Vatnsstígur Svona sjá hönnuðirnir fyrir sér að gatan muni líta út. Tryggja á aðgengi bíla að lóðum við götuna.
Vatnsstígur Svona sjá hönnuðirnir fyrir sér að gatan muni líta út. Tryggja á aðgengi bíla að lóðum við götuna. — Tölvumynd/Hnit/Landslag
Borgarráð hefur heimilað umhverfis- og skipulagssviði að bjóða út framkvæmdir vegna endurgerðar Vatnsstígs á milli Laugavegar og Hverfisgötu. Gert er ráð fyrir að hefja framkvæmdir í mars næstkomandi og að þeim verði lokið í ágúst 2025

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Borgarráð hefur heimilað umhverfis- og skipulagssviði að bjóða út framkvæmdir vegna endurgerðar Vatnsstígs á milli Laugavegar og Hverfisgötu.

Gert er ráð fyrir að hefja framkvæmdir í mars næstkomandi og að þeim verði lokið í ágúst 2025.

Til stóð að bjóða verkið út síðastliðið haust en verkhönnun tók lengri tíma en gert var ráð fyrir. Því var ákveðið að fresta útboðinu.

Framkvæmdin er samstarfsverkefni með Veitum. Heildarkostnaðaráætlun er 160 milljónir króna og þar af er hluti Reykjavíkurborgar 100 m.kr.

Framkvæmdin felst í endurgerð götu og veitukerfa á Vatnsstíg milli Laugavegar og Hverfisgötu. Um er að ræða upprif og förgun á núverandi yfirborði, losun klappar, jarðvegsskipti, lagningu fráveitu-, vatns- og hitaveitulagna, ásamt lagningu raf- og ljósleiðaralagna.

Gatan verður í framtíðinni hellulögð göngugata með snjóbræðslu, gróðurbeðum og götugögnum. Nýtt yfirborð verður sams konar og er á Laugavegi við Frakkastíg. Frágangur tengist framtíðarskipulagi og endurgerð á Laugavegi.

Þótt Vatnsstígur verði göngugata verður aðgengi bíla að lóðum tryggt.

Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands bókaði við afgreiðslu málsins að mikilvægt væri að endurgerðin og framkvæmdatíminn verði auglýstur vel gagnvart íbúum og þeim sem fara um svæðið.

Verkið hannar Hnit verkfræðistofa hf. og Landslag ehf. er landslagsarkitekt.

Endurnýjun í götunni

Umræddur kafli Vatnsstígs liggur í halla í átt til sjávar. Mikil endurnýjun hefur verið á götunni á undanförnum árum. Tvö gömul og ónýt hús voru rifin árið 2021 og ný hús reist í þeirra stað. Önnur hús á svæðinu hafa verið gerð upp.

Stærra húsið sem rifið var, Vatnsstígur 4, hafði verið hálfgert vandræðahús um árabil.

Húsið stóð mannlaust og með byrgða glugga í meira en áratug og ástand þess var óneitanlega lýti á miðborginni. Húsið var byggt árið 1901 og var 360 fermetrar.

Það komst í fréttirnar árið 2009 vegna þess að hústökufólk hafði þar aðsetur. Fólkið var fjarlægt með lögregluvaldi í apríl það ár, alls 22 einstaklingar. Á milli fjörutíu og fimmtíu lögreglumenn í óeirðabúningum tóku þátt í aðgerðinni.

Síðar kviknaði í húsinu í tvígang og skemmdist það mikið.

Vatnsstígur og Lindargata draga nafn sitt af Móakotslind sem var eitt helsta vatnsból í Skuggahverfi á 19. öld. Lindin var þar sem Vatnsstígur liggur nú. Eftir að taugaveikifaraldur sem kom upp í Skuggahverfi árið 1906 var rakinn til lindarinnar var fyllt upp í hana árið 1907. Þetta kemur fram í húsakönnun sem gerð var á Vatnsstígsreit árið 2019.

Höf.: Sigtryggur Sigtryggsson