum í Svíþjóð hélt hann í frekara framhaldsnám í hjartalokuaðgerðum á Brigham and Women’s sjúkrahúsinu í Boston sem er tengt Harvard-háskóla. „Þetta var sérlega gjöfult ár en vinnuharkan gríðarleg. Ég náði því ekki að rækta aðaláhugamál mitt á þessum árum, sem var skvass, en ég hafði verið valinn í íslenska landsliðið í skvassi og keppti á Smáþjóðaleikunum. Því sneri ég aftur til Svíþjóðar, þar sem fjölskyldan undi sér vel, og starfaði sem sérfræðingur í bæði hjarta- og lungnaaðgerðum allt þar til haustið 2005 að staða losnaði á Landspítala, sú fyrsta í 17 ár. Um vorið hafði ég lokið doktorsprófi við læknadeild HÍ og þremur árum síðar var ég ráðinn prófessor í skurðlæknisfræði við HÍ, starf sem hefur veitt mér mikla ánægju, ekki síst klínísk kennsla læknanema og annarra heilbrigðisstétta.
Vísindarannsóknir hafa einnig verið mikilvægur þáttur prófessorsstarfsins og telja birtar greinar sem ég hef komið að hátt í 300 – þar á meðal rannsóknir sjö doktorsnema sem lokið hafa doktorsprófi undir minni handleiðslu, auk tveggja sem áætla að verja ritgerðir sínar á þessu ári. Félagsstörf hafa löngum höfðað til mín en í MR var ég bæði quaestor og inspector scholae og varð síðar formaður Skurðlæknafélags Íslands og forseti norrænu hjarta- og lungnaskurðlæknasamtakanna, SATS. Þar náði ég að byggja upp mikilvægt tengslanet við hinar norrænu hjartaskurðdeildirnar tuttugu, sem hefur gert mér kleift að stýra samnorrænu rannsóknarsamstarfi frá Íslandi.“
Skurðaðgerðir hafa ávallt verið fyrirferðarmesti hlutinn af starfi Tómasar. „Að mínu mati er fátt meira gefandi en að bæta líf fólks með alvarleg veikindi með því að framkvæma aðgerðir við hinum ýmsu hjarta- og lungnasjúkdómum. Fjöldi sjúklinga sem ég hef gert aðgerðir á hérlendis slagar hátt í tvö þúsund. Sérstaklega er ég stoltur af því að hafa tekið þátt í að byggja upp, með læknum úr fjölmörgum öðrum sérgreinum, teymi í kringum greiningu og meðferð lungnakrabbameins. Lungnaaðgerðum hefur fjölgað mikið á undanförnum árum og eru þær nú stór hluti af starfsemi hjarta- og lungnaskurðdeildar Landspítala. Það var góð ákvörðun haustið 2017 að halda í rannsóknarleyfi til Sahlgrenska sjúkrahússins í Gautaborg. Þar náði ég að tileinka mér svokallaðar VATS-aðgerðir við lungnakrabbameini, þar sem notast er við brjóstholssjá og sjónvarp og aðgerðin gerð í gegnum þrjú 1-4 cm stór göt. Síðan hef ég framkvæmt hundruð VATS-aðgerða og er árangur á Landspítala með því besta sem þekkist á Norðurlöndunum. Auk þess hefur náðst að stytta legutíma um helming. Það verður síðan verðugt verkefni að miðla VATS-þekkingu minni til yngri kollega sem vonandi snúa heim á næstu árum, enda við nú aðeins tveir eftir sérfræðingarnir í hjartaskurðlækningum í teymi sem taldi fimm þegar ég sneri heim 2005.
Hvað áhugamál varðar vil ég fyrst nefna barnabörnin mín þrjú sem öll eru ólíkir karakterar en á sama tíma sérlega lifandi og skapgóð. Sem betur fer eru þau öll búsett í Vesturbænum og því get ég heimsótt þau flesta daga. Útivist og fjallgöngur eru síðan næst á listanum. Ég sit í stjórn Ferðafélags Íslands og hef starfað sem fararstjóri á vegum þess í fjallaskíðaferðum og gönguferðum um árabil, m.a. á Herðubreið, Kverkfjöll og lítt kunnar slóðir eins og Ljósárbotna að Fjallabaki. Erlendis hef ég frá tvítugu náð að klífa Mont Blanc, Monte Rosa, Mt. Rainier, Aconcagua, Kala Patharr, Imse Tje, og á sl. ári Matterhorn auk Lobutche og Ama Dablam í Nepal.
Tónlist er mér einnig hugleikin eftir að hafa lært á fiðlu til 16 ára aldurs, ekki síst klassík og djass. Á tímabili fékkst ég við frítíma mínum að skipuleggja hátt í tuttugu djasstónleika, m.a. í samstarfi við Listahátíð. Á síðustu árum hefur ljósmyndun tekið sífellt meiri tíma og síðastliðið vor hélt ég mína fyrstu sýningu. Loks hef ég haft einstaka ánægju af því að endurgera rúmlega 130 ára gamalt timburhús í Arnarfirði þar sem faðir minn fæddist og afi minn og amma keyptu 1918. Húsið er staðsett í Andahvilft í Hvestudal. Það tók fimm ár að gera það upp í upprunalegri mynd. Er framkvæmdum nú að mestu lokið en þessa dagana er ég að leggja lokahönd á 360 bls. bók um sögu gamla bæjarins og Hvestudals sem ég ætla að gefa út í tilefni af sextugsafmæli mínu.“
Fjölskylda
Eiginkona Tómasar er Dagný Heiðdal, f. 22.3. 1965, listfræðingur og deildarstjóri á Listasafni Íslands. Þau kynntust í MR og gengu í hjónaband sex árum síðar. Foreldrar Dagnýjar: Hrefna Smith, hárgreiðslumeistari og forstjóri, f. 9.11. 1944, og Hilmar Heiðdal, múrari og framkvæmdastjóri, f. 2.3. 1941, d. 7.4. 2001.
Börn Tómasar og Dagnýjar eru 1) Guðbjörg Tómasdóttir, grafískur hönnuður og sálfræðinemi, f. 1986, eiginmaður hennar er Torfi Fannar Gunnarsson, myndlistarmaður og sálfræðinemi, f. 1985, búsett í Reykjavík; 2) Tryggvi Tómasson, lyfjafræðingur í Lyfjaveri, f. 1990, eiginkona hans er María Sif Ingimarsdóttir, skurðhjúkrunarfræðingur á Landspítala, f. 1990, búsett í Reykjavík. Barnabörnin eru Hlynur Atli Tryggvason 7 ára, Júlía Ósk Tryggvadóttir 4 ára og Flóra Torfadóttir 2ja ára.
Systkini Tómasar eru Hákon Guðbjartsson verkfræðingur, f. 1966, búsettur í Reykjavík, og Ingibjörg Guðbjartsdóttir lögfræðingur, f. 1985, búsett í Washington.
Foreldrar Tómasar: Guðbjörg Tómasdóttir, dönsku- og íslenskukennari, sem lengst af kenndi við Verslunarskóla Íslands, f. 7.4. 1941, d. 30.10. 2020, og Guðbjartur Kristófersson, fv. jarðfræðikennari við MR, f. 13.6. 1941.
Tómas og Dagný fagna afmælinu með börnum, tengdabörnum, barnabörnum, föður og systkinum og fjölskyldum þeirra í Mayrhofen í Austurríki.