Bragi Andrésson fæddist á Saurum í Hraunhreppi 4. apríl 1949. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands 3. janúar 2025.

Foreldrar Braga voru Andrés Guðmundsson (1900-1985) og Lilja Finnsdóttir (1905-1998), bændur á Saurum. Systkini hans voru Guðmundur Ragnar (1926-1984), Hervald (1927-2002), Óskar (1928-2003), Unnur (1929-2018), Guðrún (1930-1983), drengur (1931-1931), Þorsteinn Arnar (1933-2007), Guðbjörg Stefanía (1941-2020) og Ragnhildur (1947-2020).

Bragi ólst upp á Saurum og fór í barnaskóla að Varmalandi. Hestamennska og ræktun átti hug hans alla tíð en hann starfaði einnig sem gæslumaður í Víðinesi, Gunnarsholti, Sogni og fleiri stöðum.

Bragi og fyrrverandi sambýliskona hans, Helga Guðrún Gunnarsdóttir, eignuðust Berglindi Dögg Bragadóttur árið 1980. Berglind á þrjú börn; Iðunni, Ara og Mikkel Hrafn.

Eftirlifandi eiginkona Braga er Júlíanna María Nielsen (f. 1964) og börn þeirra eru Bragi Fryolf (f. 1999) og Bríet (f. 2002).

Útför Braga fer fram frá Eyrarbakkakirkju í dag, 11. janúar 2025, klukkan 13.

Bragi frændi lést í upphafi nýs árs eftir snörp veikindi. Þar með söðlaði yngsta systkinið frá Saurum í Hraunhreppi um og hélt á annað tilverustig. Hann var yngstur níu barna þeirra Lilju Finnsdóttur og Andrésar Guðmundssonar. Með fráfalli hans verða nokkurs konar skil í huga okkar ættmennanna.

Bragi ólst upp við sveitastörf á litlu búi eins og þau tíðkuðust á Mýrunum fram eftir tuttugustu öldinni þegar bústörfin þróuðust frá því að vera unnin með handverkfærum, hestum og hestavélum til þess að vélvæðast með litlum dráttarvélum og tilheyrandi tækjum.

Innanbæjar var alltaf nóg rúm þótt húsakynni væru þröng. Þægindin lítil, húsið hitað frá stórri sólóeldavél á neðstu hæð, vatn úr brunni og ljósfærin voru steinolíulampar. Þar dvöldu sumarlangt ung ættmenni í skjóli hjónanna og tengsl voru náin við skyldmennin þótt stopult væri símaband við umheiminn. Sveitasíminn gegndi sínu hlutverki en stóla varð á takmarkaðan afgreiðslutíma símstöðvarinnar í Arnarstapa. Gestagangur var mikill yfir sumartímann og höfðinglega tekið á móti fólki. Alltaf nóg að bíta og brenna.

Minnisstæðar eru mér heimsóknir til ömmu og afa á Saurum milli jóla og nýárs. Þá var farið með mjólkurbílnum úr Borgarnesi vestur og tóku bræðurnir Bragi og Óskar á móti manni við túnhliðið. Í hönd fóru skemmtilegir dagar þar sem dekrað var við jólagestinn enda Bragi natinn að leika sér við frænku sína. Gengið var til fjárhúsa í rökkrinu og hugað að hrossum í haga sem biðu þess að vera teknir á hús. Á vökunni var hlustað á útvarp, lesið og spilað. Ætli það hafi ekki verið nokkuð jafnt á komið með heimafólki og gesti að þessir dagar glæddu jólin á einhvern hátt og styttu veturinn.

Búskapur á Saurum lagðist af árið 1971 en þá hafði Bragi hleypt heimdraganum. Fljótt hneigðist hugur hans til þess að temja hross. Við það átti hann eftir að vinna víða. Hann náði merkum árangri í hrossarækt og óhætt að segja að góður grundvöllur hafi skapast eftir að hann eignaðist merfolald frá Steina á Kaðalstöðum sem hét Perla. Hún er mörgum minnisstæð á kynbótavellinum. Út af henni komu efnileg hross og er fremst þeirra stóðhesturinn Piltur frá Sperðli.

Bragi vann krefjandi störf á samfélagsstofnunum sunnanlands. Samhliða þeirri vinnu var gott að eiga athvarf á frívöktum og kvöldum fyrir brennandi áhugamál, hestamennskuna.

Það ríkti gagnkvæm virðing og væntumþykja milli máganna Árna á Beigalda og Braga sem gátu rætt tímunum saman um hesta, hrossakyn, eðliskosti og gleði sem hrossin veita þeim sem með þau kunna að fara.

Við leiðarlok er góðum dreng þökkuð samfylgdin.

Eftirlifandi eiginkonu, börnum og barnabörnum er vottuð samúð.

Lilja Árnadóttir.

Við ótímabært fráfall Braga frænda eru mörkuð tímamót kynslóðaskipta.

Samskipti við hann voru mest þegar ég var búsett í Þorlákshöfn og á Selfossi snemma á þessari öld. Í tengslum við störf mín kynntist ég næmni hans fyrir þörfum geðfatlaðra einstaklinga og viðhorfi sem einkenndist af virðingu fyrir öllu fólki óháð lífshlaupi eða veikindum svo eftir var tekið. Um tíma unnum við saman að nýsköpunarverkefni í samvinnu við fyrirtæki á Selfossi. Hann var óhræddur við að skapa þar með atvinnufyrirtæki fyrir fatlaða einstaklinga á Suðurlandi og að fara ótroðnar slóðir í þeim efnum.

Ungur flutti hann úr foreldrahúsum en var sannkallað örverpi foreldra sinna sem eignuðust hann á fimmtugsaldri. Án undantekninga taldi amma það fréttaefni hvenær hún hafði síðast heyrt frá Braga.

Í samskiptum var hann hæglátur og hlédrægur, kom ekki oft í Borgarfjörðinn í erindisleysu, en ávallt til staðar fyrir fólkið sitt þegar þörf var á hjálp hans eða leiðsögn. Stundum fannst mér ég þekkja hann minna en önnur systkini mömmu, sem hafði engin áhrif á tilfinningar mínar í hans garð og undurvænt þótti mér um hann.

En mest og best kynntist ég Braga í gegnum pabba minn en þeir voru nánir og ræktuðu sína vináttu með löngum símtölum um hestamennsku og hrossarækt fyrr og nú. Þegar pabbi kom í heimsókn til okkar á Selfoss var fastur liður að fara í bíltúr á Eyrarbakka. Man samverustundir þeirra í hesthúsinu, mágarnir nutu stundarinnar hver með öðrum og hrossunum. Frumburðurinn Berglind var rómuð af ömmu og allri fjölskyldunni fyrir hnyttin tilsvör og tilburði frá unga aldri. Hún er ekki þeirrar gerðar að láta ráðskast með sig og hefur staðið eins og klettur við hlið elskulegrar eiginkonu Braga og systkina sinna í miskunnarlausum veikindunum.

Elsku Mæja, Berglind, Bragi Fryjolf og Bríet, hugur minn er hjá ykkur og afabörnunum.

Alda Árnadóttir.