Knattspyrnumaðurinn Viðar Örn Kjartansson hefur samið við KA um að leika áfram með liðinu í Bestu deildinni á komandi tímabili. Viðar kom til Akureyrar eftir tíu ár erlendis fyrir síðasta tímabil og skoraði sex mörk í 22 leikjum í deildinni, öll í síðustu tólf umferðunum.
Knattspyrnumaðurinn Júlíus Magnússon er kominn í raðir sænska félagsins Elfsborg frá Fredrikstad í Noregi, þar sem hann var fyrirliði. Hann gerði samning við Elfsborg til ársins 2029 í gær. Elfsborg greiddi Fredrikstad tíu milljónir norskra króna fyrir Júlíus.
Jón Erik Sigurðsson sigraði á alþjóðlegu móti ungmenna í svigi í San Giovanni di Fassa á Ítalíu í gær. Íslendingurinn var í þriðja sæti eftir fyrri ferðina og glæsileg seinni ferð skilaði honum fyrsta sigrinum á erlendri grundu.
Áki Debes Samuelsen, knattspyrnumaður frá Færeyjum, er á leið til Víkings að sögn færeyska netmiðilsins in.fo. Áki er tvítugur leikmaður HB í Þórshöfn og færeyska 21-árs landsliðsins. Hann er kantmaður og hefur skorað 20 mörk í 46 leikjum í færeysku Betri deildinni undanfarin tvö ár.
Frjálsíþróttakonan Erna Sóley Gunnarsdóttir og júdómaðurinn Skarphéðinn Hjaltason voru valin íþróttafólk Mosfellsbæjar árið 2024 og voru heiðruð við hátíðlega athöfn í Hlégarði á fimmtudaginn. Erna keppti fyrst íslenskra kvenna í kúluvarpi á Ólympíuleikum og setti Íslandsmet í greininni á árinu 2024. Skarphéðinn varð tvöfaldur Íslandsmeistari á árinu. Við sama tilefni var karlalið Aftureldingar í knattspyrnu valið afrekslið Mosfellsbæjar, Magnús Már Einarsson þjálfari liðsins valinn þjálfari ársins og móðir hans Hanna Símonardóttir valin sjálfboðaliði ársins.