Ólafur Ólafsson fæddist 5. maí 1924 í Syðstu-Mörk undir Vestur-Eyjafjöllum. Hann lést 24. desember 2024 á hjúkrunar- og dvalarheimilinu Kirkjuhvoli á Hvolsvelli.
Foreldrar Ólafs voru hjónin Ólafur Ólafsson bóndi í Syðstu-Mörk, f. 1891, d. 1973, og Halla Guðjónsdóttir húsfreyja f. 1892, d. 1970.
Systkini Ólafs eru öll látin: Sigríður, f. 1921; Guðjón, f. 1922; Sigurveig, f. 1925; Sigurjón, f. 1927; Jóhanna Guðbjörg, f. 1928; Árni, f. 1931; Ásta, f. 1939.
Eiginkona Ólafs var Rannveig Júlíana Baldvinsdóttir, f. 1933, d. 2009. Rannveig var dóttir hjónanna Baldvins Guðna Jóhannessonar, f. 1895, d. 1971, sjómanns í Ólafsfirði, og Sigfríðar Björnsdóttur, f. 1898, d. 1978, húsmóður og verkakonu í Ólafsfirði.
Börn Ólafs og Rannveigar Júlíönu eru fjögur: 1) Ólafur, giftur Jakobínu Vilhelmsdóttur, börn þeirra eru: a) Rannveig Rós, b) Halla Ósk. 2) Baldvin Guðni, giftist Ástu Grétu Björnsdóttur, börn þeirra eru a) Harpa, b) Birkir, þau skildu; nú giftur Poosanisa Wichaidit. 3) Ásta Halla, gift Garðari Gunnari Þorgilssyni, börn þeirra eru a) Hildur Ösp, b) Ólöf Sara, c) Ívar Máni. 4) Ingibjörg Ýr, gift Oddi Árnasyni, börn þeirra eru a) Ólafur, b) Bjarki, c) Dórothea. Barnabarnabörn Ólafs og Rannveigar Júlíönu eru 17.
Ólafur stundaði nám við Héraðsskólann á Laugarvatni 1942-44 og við Samvinnuskólann í Reykjavík 1944-46.
Hann hóf störf hjá Kaupfélagi Hallgeirseyjar á Hvolsvelli 1946 sem síðan varð Kaupfélag Rangæinga. Hann starfaði þar til 1959 og var m.a. útibússtjóri á Rauðalæk frá 1954 til 1957.
Ólafur var kaupfélagsstjóri á Ólafsfirði frá 1959 til 1965 og síðan kaupfélagsstjóri Kaupfélags Rangæinga frá 1965 til 1989.
Útför Ólafs fer fram frá Stórólfshvolskirkju í dag, 11. janúar 2025, klukkan 14. Streymi má nálgast á
https://mbl.is/go/apih2
Vegir skiptast. – Allt fer ýmsar leiðir
inn á fyrirheitsins lönd.
Einum lífið arma breiðir,
öðrum dauðinn réttir hönd.
Einum flutt er árdagskveðja,
öðrum sungið dánarlag,
allt þó saman knýtt sem keðja,
krossför ein með sama brag.
Veikt og sterkt í streng er undið,
stórt og smátt er saman bundið.
(Einar Ben.)
Með þessum orðum skáldsins kveð ég tengdaföður minn.
Blessuð sé minning hans.
Jakobína Vilhelmsdóttir.
100 ára höfðingi kvaddur, Ólafur Ólafsson frá Syðstu-Mörk.
Tengdafaðir minn var alltaf fljótur til í ákvarðanatöku og öllu því sem hann tók sér fyrir hendur og þannig var það líka þegar ég hitti hann fyrst, maður var drifinn í eitthvert verkefni. Þannig var það gjarnan þegar við mættumst, alltaf eitthvað að gerast. Sterkar skoðanir og ekki neitt hálfkák. Allir voru jafnir og einstaklega laginn var hann að virkja fólk til að vinna saman og ná settu marki. Hann átti góða og farsæla starfsævi þar sem heilmiklu var komið í verk. Snar var hann til verka og í hreyfingum og stundum lá mikið á, stundum óþarflega mikið. Lífsglaður og orkumikill og einstaklega gaman að vera í kringum hann. Ræktunarmaður af lífi og sál, hvort sem það var mannauður, gróður eða matjurtir. Stangveiði var mikið áhugamál og ófáir fiskar verið dregnir á land í gegnum tíðina. Brids og skák iðkaði hann talsvert mikið einnig og var mjög virkur í félagsmálum. Það eru ófáar trjáplöntur sem mér hlotnaðist að setja niður með honum af mikilli natni og sérvisku sem skilaði sér svo sannarlega í gróskumiklum trjám. Hann hafði dálæti á mat og fátt skemmtilegra en að borða með honum, þar sem maturinn var oftast sá albesti sem hann hafði borðað: „Þetta er albesti matur sem ég hef fengið,“ ekki slæmt að heyra það. Ógleymanleg ferðalög með honum og Rönnu, oftast mjög viðburðarík. Ekki hjá því komist að nefna Þórsmörk, en þar var hann á heimavelli og þekkti hvern stein og hverja þúfu, enda í bakgarði æskuheimilisins í Syðstu-Mörk. Með mikilli virðingu og þakklæti fyrir allt kveðjum við tengdaföður minn hinstu kveðju og nærumst á góðum minningum.
Sárt er vinar að sakna.
Sorgin er djúp og hljóð.
Minningar mætar vakna.
Margar úr gleymsku rakna.
Svo var þín samfylgd góð.
Daprast hugur og hjarta.
Húmskuggi féll á brá.
Lifir þó ljósið bjarta,
lýsir upp myrkrið svarta.
Vinur þó félli frá.
Góða minning að geyma
gefur syrgjendum fró.
Til þín munu þakkir streyma.
Þér munum við ei gleyma.
Sofðu í sælli ró.
(Höf. ók.)
Kveðja góð,
Oddur Árnason.
Elsku afi.
Nú ert þú kominn upp til ömmu, hún hefur beðið eftir þér lengi. Þú fékkst frið á aðfangadagskvöld, sem var fallegur tími til að kveðja. Að kveðja þig á Þorláksmessukvöld var erfitt, þú fékkst síðasta kossinn og ég vissi að nú væri komið að kveðjustund. Það er sárt að kveðja og sakna en gott að ylja sér við allar góðu minningarnar sem ég á af þér.
Minningarnar og góðu stundirnar eru vissulega margar sem ég á af okkur saman. Þær bestu eru án vafa þær úr Syðstu-Mörk. Stundirnar í sumarbústaðnum sem ég átti með þér og ömmu eru ótalmargar og líklegast þær dýrmætustu sem ég á úr barnæsku. Það var alltaf nóg að bralla og stússast með þér afi. Og oft vorum við frændsystkinin saman komin í kringum þig, því alltaf vorum við velkomin með þér. Þú vildir allt fyrir mann gera, varst alltaf tilbúinn að rétta hjálparhönd og alltaf var stutt í grín og glens í kringum þig. Aldrei leiddist manni með þér. Það er mér sérstaklega minnisstætt þegar þú leyfðir okkur systkinabörnunum að sitja á kerrunni, þegar við keyrðum yfir Aurana og upp í bústað. Það var í miklu uppáhaldi hjá okkur, þó svo að foreldrar okkar hafi ekki alltaf verið jafn hrifnir af því. Í bústaðnum eyddum við mörgum stundum saman. Það var sjaldan sem þú sast auðum höndum. Þú ætlaðir þér að græða fallegt land á lóðinni þinni í Syðstu-Mörk, sem þér vissulega tókst. Alltaf fengum við frændsystkinin að vera með, hvort sem það var að sá eða planta trjám, taka upp kartöflur, gulrætur eða rófur, tína ber, sinna girðingarvinnu, höggva í eldinn eða bera á pallinn. Já verkin voru mörg, en þú hafðir alltaf gaman af þeim og leið þér best með fjölskylduna þína með í verki.
Þegar ég hugsa til baka þá eru orðin sem lýsa þér svo ótal mörg. Trjárækt, garðvinna, blóma- og trjáaunnandi, ræktin, leikfimi eldri borgara, laxveiðar, einn fyrir matinn, Kanaríferðir, skák, bridge, stofnandi Rótarýklúbbsins og Félags eldri borgara á Hvolsvelli, kaupfélagsstjóri, hóteleigandi og stofnandi og bókari.
Þú varst allt þitt líf mikil félagsvera, menntaðir þig bæði á Laugarvatni og í Reykjavík og settir þér ávallt há markmið. Þú varst frumkvöðull á svo margan hátt og áttir stóran þátt í uppbyggingu Hvolsvallar og samfélaginu þar.
Það að hafa fengið að alast upp með þér elsku afi eru forréttindi og alls ekki sjálfgefið. Takk fyrir að hugsa alltaf vel um mig og börnin mín. Þú varst sérstaklega stoltur yfir því hversu sterkur Gabríel minn var í veikindunum sínum, þegar hann var sem veikastur. Þú spurðir reglulega um hann og vildir alltaf af honum að vita. Studdir við bakið á okkur í Boston-ævintýrinu og sagðir að hann væri hreint út sagt ótrúlegur sá litli. Ég og mín fjölskylda eigum eftir að sakna þín elsku afi, það verður tómlegt að koma á Hvolsvöll án þess að geta kíkt á afa.
Nokkrar línur að lokum, sem eiga vel við á kveðjustundu.
Til þín ég hugsa,
staldra við.
Sendi ljós og kveðju hlýja.
Bjartar minningarnar lifa
ævina á enda.
(Hulda Ólafsdóttir)
Takk fyrir allt elsku afi. Þín afastelpa,
Hildur Ösp.
Elsku afi.
Það voru forréttindi að hafa fengið að alast upp við þá ást og umhyggju sem þið amma sýnduð afkomendum ykkar. Allar samverustundirnar sem við áttum saman. Ógleymanlegar eru allar þær ferðir sem farnar voru í sumarbústaðinn og sögurnar af hinum ýmsu kynjaverum sem þar fyrirfundust. Verkefnin voru alltaf næg og naust þú þín alltaf best þegar eitthvað var fyrir stafni, hvort sem það voru trjáklippingar, heyskapur eða matjurtabúaskapurinn. Alltaf fengum við að vera með, alltaf varstu tilbúinn að gefa af þér og kenna okkur krökkunum. Ég hef lagt mig fram við að reyna að viðhalda þessari þekkingu og alltaf þegar ég fæst við garðrækt eða annað sem ég var svo heppinn að hafa lært af þér hugsa ég hvernig skyldi afi hafa gert þetta.
Afi var mikill höfðingi, hann hefur með verkum sínum stutt við samfélagið sitt, hann var hvatamaður að uppbyggingu stórs hluta af Hvolsvelli og gerði mörgum íbúum kleift að byggja sér íbúðarhús á Hvolsvelli þegar hann var þar kaupfélagsstjóri. Hann byggði ásamt ömmu upp Hótel Hvolsvöll og rak um árabil. Hann fór oft ótroðnar slóðir og hræddist ekki ryðja brautina fyrir aðra. Hann var hvatamaður að stofnun og starfrækslu margra félagasamtaka í samfélaginu í Rangárþingi og því bæði vinamargur og þekkt persóna. Nær alltaf þegar maður hefur verið spurður í gegnum tíðina hvaðan maður komi, hefur maður getað sagt frá því að maður sé barnabarn Ólafs Ólafssonar kaupfélagsstjóra og þá þekktu allir deili á manni.
Garðræktin í Öldugerðinu átti svo hug þinn allan og guð minn góður, þvílíkur skrautgarður sem þið amma áttuð og ræktuðuð alla tíð, langt fram á tíræðisaldur hélstu garðinum við af miklum myndarskap þannig að maður fylltist stolti af því að fara hjá og vita hver hefði verið þar að verki.
Við nutum ófárra samverustunda á seinni árum vegna óbilandi metnaðar í að takast á við innreið tölvutækninnar. Þrátt fyrir að vera kominn á tíræðisaldur var hún þér engin fyrirstaða, bridge var spilað og skák tefld í gegnum netið og Facebook þurftirðu að hafa. Þetta gekk ekki alltaf alveg snurðulaust fyrir sig en þá hringdirðu ævinlega í mig: „Sæll Bjarki minn, það er einhver draugur í tölvunni hjá mér, máttu nokkuð vera að því að kíkja aðeins á mig?“ Stundum læddust Facebook-skilaboð þangað sem þau áttu ekki að fara, en það hendir nú svo sem alla.
Þrátt fyrir að hafa skilið við ertu ennþá að hafa áhrif, eftir andlát þitt hefur þú látið þig læknamálin varða og komið fram í ófáum fréttatímum og blaðagreinum. Það var þér líkt, það skyldi þó ekki verða svo að þitt seinasta verk hér með okkur yrði að koma læknamálum í Rangárþingi í samt lag.
Elsku afi, ég er svo þakklátur fyrir að hafa fengið að þekkja þig í rúm 30 ár. Nú ertu hins vegar kominn til ömmu og allra þinna samferðamanna sem þú varst farinn að sakna. Samfélagið hefur misst einn af sínum bestu mönnum. Afi, minning þín lifir okkur til huggunar.
Þótt döpur sé nú sálin,
þó mörg hér renni tárin,
mikla hlýju enn ég finn
þú verður alltaf afi minn.
(Höf. ók.)
Þinn afastrákur,
Bjarki Oddsson.
Af mörgu er að taka þegar litið er yfir rúmlega 100 ára lífshlaup elsku afa, sem alltaf leið best þegar hann hafði nóg að gera með fullt af fólki í kringum sig. Fyrstu minningar mínar af afa eru samofnar lífi hans og ömmu Rönnu á Hlíðarvegi 15 og seinna í Öldugerðinu. Afi moldugur upp fyrir haus í einhverju blómabeðinu, arkandi um grasflötina ýtandi sláttuvél á undan sér í gúmmístígvélum sem búið var að bretta niður til hálfs, sýslandi við að ferja veiðidót og stengur í gamla Bronco-inn og seinna hina langlífu Lödu-Sport og gera sig tilbúinn fyrir enn eina veiðiferðina, eða að kenna stelpuskottinu mannganginn og grunnatriðin í tafli. Einnig á ég ljóslifandi minningar af honum sitjandi við skrifborðið sitt í Kaupfélaginu með krosslagða fætur uppi á borði með símtólið límt við eyrað, kippandi sér lítið upp við það þó að stelpuskottið væri að dunda sér inni á skrifstofunni hans á vinnutíma og sennilega oft með spurningar um hin og þessi málefnin.
Ekki er hægt að minnast afa án þess að nefna byggingu sumarbústaðarins í Syðstu-Mörk þar sem við stórfjölskyldan eyddum ófáum helgum við byggingu bústaðarins þeirra ömmu og afa og ekki síður uppgræðslu á landinu þar í kring. Með afa plantaði maður ógrynni af birkihríslum og öspum, bar áburð á flatirnar, klippti greinar og sló gras ásamt því að setja niður eða taka upp kartöflur og annað grænmeti. Alltaf nóg að gera, ekkert verk óyfirstíganlegt, bara drífa sig af stað, ávallt fremstur manna og ekkert hangs, enda áttu flestir fullt í fangi með að fylgja honum eftir þó að ekki sé hægt að segja að hann hafi verið stórstígur. Afi fór ekki aðeins hratt yfir á tveimur jafnfljótum, þær eru margar eftirminnilegar bílferðirnar með honum neðan úr Landeyjum þar sem hann sótti okkur fjölskylduna á Bakkaflugvöll eftir að við höfðum flogið frá Eyjum meðan fjölskyldan bjó þar. Mamma yfirleitt búin að spenna okkur systur tryggilega í aftursætin og gefa okkur ströng fyrirmæli um að trufla ekki afa við aksturinn, enda var hann sjaldnast undir löglegum hámarkshraða og ekkert endilega með augun á veginum meðan hann þeystist með okkur á Monsunni góðu eftir malarveginum segjandi fréttir af mönnum og málefnum.
Afi var alla tíð mjög félagslyndur og sinnti hinum ýmsu félagsstörfum. Hann gat talað við alla og setti ekki aldur fólks né stöðu þess fyrir sig. Afi hafði einstaklega gaman af að fagna með fólki í góðum félagsskap og er afskaplega eftirminnilegt þegar hann mætti í brúðkaupið okkar Atla fyrir 10 árum, þá 90 ára gamall, og skemmti sér manna best og neitaði að láta keyra sig heim fyrr en löngu eftir miðnætti. Afi fylgdist alla tíð vel með fólkinu sínu og vildi halda góðu sambandi við það. Eftir að amma Ranna dó vildi hann alltaf að maður kæmi við hjá honum ætti maður leið gegnum Hvolsvöll, það skipti ekki máli hvort maður var einn á ferð eða með hóp af fólki með sér, alltaf var boðið í kaffisopa/eplasafa og kökur úr búðinni.
Elsku afi, takk fyrir allt, minning þín lifir.
Þín afastelpa
Rannveig Rós.
Í fórum mínum er myndband, ekki ýkja gamalt, þar sem systkini frá Syðstu-Mörk undir Eyjafjöllum eru samankomin, Ólafur móðurbróðir minn, sem nú er sérstaklega minnst, Guðjón, mamma Sigurveig og Ásta. Þau sögðu sögur úr æsku sinni í Syðstu-Mörk, hlógu og þeim leið sællega. Hin systkinin, Sigga, Sigurjón, Hanna og Árni, hlógu líka oft og innilega og þegar leiðir systkinanna lágu saman fögnuðu þau með kossum og faðmlögum. Það var ekki síst Syðsta-Mörk sem varð samkomustaður þeirra og afkomendanna í gegnum tíðina.
Þangað komu Ólafur afi og amma Halla 1920, hófu búskap í húsi og moldarkofum sem gaf af sér það sem myndi í dag teljast til tæprar lífsafkomu. Þau byggðu upp frá litlu, til varð fjós og hlaða, nýtt íbúðarhús reis vorið ´39, milli sauðburðar og sláttar, fjölskyldan dvaldi í hlöðunni á meðan. Íslenski sveitadraumurinn rættist, stærra fjós og hlaða risu. Auk þessa fæddust ömmu og afa átta börn á árunum ´21 til ´39 og öll lifðu þau vel og lengi. Nokkur hafa verk og handtök verið á bænum!
Ólafur fór í Samvinnuskólann og gerðist einarður félagshyggjumaður. Eftir viðkomu á nokkrum stöðum var hann lengi kaupfélagstjóri á Hvolsvelli, einatt eftir það var hann kallaður Ólafur kaupfélagsstjóri, enda gætti áhrifa hans á Hvolsvelli og í Rangárþingi löngu eftir að hann lauk störfum.
Einhvern tíma heyrði ég Ólaf svara þeim sem spurði, gott ef ekki Rannveigu konu hans, hvað hann hefði gert ef hann hefði ekki orðið kaupfélagsstjóri á Hvolsvelli; jú, hann hefði orðið bóndi undir Eyjafjöllum! Rætur og uppruni skipta miklu og ferðir Ólafs til Syðstu-Merkur, uppbygging bústaða og lóða þar og trjáræktin öll eru því til staðfestingar.
Ólafur og Rannveig, sem lést 2009, skutu yfir mig skjólshúsi sumarið ´74, skólastrák í byggingarvinnu Þá voru byggð hús á vegum kaupfélagsins að undirlagi Ólafs. Þarna unnum við líka saman og brölluðum ég og Óli yngri, frændi minn og ævivinur. Ég var í fæði og vist hjá Rannveigu, sem stjórnaði ekki síður stóru búi en kaupfélagsstjórinn; gleymi aldrei signa fiskinum sem hún kenndi mér að borða, lostæti! Með þessari nýju fjölskyldu minni fór ég í eftirminnilegan veiðitúr á Fjallabak. Daginn fyrir veiði tjölduðum við í Landmannalaugum í flottu hústjaldi og fengum drykk. Svo var haldið áfram Fjallabak. Veiðin var afbragðsgóð, ekkert okkar gleymdi þessum túr, oft höfum við um hann talað.
Gestagangur var mikill á heimili þeirra hjóna og gaman var að fylgjast með því mannlífi öllu. Hvernig þeim tókst að reka með myndarbrag Hótel Hvolsvöll ofan á allt annað skil ég eiginlega ekki en það var sannarlega gaman að fá að sjá og taka þátt.
Ólafur var þrekmenni til athafna, vinnu og félagslífs. Hann gaf af sér til síns fólks og samfélags. Nú er það ljúf skylda okkar, ættmenna og afkomenda, að halda uppi heiðri hans og minningu, sem og systkinanna frá Syðstu-Mörk og maka þeirra, fólksins sem afhenti okkur arfinn, viðhalda sameiningu og hefð sem hefur ríkt í þeirra lögum. Við minnumst Ólafs kaupfélagsstjóra með gleði.
Ritað í Syðstu-Mörk á nýársdag 2025,
Haukur Hjaltason.
Þegar jólin gengu í garð kvaddi hinn eftirminnilegi öldungur, samvinnu- og félagsmálamaður Ólafur Ólafsson þetta jarðlíf. Ólafi auðnaðist að lifa heila öld. Á þessum tíma hafa lífsskilyrði á Íslandi breyst með þeim hætti að líkara er draumi en veruleika. Ólafur stóð í stafni, var kyndilberi og brautryðjandi á fjölmörgum sviðum. Fyrst sem ungur öflugur ungmennafélagsmaður og nam í Samvinnuskólanum undir handleiðslu Jónasar frá Hriflu. Úr þeim skóla kemur Ólafur fullur eldmóðs með samvinnuhugsjónina að leiðarljósi. Hann var sannur framsóknarmaður og gegndi trúnaðarafstörfum fyrir flokkinn. Ólafur stofnaði bridds- og skákfélög í héraði, enda lunkinn á þeim sviðum. Hann varð starfsmaður kaupfélaganna í Rangárþingi, verður kaupfélagsstjóri Kaupfélags Ólafsfjarðar, enda Rannveig hans Ólafsfirðingur, og þau flytja síðan aftur með fjölskylduna á Hvolsvöll 1965. Þar tekur hann við góðu búi frænda síns, Magnúsar Kristjánssonar. Í kaupfélagsstjóratíð Ólafs varð mikill uppgangur á Hvolsvelli, þar voru margir öflugir starfsmenn og fjölbreytt atvinnuuppbygging. Kaupfélagið hafði hafist handa við byggingu íbúðarhúsa og áfram var haldið, byggð yfir 40 íbúðarhús sem seld voru á afar sanngjörnu verði. Þetta var fyrir tíma verðtryggingar og þarna var lagður grunnur að efnahagslegri farsæld fjölda fólks.
Fyrir 34 árum varð ég óvænt sveitarstjóri í gamla sveitarfélaginu mínu. Þá var Ólafur hættur fastri vinnu. Hann var enn fullur orku, stofnaði bókhaldsskrifstofu og stóð fyrir stofnun félags eldri borgara í sýslunni. Ólafur var mikill hugmaður og til eru af honum margar skemmtilegar sögur. Hann var óþreyjufullur, gat t.d. aldrei beðið eftir viðtali við unga sveitarstjórann. Hann var alltaf kominn inn á gafl áður en við var litið. Eitt sinn var virðulegur fjármálaráðherra í heimsókn, þegar Ólafur hratt upp skrifstofuhurðinni. Hann heilsaði upp á nafna sinn ráðherrann, enda þekktust þeir úr pólitíkinni og ráðherrann eyddi meiri tíma í viðræður við Ólaf en mig. Engu að síður varð fundurinn afdrifaríkur og mjög mikilvægur fyrir samfélag okkar. Ólafur fór hratt yfir, það átti líka við þegar hann sat undir stýri. Það var ekki nema fyrir hugmenn að ferðast með honum í bíl. Forðum daga tók hann mig með á framboðsfund á Selfossi. Hann ók á ofsahraða eftir holóttum veginum enda sjálfur í framboði, svo leit hann eldsnöggt á mig: „Ert þú hræddur?“ Ég svaraði fölur og hikandi: „Já en ég skal lofa að kjósa Framsókn ef þú hægir á þér.“ Kyrrð og friður hvílir nú yfir hugmanninum Ólafi Ólafssyni sem skilur eftir sig ómetanlegt og fjölbreytt dagsverk og margar minningar.
Árið 1966 stóð hann fyrir stofnun Rótarýklúbbs Rangæinga. Alls staðar stóð Ólafur í stafni áhugasamur og fullur af eldmóði. Á Hvolsvelli er bekkur sem Rótarýklúbburinn lét gera til þess að minnast aldarafmælis höfðingjans. Við Rótarýmenn minnumst brautryðjandans með virðingu og þakklæti. Það er okkar að halda uppi minningu hans með öflugu starfi klúbbsins. Hvíl í friði góði félagi.
Ísólfur Gylfi
Pálmason.
Einstakur vinur og Rótarýfélagi er látinn, en bjartar minningar um yndislegan mann munu lifa áfram í huga mínum. Margs er að minnast þegar litið er yfir farinn veg liðlega sextíu ára samskipta við þennan sómadreng. Ég minnist þeirra samverustunda og samskipta með söknuði og virðingu.
Ólafur gegndi fjölda trúnaðarstarfa og var sannur frumkvöðull í sínu héraði og hafði mikil áhrif á hvernig byggð og mannlíf þróaðist í Rangárvallasýslu, eins og minningargreinar um þennan mæta mann munu án efa greina frá.
Ólafur var gæddur miklum mannkostum, góðum gáfum, velviljaður og vinafastur, sannur Íslendingur og afar heilsteypt manneskja. Hann kom til dyranna nákvæmlega eins og hann var klæddur og tjáði skoðanir sínar umbúðalaust.
Ég vil með nokkrum orðum gera grein fyrir því af hverju við félagar Ólafs í Rótarýklúbbi Rangæinga nefndum hann gjarnan herra Rótarý. Ólafur varð félagi í Rótarýklúbbi Ólafsfjarðar árið 1960, það er fyrir nærri 85 árum síðan og stofnaði nærri einhendis Rótarýklúbb Rangæinga árið 1966. Hann var forseti klúbbsins fyrstu tvö starfsárin og mótaði starfið. Ákveðið var að halda fundi klukkan 18:30 á fimmtudögum, sem hefur verið æ síðan, það var talið vænlegt því þá var blessunarlega ekkert sjónvarp á þeim kvöldum. Ólafur lagði alltaf áherslu á að innra starf klúbbsins yrði fjölbreytt og þróttmikið. Vorfundir klúbbsins hafa ávallt falist í ferðum til ræktunar lýðs og lands. Þá fór hann gjarnan hamförum í dugnaði og atorku við uppgræðslustörfin – ég er svo hraustur var hans viðkvæði.
Ólafur ritaði sögu klúbbsins árið 2008 og því verður ekki tíunduð frekar sú merka saga sem hann skapaði með einstökum dugnaði sínum og fítonskrafti sem honum var einum lagið. Það fer vel á því að hafa eftir Ólafi stöku hans á klúbbfundi þegar rætt var um hvernig við gætum eflt klúbbstarfið, sem honum fannst alls ekki nógu öflugt.
Mjög er þungt í mínu hjarta
mig langar að fara stólinn í
láta skína ljósið bjarta
og lýsa upp vort Rótarý.
Að leiðarlokum er mér efst í huga söknuður og þakklæti fyrir áralanga vináttu, drengskap og samskipti sem aldrei bar skugga á. Það var mér mikill heiður að fá að starfa með Ólafi og eiga við hann samskipti. Öll voru þau á einn veg, hann var traustur félagi, hreinn og beinn og frá honum stafaði mikil innri hlýja. Það voru forréttindi að kynnast honum og minningin um góðan dreng lifir.
Afkomendur, fjölskyldur, ættingjar og vinir kveðja nú mikilhæfan mann með söknuði og þakklæti fyrir að hafa fengið að njóta samvistanna við hann. Ég bið þeim Guðs blessunar og votta þeim mína dýpstu samúð.
Sveinn Runólfsson.