Veggur Stjörnumaðurinn Orri Gunnarsson verst Nimrod Hilliard í gær.
Veggur Stjörnumaðurinn Orri Gunnarsson verst Nimrod Hilliard í gær. — Morgunblaðið/Karítas
Stjarnan fór aftur upp í toppsæti úrvalsdeildar karla í körfubolta er liðið sigraði KR á heimavelli sínum í Garðabæ í gærkvöldi er 13. umferðinni lauk með tveimur leikjum. Urðu lokatölur 94:86. Stjarnan tapaði óvænt fyrir Val á útivelli í síðustu…

Stjarnan fór aftur upp í toppsæti úrvalsdeildar karla í körfubolta er liðið sigraði KR á heimavelli sínum í Garðabæ í gærkvöldi er 13. umferðinni lauk með tveimur leikjum. Urðu lokatölur 94:86.

Stjarnan tapaði óvænt fyrir Val á útivelli í síðustu umferð og missti toppsætið í hendur Tindastóli á fimmtudagskvöld. Stjörnumenn ætluðu ekki að tapa fyrir öðru Reykjavíkurliði og var sigurinn verðskuldaður.

Eru sigrarnir nú sex í síðustu sjö leikjum. KR er í sjöunda sæti með tólf stig, fjórum stigum frá Njarðvík í öðru sæti og fjórum stigum fyrir ofan Hött sem er í fallsæti. KR hefur mætt toppliðunum tveimur í síðustu tveimur leikjum og ekki verið nálægt sigri.

Stjörnumenn voru yfir svo gott sem allan leikinn og varð munurinn mestur 14 stig í stöðunni 61:47 í þriðja leikhluta. Var staðan í hálfleik 50:41 og voru KR-ingar aldrei líklegir til að jafna í seinni hálfleik, þótt þeir hafi lagað stöðuna aðeins.

Hilmar Smári Henningsson var stigahæstur hjá Stjörnunni með 30 stig og Jase Febres skoraði 26. Nimrod Hilliard skoraði 27 fyrir KR og Þorvaldur Orri Árnason, Þórir Guðmundur Þorbjarnarson og Vlatko Granic gerðu 15 hver.

Rosalegar sveiflur hjá Val

Valur kom flestum á óvart í sigrinum á Stjörnunni í síðustu umferð en ríkjandi meistararnir áttu ekki möguleika gegn Þór frá Þorlákshöfn í gær. Urðu lokatölur 94:69, Þórsurum í vil.

Þór er með 14 stig, eins og Grindavík og Keflavík í 4.-6. sæti. Valur er í 8.-10. sæti með tíu stig. Efstu liðin eru of langt á undan Þór en liðið gæti barist um þriðja sætið næstu vikur og mánuði, þar sem Njarðvík er sem stendur með 16 stig.

Valur er ólíkindatól. Liðið spilar mjög vel á milli þess sem frammistaðan er afleit. Valsmenn eru aðeins tveimur stigum fyrir ofan fallsæti og verða að gera mun betur en í gær til að vera ekki í fallbaráttu út tímabilið.

Þórsarar voru með öll tök á leiknum frá fyrstu mínútu. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 23:10 og hálfleikstölur 47:27. Var eftirleikurinn auðveldur fyrir heimamenn í seinni hálfleik.

Nikolas Tomsick skoraði 23 stig fyrir Þór og Mustapha Heron skoraði 21. Sherif Kenney skoraði 25 stig fyrir Val og Taiwo Badmus tíu.