Ekki þurfti Nostradamus til að spá því að Mohamed Salah og Erling Haaland yrðu í baráttunni um markakóngstitilinn í ensku úrvalsdeildinni á yfirstandandi leiktíð. Enda báðir menn markaóðir. Meira innsæi hefði á hinn bóginn þurft til að veðja á að Nýsjálendingurinn Chris Wood kæmi til með að blanda sér í þá ágætu baráttu. Gott og vel, hann mun ef til vill ekki standa Salah og Haaland á sporði en 12 mörk fyrir Nottingham Forest strax í byrjun janúar eru frábær árangur hjá manni sem margur var búinn að afskrifa og orðinn er 33 ára gamall.
Samt er framganga Woods á þessum vetri í raun bara rökrétt framhald á því sem gerðist í fyrra, þegar kappinn skoraði 15 mörk fyrir Forest, á sínu fyrsta heila tímabili í skóginum, sem er hans besti árangur í úrvalsdeildinni frá upphafi. Nú vantar hann bara fjögur mörk til að bæta þann árangur. Ekki væri klókt að veðja gegn því.
Ekki svo að skilja að Wood sé að rifna úr monti og sjálfshóli. „Fari maður upp aðra hlið fjallsins þarf maður á endanum að koma niður hinum megin,“ sagði hann nýlega við BBC Sport og gerðist allt að því Cantona-heimspekilegur.
„Þetta snýst um að komast með sem auðveldustum hætti niður, rífa sig hratt upp og finna nýtt fjall. Andlega hliðin skiptir gríðarlegu máli í íþróttum og geti maður haft einhverja stjórn á þeim málum hjálpar það til.“
Óhætt er að segja að Wood hafi gengið í endurnýjun lífdaga eftir að Portúgalinn Nuno Espirito Santo tók við Forest-liðinu af Steve Cooper fyrir rétt rúmu ári. Til að gera langa sögu stutta þá hefur hann verið aðalkallinn og skorað 23 mörk á þeim tíma. Alls eru úrvalsdeildarmörkin orðin 27 fyrir Forest, sem gerir Wood að markahæsta leikmanni félagsins á því góða móti, sem stofnað var til árið 1992. Gamla metið átti Hollendingurinn Bryan Roy, 24 mörk.
„Maður verður að leita í hlýjuna, til fólks sem kann að meta mann,“ segir Wood. „Hver stjóri hefur sinn eigin stíl og sýn á það hvernig hann vill spila leikinn. Sjálfur hef ég ekkert um það að segja, þetta getur þýtt að ég er úti á túni eða ekki tebolli stjórans. Allt gengur út á að finna leiðir sem virka og sem betur fer hefur það gengið með Nuno. Sjaldnast snýst þetta um mann sjálfan sem persónu eða leikmann, heldur um að tengja hluti saman og búa til lið.“
Hvaða þjálfara dreymir ekki um leikmenn sem hugsa og tala svona?
„Þegar Nuno kom gaf hann mér tækifæri og treysti mér til að byrja leikina. Eitt hefur svo bara leitt af öðru. Ég finn að ég get átt opin og heiðarleg samskipti við hann. Virðingin er gagnkvæm, sem er alls ekki sjálfgefið. Hann er jarðbundinn maður sem leggur áherslu á liðsandann. Hann vill treysta öllum og gerir það þangað til menn bregðast því trausti. Það er frábær leið til að horfa á lífið.“
Og Wood vonar að þetta sé bara byrjunin hjá þeim félögum, Nuno og honum sjálfum. „Ég hef haft marga frábæra stjóra gegnum árin og það er mjög ánægjulegt að bæta einum til við þann góða hóp.“
Lán á lán ofan
Eigi einhver leikmaður skilið að vera metinn að verðleikum þá er það Chris Wood; Nottingham Forest er 12. liðið sem hann leikur fyrir í ensku knattspyrnunni. Eftir að hafa hafið ferilinn heima á Nýja-Sjálandi gekk hann í raðir West Bromwich Albion árið 2009. Þar fékk hann fá tækifæri og var lánaður til sex annarra félaga næstu fjögur árin, mest í B-deildinni. Stóð sig á heildina litið býsna vel og sýndi að hann gæti skorað mörk, fengi hann viðeigandi þjónustu.
„Ég er ekki gaurinn sem leikur á þrjá menn og smellir boltanum síðan upp í bláhornið. Ég stóla alfarið á þjónustu. Fái ég hana ekki, þá skora ég ekki mörk,“ sagði hann við BBC.
Eftir að hafa verið keyptur til Leicester City 2013 lá leiðin til Leeds United tveimur árum síðar og þar fór Wood fyrst á almennilegt flug; gerði 30 mörk fyrir Leeds í B-deild og bikarkeppnum 2016-17.
Það varð til þess að hann fékk loksins alvörutækifæri í úrvalsdeildinni, hjá Burnley. Þar skoraði hann 49 deildarmörk á fimm árum, sem er ekki svo slæmt hjá liði sem lengst af barðist í bökkum í deild þeirra bestu.
Alltént sá mun stærri klúbbur, Newcastle United, eitthvað í stráknum og fékk hann til sín árið 2021. Þar gekk rófan hins vegar ekki og Wood var lánaður og síðan seldur til Forest.
Ekki kemur á óvart að Forest vinni nú hörðum höndum að því að tryggja sér áframhaldandi þjónustu Woods en núverandi samningur hans rennur út í vor. „Það gerist bara þegar það gerist. Ég hef enga stjórn á því og hef engar áhyggjur,“ segir Wood. „Ég get ekki látið þetta trufla mig. Svona lagað tekur tíma og mitt hlutverk er að skora mörk, vinna leiki og standa mig vel fyrir félagið.“
Og hann er hvergi nærri hættur. „Ég hef metnað og vilja til að spila lengi enn. Allt snýst um að hugsa vel um sig og huga að næringunni utan vallar. Mig langar að spila eins lengi og ég get.“