50 ára Vignir býr í Vestmannaeyjum og er þar fæddur og uppalinn. Hann starfar sem hvalaþjálfari hjá fyrirtækinu Sea Life Trust sem rekur griðastað fyrir tvo mjaldra, systurnar Litlu-Grá og Litlu-Hvít, í Klettsvík og í innilaug

50 ára Vignir býr í Vestmannaeyjum og er þar fæddur og uppalinn. Hann starfar sem hvalaþjálfari hjá fyrirtækinu Sea Life Trust sem rekur griðastað fyrir tvo mjaldra, systurnar Litlu-Grá og Litlu-Hvít, í Klettsvík og í innilaug. Einnig er safnið með lunda og fiska til sýnis.

„Ég er búinn að vera hjá þeim í fimm ár og hef tekið ýmsa fjölmenntun sem þarf fyrir starfið. Ég var að vinna hjá Þekkingarsetrinu, þegar verið var að byggja þetta, en Þekkingarsetrið er í sama húsi. Ég var mikið leigður út í að hjálpa þeim í byrjun og þeim leist vel á mig og vildu ráða mig. Ég sagði: Ég kann ekkert að þjálfa hvali. Þau sögðu þá: Við kennum þér það bara, og ég er búinn að vera hér síðan, í meira en fimm ár.“

Starf Vignis felst í að þjálfa hvalina, gefa þeim að éta og svo sinnir Vignir þrifum og alls konar viðhaldi, m.a. með köfun. „Þetta er skemmtilegt starf og þetta eru mjög gáfuð dýr. Til dæmis þegar ég fer í úlpuna mína þá vita þær að ég er að fara heim. Þær reyna þá að fá mig til þess að vera lengur og gefa frá sér hljóð, hálfgert væluhljóð svo ég fari að vorkenna þeim.“

Áhugamál Vignis eru veiðar, bæði stangveiði og skotveiði, pílukast og fótbolti, en hann heldur með Manchester United og ÍBV,

Fjölskylda Eiginkona Vignis er Inga Sigurbjörg Árnadóttir, f. 1985, stuðningsfulltrúi. Synir þeirra eru Hilmar Ingi, f. 2006, Ívar Skæringur, f. 2012, og Georg Snær, f. 2019. Dóttir Vignis frá fyrra sambandi er Aníta Lind, f. 1994. Foreldrar Vignis eru Skæringur Georgsson, 1944, húsasmiður og fv. skrifstofumaður, og Sigrún Óskarsdóttir sjúkraliði, f. 1947. Þau eru búsett í Eyjum.