Vampírumynd „Jafnvel mynd um vampíru getur komið mikilvægum boðskap til skila,“ skrifar rýnir. Lily-Rose Depp í hlutverki sínu í myndinni.
Vampírumynd „Jafnvel mynd um vampíru getur komið mikilvægum boðskap til skila,“ skrifar rýnir. Lily-Rose Depp í hlutverki sínu í myndinni.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sambíóin og Laugarásbíó Nosferatu ★★★½· Leikstjórn: Robert Eggers. Handrit: Robert Eggers. Aðalleikarar: Lily-Rose Depp, Nicholas Hoult, Bill Skarsgård, Aaron Taylor-Johnson, Emma Corrin og Willem Dafoe. Bandaríkin, Bretland og Ungverjaland, 2024. 132 mín.

Kvikmyndir

Jóna Gréta

Hilmarsdóttir

Nosferatu er hrollvekja sem Robert Eggers skrifar og leikstýrir. Kvikmyndin er innblásin af þögulli kvikmynd F.W. Murnau frá 1922, Nosferatu, sem er byggð á hinni þekktu skáldsögu Brams Stoker frá 1897, Drakúla. Óteljandi kvikmyndir byggjast á skáldsögu Stokers, líklega vegna þess hversu margar túlkunarleiðir sagan býður upp á. Það er því alltaf spennandi að sjá hvaða aðferðir leikstjórar nota til að gefa sögunni nýtt líf.

Nosferatu, eftir Robert Eggers, kemst ekki á flug strax og virkar þannig frekar hæg í byrjun. Myndin verður ekki almennilega spennandi fyrr en Thomas Hutter (Nicholas Hoult) heimsækir Orlok greifa (Bill Skarsgård) í kastalann í Transylvaníu. Þá tekur fantasían eða hið yfirnáttúrulega við en Robert Eggers virðist öruggari þar. Stílfærð kvikmyndataka Jarins Blaschke og ýktur leikstíll leikaranna virkar eðlilegri þegar ljóst er að um er að ræða söguheim þar sem vampírur eru til. Til dæmis verður leikurinn hjá Lily-Rose Depp sífellt betri þegar líður á myndina. Hún fer með hlutverk aðalpersónunnar Ellenar Hutter og er mjög góð í atriðunum þar sem leikurinn er fyrst og fremst líkamlegur, sem er í seinni helmingi myndarinnar, þ.e.a.s. í atriðunum þar sem hún á að vera andsetin. Með því að gretta sig, gráta, stynja og skjálfa tekst henni raunverulega að sannfæra áhorfendur um að vampíra girnist hana. Hins vegar í atriðunum í byrjun myndar þegar hún þarf að fara með mikinn texta getur flutningur hennar virkað tilgerðarlegur.

Oft eru vampírumyndir frekar „kamp“, þ.e.a.s. eitthvað svo yfirgengilegt og fáránlegt að því tekst að vera hallærislega töff, en í þessari útgáfu af Nosferatu er hins vegar ekki farin sú leið og því er Nicolas Cage ekki valinn í kunnuglegt hlutverk Drakúla greifa eins og í Renfield (Chris McKay, 2023). Hins vegar er Nicholas Hoult, sem lék titilhlutverkið í Reinfield, einnig í Nosferatu nema í þetta sinn leikur hann Thomas Hutter, elskhuga Ellenar. Hann er fullkominn í hlutverki elskulega lúðans enda ekki svo ólíkt hinu fræga hlutverki hans í Um strák (About a Boy, 2002) eftir Chris Weitz og Paul Weitz. Í Um strák er erfiða konan í lífi hans hins vegar mamma hans en ekki eiginkona sem er andsetin af vampíru.

Aaron Taylor-Johnson leikur Friedrich Harding, besta vin Thomasar Hutter og þann sem hýsir Ellen Hutter á meðan Thomas Hutter er í vinnuferð í Transylvaníu. Í byrjun er eins og að leikarinn átti sig á því hversu fáránlegur hann virkar með þessa stóra silkislaufu á hálsinum og kastandi fram þessum háfleygu orðum og ýkti það enn frekar til að vera fyndinn, sem var góð tilbreyting í annars mjög alvarlegri mynd. Persónan er þannig frekar fyndin í byrjun myndarinnar en missir svo allan lífsneista þegar hörmungarnar hefjast.

Það er ekki hægt að fjalla um Nosferatu án þess að tala um kvikmyndatöku Jarins Blaschke en þetta er í fjórða sinn sem hann og Robert Eggers vinna saman að kvikmynd í fullri lengd. Sum atriði í myndinni voru aðeins lýst með kertaljósi en það er hægara sagt en gert þar sem myndin er skotin á filmu, sem er því ekki eins ljósnæm og stafrænar vélar í dag. Jarin Blaschke virðist hafa sótt innblástur í upprunalegu Nosferatu-myndina þar sem allar nætursenurnar eru litaðar bláar en í aðlögun Roberts Eggers notar Jarin Blaschke filter sem hleypir einungis bláum bylgjulengdum í filmuna til að herma eftir nætursjón okkar. Með því að leita aftur í fortíðina tekst tvíeykinu að búa til mjög sannfærandi og stílískar nætursenur. Robert Eggers og Jarin Blaschke nota skugga einnig mikið eins og í upprunalegu útgáfunni en þeir ganga skrefi lengra í mynd sinni. Í einu atriðinu sjáum við til dæmis skuggamynd af hendi greifans svífa yfir bæinn en um er að ræða ótrúlega flott skot.

Sænski leikarinn Bill Skarsgård er í hlutverki greifans en hann þekkjum við líka sem hryllilega trúðinn Pennywise í Það eða á ensku It (2017) eftir Andy Muschietti. Einungis út frá leikaravalinu er hægt að draga þá ályktun að greifinn eigi eftir að vera hryllilegur. Það kemur því eflaust mörgum á óvart þegar þau sjá að vampíran er djúpraddaður krypplingur með glæsilegt yfirvaraskegg. Með þessu er Robert Eggers hins vegar að færast nær upprunalegu hugmyndinni um vampírur, þ.e.a.s. að að vampírur séu rotnandi lík. Greifinn Orlok er því dauður ungverskur aðalsmaður og aðalsmenn frá þessum tíma voru með glæsileg yfirvaraskegg. Auk þess skartaði Vlad stjaksetjari, eða Drakúla, sem Bram Stoker byggir sögu sína á, vígalegu yfirvaraskeggi. Skeggið, förðunin og búningur vampírunnar virðist því í fyrstu kannski undarleg ákvörðun en þegar betur er að gáð er Robert Eggers í raun að færast nær upprunalegu hugmyndinni. Það er líka í raun hryllilegra að horfa á rotnandi lík heldur en skrímsli af því að rotnandi lík er trúverðugra og í sumum ­atriðum virðist vampíran næstum því vera mannleg. Hægt er að velta því fyrir sér hvort vampíran eigi að vera táknmynd fyrir það illa í mannkyninu. Einnig er gefið í skyn að greifinn Orlok sé í raun og veru dauðinn og Robert Eggers myndar áhugaverða tengingu milli plág­unnar og greifans í myndinni.

Eins og fram hefur komið má túlka sögupersónu og myndina ­Nosferatu á marga vega og þess vegna er sagan eflaust svona langlíf. Í þessari útgáfu á Nosferatu má til dæmis líta á vampíruna sem birtingarmynd kynferðisofbeldis. Í byrjun myndarinnar er atriði þar sem Ellen er nauðgað af Orlok greifa í garðinum heima hjá sér. Ellen er ekki nakin í atriðinu og aðeins skuggamyndir sjást af Orlok greifa en nóg er sýnt til að gefa til kynna hvað sé að gerast. Í stað þess að leggja áherslu á að sýna sjálfa nauðgunin er áherslan lögð á afleiðingarnar, þ.e. martraðirnar og köstin sem fylgdu í kjölfarið. Ellen talar um vampíruna eins og hann sé hennar skömm að bera og þjáist án þess að segja nokkrum manni frá þessu hræðilega leyndarmáli. Ellen er hins vegar engin stúlka í nauðum heldur er það hún sem skilar skömminni til baka og mætir Orlok greifa í lokaatriðinu. Þetta viðfangsefni er vandmeðfarið en þemu ofbeldis og misnotkunar fá viðeigandi vægi í myndinni og það sýnir að jafnvel mynd um vampíru getur komið mikilvægum boðskap til skila.