Spursmál
Stefán E. Stefánsson
ses@mbl.is
Ólöf Örvarsdóttir, sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar, segir að mistök hafi átt sér stað þegar ríflega 11.000 fermetra lager- og iðnaðarhúsnæði var reist í Álfabakka, steinsnar frá íbúðabyggð í Árskógum.
Þetta kemur fram í ítarlegu viðtali við Ólöfu á vettvangi Spursmála. Það er aðgengilegt í heild sinni á mbl.is og hlaðvarpsveitum á borð við Spotify. Mætti hún í stað Dóru Bjartar Guðjónsdóttur, formanns umhverfis- og skipulagssviðs borgarinnar, en hún hafði í tvær vikur beðist undan viðtali á þessum vettvangi.
Orðsporið mjög laskað
Segir Ólöf málið mjög bagalegt fyrir borgina.
„Þetta er auðvitað orðsporið okkar sem hefur beðið mikinn hnekki við þetta og við tökum það mjög nærri okkur og ég er Breiðhyltingur þannig að ég þekki þetta svæði vel og þetta er ekki nægilega gott eins og þetta er,“ segir Ólöf.
Hún ítrekar þó að þetta mál sé ekki sprottið af ásetningi. Allir málsaðilar harmi hvernig komið er.
„Það er enginn þarna með slæman ásetning, þetta fór bara ekki vel,“ útskýrir Ólöf.
Margþætt handvömm
Svo virðist sem yfirgripsmikil handvömm hafi leitt til þess að íbúar í Árskógum 7 upplifa sig nú undir fargi hinnar stóru byggingar sem stendur örfáa metra frá húsgafli íbúðarhúsnæðisins, gluggalaus og án nokkurs sýnilegs uppbrots.
„Þetta er ekki slys, þetta gerist ekki óvart. Þarna er búið að taka ítrekað ákvarðanir, sem veldur því að þarna er að rísa stór bygging. Og það hefur verið áformað frá 2009 að þar myndi rísa atvinnuhúsnæði, ekki síst til að skerma af íþróttasvæði sem er búið að skipuleggja í áratugi þarna hjá ÍR. Þannig að það var alltaf vitað að þarna kæmi stórt atvinnuhúsnæði og á lóð eins og þessari má vera með léttan iðnað, það má vera með verslun og þjónustu og skrifstofur og annað slíkt þannig að það hefur alltaf verið vitað og var vitað þegar Búseti fékk sína lóð.“
Þegar gengið er á Ólöfu og spurt hver beri raunverulega ábyrgð á því að mannvirkið reis með þessum hætti vill hún ekki meina að borgin beri þar óskipta ábyrgð og ein. Þar beri einnig eigandi hússins og Búseti ábyrgð sökum þeirra ákvarðana sem teknar voru í ferlinu. Í raun hafi borgin ekki haft tögl og hagldir í málinu eftir að skipulagsvinnu lauk. Þar hefði þurft að leggja línur sem komið hefðu getað í veg fyrir hið óheppilega nábýli.
Ítarlegri skilmálar
„Þarna hefði þurft, í ljósi þess að þarna á að byggja, að gera ítarlegri skipulagsskilmála með skýringarmyndum áður en lóðin var seld. Við gerðum ráð fyrir höfuðstöðvum stórfyrirtækis á markaði [til stóð að bílaumboðið Hekla byggði höfuðstöðvar sínar þarna] og gerðum ráð fyrir ákveðnum glæsileika, alla vega í hluta af húsinu, og þegar við sáum byggingarnefndarteikningarnar þá var fundað yfir þeim og talað um að þetta væri ekki nógu gott og ákveðnar breytingar gerðar eftir það en engu að síður voru þau bara alltaf að vinna samkvæmt sínum heimildum.“
Í viðtali við RÚV undir lok síðasta árs benti Ólöf á að þessir fundir hefðu átt sér stað. Þar sagði hún að skipulagssvið borgarinnar hefði þar gert kröfur um aukið uppbrot á byggingunni á framhlið hennar, þ.e. þeirri sem snýr að umferðarmannvirkjum. Er hún í viðtalinu spurð út í af hverju aukins uppbrots hafi ekki verið krafist á bakhlið hússins.
„Við gerðum kröfur um uppbrot á öllum hliðum hússins, og létum stækka glugga á hluta af því sem var þarna en ég held að þessi hluti hússins, þessi jaðar, hafi verið minna rýndur,“ útskýrir Ólöf.
Og það eru orð að sönnu. Á flennistórri bakhliðinni sem snýr að íbúðunum í Árskógum er ekki gluggi. Raunar er varla að sjái í þakrennu, hvað þá meira.
Lausna leitað
Ólöf segir mikilvægt að leita lausna á þeirri stöðu sem upp er komin. Hún vill þó ekki viðurkenna að vöruhúsið, eða græna gímaldið eins og það hefur verið nefnt, hafi rýrt verðgildi þeirra íbúða sem næst ferlíkinu standa. Því ráði meðal annars auknir atvinnumöguleikar í hverfinu sem stafi af nýbyggingunni umdeildu.
Þá nefnir Ólöf þann möguleika, sem hún hafi raunar fyrst komið auga á í samtali við föður sinn sem er reyndur byggingarmeistari, að gera breytingar á íbúðarhúsnæðinu sem um ræðir. Það gæti meðal annars falist í því að bæta við svölum á íbúðunum sem snúa að vöruhúsinu.
Í viðtalinu er einnig komið inn á þá staðreynd að hið nýja atvinnuhúsnæði hefði raunar getað orðið mun meira að vöxtum en raunin varð. Þannig hafi lóðarhafi haft heimild til að reisa allt að 15.000 fermetra húsnæði. Viðurkennir Ólöf að hefði eigandinn ákveðið að fullnýta heimildina hefði húsið endað hærra en raun ber vitni. Ætli það varpi ekki margir öndinni léttar að hinir framtakssömu skemmueigendur hafi gengið fram af þeirri hófsemd sem þeir þó gerðu. Þetta hefði getað orðið mun verra.
Sparnaðarráð og gos undir jökli
Vítt og breitt
Álits er víða leitað á fréttum vikunnar í Spursmálum að þessu sinni. Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur viðurkennir að hann skoði söguna allt að 300 milljón ár aftur í tímann en Einar Örn Ólafsson forstjóri Play segist ekki aðeins rýna ársreikninga heldur setja mælistiku á ársfjórðunga fyrirtækja, bæði þess sem hann stýrir og annarra.
Einar Örn hafði skömmu áður en hann mætti í útsendingu lagt inn tillögu í samráðsgátt stjórnvalda um það hvernig íslenska ríkið gæti sýnt meiri ráðdeild í rekstri. Sagði hann að það yrði meðal annars gert með því að ríkisstarfsmenn tækju sér fremur far með Play en Icelandair. Þegar rýnt væri í [svar á Alþingi] hvernig alþingismenn höguðu ferðum sínum kæmi í ljós að aðeins 2,5% ferða þeirra væru með Play. Segir hann það skjóta skökku við og fullyrðir að flug með Play sé nær undantekningarlaust ódýrara með hans vélum en þeim sem keppinauturinn gerir út.
Víkur þá sögunni að eldfjallaræðum. Þorvaldur segist vona að Grindavík sé hólpin. Það sé þó ekki fullkomlega ljóst enda geti enn komið til langvarandi goss á Sundhnúkagígsröðinni sem framleiði mikið gosmagn eða brotið sér leið nær byggð. Þegar hann er spurður út í jarðhræringar í Ljósufjöllum segir hann að Snæfellsnesið sé að vakna. Spurður út í Snæfellsjökul segir hann ekki útilokað að hann muni gjósa. Hver hefði trúað því nema mögulega Jules Verne?