„Ég þurfti að taka ákvörðun hvort ég vildi halda áfram að vinna í bankanum og kveða þá í kútinn þessa hlið á mér sem hafði mjög miklar skoðanir á þjóðfélagsmálunum eða átti ég að taka sénsinn og hlýða kallinu? Ég stökk bara á þetta án þess að hafa nokkuð fyrir mér hvort þetta myndi ganga upp,“ segir Kristrún.
„Ég þurfti að taka ákvörðun hvort ég vildi halda áfram að vinna í bankanum og kveða þá í kútinn þessa hlið á mér sem hafði mjög miklar skoðanir á þjóðfélagsmálunum eða átti ég að taka sénsinn og hlýða kallinu? Ég stökk bara á þetta án þess að hafa nokkuð fyrir mér hvort þetta myndi ganga upp,“ segir Kristrún. — Morgunblaðið/Ásdís
En í grunninn hef ég alltaf verið jafnaðarmaður og ég vissi að nýstárlegustu hugmyndir í hagfræði eru mjög velferðarsinnaðar. Mér fannst oft umræðan hér á Íslandi mjög gamaldags og úrelt; byggð á gömlum hagfræðikenningum. Það vantaði annan strúktúr í umræðuna.

Í myrkri og kulda er bankað upp á dag einn í vikunni hjá nýjum forsætiráðherra landsins sem staddur er í forsætisráðuneytinu í gamla Stjórnarráðshúsinu við Lækjargötu. Blaðamaður er feginn að komast inn í birtu og yl og innan skamms birtist Kristrún Frostadóttir með bros á vör, tilbúin í daginn. Á þessum nýja og háttsetta vinnustað bíða hennar krefjandi verkefni, en stjórn undir hennar forrystu hefur nú tekið við eins og alþjóð veit. Ekki er laust við að birt hafi yfir þjóðinni nú í svartasta skammdeginu og von hefur kviknað um að betri tímar fari í hönd.

Tilefni fundar okkar er ekki að fara enn eina ferðina yfir stefnumálin, kosningaloforðin eða samningaviðræður flokkana, heldur að forvitnast um manneskjuna á bak við stjórnmálamanninn. Hvaðan kemur hún og hvað drífur hana áfram? Hver er þessi kona sem kom eins og stormsveipur inn í íslensk stjórnmál fyrir aðeins örfáum árum, vann hug og hjörtu landsmanna og situr nú í stól forsætisráðherra? Við skulum komast að því!

Hófsemi og nægjusemi í fyrirrúmi

Kristrún Mjöll Frostadóttir er fædd í maí árið 1988 í Reykjavík, dóttir þjóðháttafræðingsins Frosta Fífils Jóhannssonar og læknisins Steinunnar Guðnýjar H. Jónsdóttur. Hún er yngst þriggja systkina, alin upp í Fossvogi.

„Við erum mjög náin fjölskylda. Ég bjó í Dalalandinu til tólf ára en þá fluttum við yfir Bústaðarveginn í Smáíbúðahverfið. Ég átti mjög góða æsku og er alin upp af nægjusömu fólki. Þau eru hófsöm í öllu sem þau gera; pabbi er sveitamaður alinn upp í Lýtingsstaðahreppi í Skagafirði í stórum bræðrahópi. Það hafði áhrif á mig að hann er praktískur maður sem fer vel með allt. Foreldrar mínir voru fyrst og fremst að gera vel við okkur krakkana og höfðu okkur oft með í ráðum. Það kom til tals þegar ég var um tíu ára gömul að flytja í stærri íbúð en að þá yrði til minna fyrir öðrum hlutum, eins og að fara í frí. Þau báru þetta undir okkur og leyfðu okkur að velja. Þetta situr mjög í mér. Við völdum frekar að búa þrengra og fá þá að upplifa meira,“ segir Kristrún og nefnir að fjölskyldan hafi flutt til Bretlands í eitt ár þegar hún var átta ára þar sem móðir hennar fékk stöðu heimilislæknis á heilsugæslu.

„Þau rifu sig upp og fluttu með okkur út til þess að við gætum fengið að upplifa að búa í öðru landi. Þetta færði mér nýtt tungumál og ég tala reiprennandi ensku vegna þess.“

Var mikið rætt um stjórnmál við matborðið?

„Ég er ekki alin upp á mjög pólitísku heimili. Foreldrar mínir kynntust reyndar í Svíþjóð á jafnaðarárum Olofs Palme og pabbi var pólitískur í háskóla og hafði sterkar skoðanir, en þau voru aldrei virk í flokkum. Mér var aldrei beint í þessa átt, en þau hafa mjög sterk félagsleg gildi, sem mótaði mig mjög mikið. Það er ekki til snobb á heimili foreldra minna, ekkert yfirlæti og alltaf talað vel um alla. Það var aldrei eytt um efni fram og til dæmis var aldrei keyptur glænýr bíll á heimilið. Ég er auðvitað sú sem ég er vegna foreldra minna.“

Vandræðalegt að spila undir

Hvernig krakki varstu?

„Ég hef alltaf verið félagslynd en það kemur sumum á óvart að ég er ekki mikið í stórum hópum. Ég hef alltaf átt fáa góða vini en marga kunningja. Ég er ekki mikil partíkona; ég verð að viðurkenna það. Mér líður mjög vel heima hjá mér með mínu fólki.“

Kristrún átti mörg áhugamál og prófaði ýmsar íþróttir sem barn. Einnig lærði hún á píanó frá unga aldri.

„Ég var mjög samviskusöm, sem ég veit að fór í taugarnar á systur minni, en ég gerði alltaf það sem mér var sagt að gera,“ segir hún og brosir.

„Ég byrjaði fimm ára að læra á píanó og foreldrar mínir lögðu mikið upp úr tónlistarnáminu. Þau eru bæði mjög söngelsk og heima var sungið í öllum boðum og samkomum. Þetta þótti manninum mínum mjög skrítið þegar hann kom í fyrsta boðið heim til okkar. Ég hélt að það væri eðlilegasti hlutur í heimi að dreifa söngtextum í boðum. Það var alltaf sungið og pabbi lagði mikið upp úr því að ég gæti spilað undir. Mér fannst þetta auðvitað hræðilega vandræðalegt þegar ég var unglingur,“ segir hún kímin.

„Svo lærði ég líka á harmónikku, eins og alþjóð veit núna,“ segir hún, en nikkuna hefur hún mundað í beinni útsendingu.

„Ég spila enn á píanó en geri ekki eins mikið af því eins og ég myndi vilja, enda á ég lítil börn sem þurfa að fara snemma að sofa á kvöldin.“

Frá ólíkum menningarheimum

Kristrún segist alltaf hafa átt auðvelt með nám og aldrei þurftu foreldrarnir að fylgjast með heimanáminu eða reka á eftir henni með verkefnin.

„Ég var með rosalegan sjálfsaga og kannski stundum of mikinn sem barn. Ég tók námið mjög alvarlega og var hörð við sjálfa mig og lagði mikið á mig. Ég var það í raun alveg í gegnum allt nám þar til ég kláraði háskóla. Ég fékk auðvitað hvatningu frá foreldrum en þessi agi er sjálfsprottinn; það er bara í mínu eðli.“

Kristrún segir að unglingsárin hafi að sumu leyti verið óvenjuleg, en brennandi áhugi á tungumálum dró hana út fyrir landsteinana. Auk þess að læra ný tungumál, lærði hún að standa á eigin fótum. Og svo bankaði ástin upp á.

„Ég lét skrá mig í sumarbúðir í Danmörku þegar ég var í sjöunda bekk og fór þá tvö sumur í röð og hafði mjög gaman af því. Ég fékk það svo á heilann í gagnfræðaskóla að læra spænsku og sótti þá kvöldnámskeið með fullorðnum. Sumarið eftir tíunda bekk fór ég til Spánar þar sem ég bjó hjá spænskri konu í Baskahéraðinu. Ég hafði mikið fyrir þessu og vann fyrir þessu sjálf hjá 11-11 og á Landspítalanum og vildi sanna fyrir foreldrum mínum að ég gæti þetta. Ég fór tvö sumur í röð og tala ágætis spænsku í dag fyrir vikið,“ segir hún.

„Seinna sumarið kynntist ég strák frá Íran sem hafði svo flutt til Kanada. Við vorum í sambandi í nokkur ár, þegar ég var í MR, í eins konar fjarbúð. Þarna kom kannski upp „rebelið“ í mér,“ segir Kristrún og brosir.

Menntaskólaárin lituðust af þessu kærastuparasambandi að sögn Kristrúnar.

„Þriðja sumarið fór ég til hans til Valencia á Spáni þar sem hann bjó. Þar vann ég sem þjónn og í kjölfarið flutti ég til hans til Toronto og tók þá eina önn í MR utanskóla. Ég lagði ýmislegt á mig til að láta þetta ganga upp,“ segir hún og nefnir að foreldrar hennar hafi samþykkt ráðahaginn á meðan hún léti ekki námið sitja á hakanum. Námið segir hún hafa gengið vel, en viðurkennir hins vegar að samband við ungan mann frá allt öðru menningarsamfélagi hafi stundum tekið á.

„Þetta var nú ekki alltaf auðvelt get ég sagt þér. Þetta var góður maður sem mér þykir enn vænt um, en við komum frá svo ólíkum menningarheimum. Það var heilmikil lífsreynsla fyrir mig og þó að mömmu hafi líkað mjög vel við hann, hafði hún áhyggjur af því að missa mig úr landi. Ég var mjög sjálfstæð á þessum tíma og upplifði mig mjög fullorðna, þó ég hafi í raun verið barn. En það styrkti mig mikið að hafa þurft að standa svona snemma á eigin fótum.“

Hagfræðin er hápólitísk

Upp úr slitnaði hjá ungmennunum eins og gengur og Kristrún flutti heim og kláraði menntaskólann. Þaðan lá leiðin í Háskóla Íslands þar sem hagfræðin varð á endanum fyrir valinu.

Af hverju valdir þú hagfræðina?

„Í rauninni var það tilviljunarkennt. Ég ætlaði að gera alls konar; fara í Listaháskólann og klára píanónámið og hafði líka velt fyrir mér tungumálum. Ég hafði verið á eðlisfræðibraut í MR og var þannig námsmaður að ég vildi fara í aðeins breiðari grein þar sem ég hefði fleiri tækifæri. Sem barn ætlaði ég alltaf að vera verkfræðingur því það hljómaði mjög praktískt og sniðugt. En svo skráði ég mig í stjórnmálafræði en skipti um skoðun og fór í hagfræðina. Ég vissi að hagfræðin reyndi meira á stærðfræði og aðferðafræði sem ég var góð í, en ég vissi ekkert hvað ég var að fara út í. Ég byrjaði haustið 2008 og vissi í raun ekkert hvað var í gangi,“ segir Kristrún, en eins og alþjóð man varð hrunið einmitt það haust.

„Hrunið hafði í raun ekki áhrif á foreldra mína því þau höfðu alltaf verið svo sparsöm og þess vegna upplifði ég hvorki uppsveiflu né niðursveiflu. Þau voru með borð fyrir báru.“

Áhuginn á stjórnmálum var ekki kviknaður á þessum árum, enda fór tíminn í námið og nýju ástina. Tuttugu og eins árs kynntist hún nefnilega manninum sínum Einari Bergi, en komum að því síðar.

„Ég sinnti náminu mjög vel og fór ekki í stúdentapólitíkina. Mér datt aldrei í hug á þessum tíma að ég yrði stjórnmálamaður. Aldrei!“

Hvað þá forsætisráðherra?

„Nei, það var aldrei draumur hjá mér. Kannski eftir á að hyggja er hægt að leggja saman tvo og tvo varðandi einhverja leiðtogahæfileika, reynslu og annað í mínu fari,“ segir Kristrún og segir drauminn alltaf hafa verið að fara til útlanda í doktorsnám og sinna fræðastörfum.

„Ég áttaði mig svo á því þegar ég var komin út að ég var betri í praktíkinni en fræðinni; ég var betri í að miðla hlutum og tala um þá á mannamáli. Ég áttaði mig svo á því að hagfræðin er hápólitísk og þá kviknaði sú hugmynd að fara í pólitík, en þá meira sem þjónandi aðili sem kæmi að stefnumótun en ekki að ég yrði sjálf stjórnmálamaður,“ segir hún, en Kristrún útskrifaðist með MA-próf í hagfræði frá Boston-háskóla árið 2014 og með MA-próf í alþjóðafræði með áherslu á hagstjórn og alþjóðafjármál frá Yale-háskóla árið 2016.

Lítill fiskur í stórri tjörn

Eftir námið í Yale fékk Kristrún stöðu í New York hjá fjárfestingarbankanum Morgan Stanley og síðar hjá sama banka í London. Kristrún hafði unnið meðfram náminu hér heima hjá Seðlabankanum og síðar í Arion banka í greiningardeild. Eftir heimkomuna vann Kristrún um skeið sem aðalhagfræðingur Kviku og síðar sem aðjunkt í Háskóla Íslands.

„Ég ætlaði aldrei að vinna í bankageiranum. Eftir Yale langaði mig að fara út í breiðari greiningar en var með mentor í skólanum sem hafði verið aðalhagfræðingur hjá Morgan Stanley og yfirmaður í Asíu. Hann hafði óbilandi trú á mér og vildi endilega að ég færi í greiningardeild hjá stórum bandarískum banka og ég sannfærðist um það. Þetta var rosaleg reynsla og þvílíkur undirbúningur að fá vinnu; viðtöl og próf og ég veit ekki hvað og hvað. Ég hafði mjög gott af þessu. Þarna var ekki hægt að hringja í pabba og mömmu eða frænda sinn og láta redda sér,“ segir Kristrún og segir samkeppnina hafa verið svakalega.

„Þarna var ég lítill fiskur í mjög stórri tjörn og enginn sem bjargar manni,“ segir Kristrún og segir vinnuna hjá Morgan Stanley, og allt ferlið sem hún gekk í gegnum til að fá vinnuna, hafa haft mikil áhrif á sig.

„Þetta veitti mér mikinn aga í verklagi og hvernig ég vinn tók alveg stakkaskiptum. Kröfurnar sem eru gerðar til fólksins í svona fyrirtækjum eru rosalegar. Þetta herðir mann,“ segir hún.

„Vinnudagarnir voru kannski tólf til þrettán tímar á dag og enn fleiri hjá manninum mínum sem vann í annarri deild. Þetta hefðum við ekki getað gert með börn og það dró okkur heim. Við áttuðum okkur á því að þetta voru ekki eðlileg lífsskilyrði og ef við ætluðum bæði að fá að njóta okkar myndi það aldrei ganga upp,“ segir Kristrún og útskýrir að í Bandaríkjunum er nánast ómögulegt fyrir hjón með börn að vera bæði í svona krefjandi störfum.

„Þetta var satt að segja ekki áhugaverðasta vinna sem ég hef unnið en það hafði mótandi áhrif á mig að vinna í þessu stranga umhverfi og voru forréttindi.“

Var ekki á leið í pólitík

Hvernig vildi það til að þú fórst svo út í stjórnmál?

„Að sumu leyti var það tilviljunarkennt, eins og lífið er oft. Þetta gerðist mjög hratt og margir halda að þegar maður leggur af stað í svona vegferð sé allt planað, en það var það sannarlega ekki. Ég hef alltaf sagt að allt sem maður tekur sér fyrir hendur, eigi maður að gera vel, því þó maður endi ekki á að vinna við það, mun maður alltaf græða á því og fá sem mest út úr því ef maður sinnir því almennilega,“ segir Kristrún og nefnir að ekki sé ákjósanlegt að festast í starfi sem maður hefur ekki ástríðu fyrir.

„Ef maður er í þeirri forréttindastöðu að geta farið að gera eitthvað annað, á maður að gera það. Eftir heimkomuna byrjaði ég hjá Viðskiptaráði og hafði áhuga á þjóðfélagsmálum og stefnumótun og átti þar áhugaverðan tíma, en þetta umhverfi átti ekki nógu vel við mig. Mig langaði að vera í greiningum. Þarna var ég líka farin að átta mig á því að það var pólitík í öllu og ég hafði mínar skoðanir með minn fjármálabakgrunn. Það er algjör misskilningur að allir í viðskiptalífinu séu hægri menn eða sjálfstæðismenn. Það er alveg hægt að trúa á markaðshagkerfið en á sama tíma vera stuðningsmaður jafnaðarmanna og skilja mikilvægi velferðarkerfisins. Ég held að það sé mjög hollt að vera með fólk í viðskiptalífinu sem hugsar aðeins öðruvísi; það þurfa ekki allir að vera hreinir kapítalistar,“ segir Kristrún.

„Ég held að margir hafi fundið á sér að ég var með öðruvísi skoðanir, þrátt fyrir að ég væri að koma frá Yale í Bandaríkjunum og Morgan Stanley. En í grunninn hef ég alltaf verið jafnaðarmaður og ég vissi að nýstárlegustu hugmyndir í hagfræði eru mjög velferðarsinnaðar. Mér fannst oft umræðan hér á Íslandi mjög gamaldags og úrelt; byggð á gömlum hagfræðikenningum. Það vantaði annan strúktúr í umræðuna.“

Kristrúnu var boðið starf aðalhagfræðings Kviku sem hún afþakkaði í byrjun.

„Ég vildi ekki fara aftur í bankakerfið en fékk hvatningu og var sagt að ég mætti gera það sem ég vildi og mætti vera með mótandi áhrif. Ég fór þá að skipta mér af þjóðfélagsumræðunni í gegnum efnahagsmál, en ég var í miklum samskiptum við fjárfesta og lífeyrissjóði. Í covid komu upp sérstakar aðstæður þar sem pólitíkin fór að skipta sér af atvinnulífinu mjög beint og ég fór að skrifa heilmikið um þetta. Þessi fréttabréf vöktu mikla athygli og á einhverju tímabili fann ég mig í Kastljósi og í umræðuþáttum. Þetta var sjálfsprottið; ég fann hjá mér þörf til að breikka út umræðuna í efnahagsmálum og boltinn fór að rúlla,“ segir hún.

„Ungliðar í Samfylkingunni höfðu fylgst með mér og hvöttu mig til að fara í framboð. Þannig gerist það bara; ég var hvött til að gefa kost á mér fyrir alþingiskosningarnar 2021. Ég fékk þessi símtöl í desember 2020 og hló bara og sagðist ekkert vera á leið í pólitík. En kannski ómeðvitað var ég búin að vinna mig í áttina að því. Ég upplifði að efnahagsmálaumræðan og tengsl hennar við velferðarumræðuna væri svolítið skökk og ég var ekki að fá hundrað prósent út úr því sem ég hafði áhuga á í bankanum og var kannski stundum komin aðeins út fyrir mitt svið. Ég þurfti að taka ákvörðun hvort ég vildi halda áfram að vinna í bankanum og kveða þá í kútinn þessa hlið á mér sem hafði mjög miklar skoðanir á þjóðfélagsmálunum eða átti ég að taka sénsinn og hlýða kallinu? Ég stökk bara á þetta án þess að hafa nokkuð fyrir mér hvort þetta myndi ganga upp. Svona gerðist þetta bara!“

Í þjónustuhlutverki fyrir almenning

Uppgangur Kristrúnar var ævintýri líkastur og var hún orðin formaður Samfylkingarinnar árið 2022. Ári síðar var hún í skoðanakönnunum valin vinsælasti stjórnmálamaður landsins.

Kom þetta þér á óvart?

„Já, þetta kom mér á óvart. Ég hef alveg sjálfstraust og sinni alltaf vinnunni minni vel en ég hefði aldrei getað séð þetta fyrir. Ég fór inn í þetta með ástríðu fyrir stefnumálunum; efnahags- og velferðarmálunum og hef unnið mjög skipulega. Ég hafði strax mjög skýra sýn hvernig væri hægt að gera flokkinn að hefðbundnum jafnaðarmannaflokki, sem var sú pólitík sem mér hugnaðist og mér fannst vera sterkasti grunnurinn að betra samfélagi. Ég fór á þing með það fyrir augum að gefa mig alla í þetta og svo gerist það mér að óvörum í kosningunum 2021 að ég fæ mikla athygli og kem þá inn á þingið strax í ákveðinni stöðu,“ segir hún.

„Svona eru tilviljanirnar fyndnar; það er kannski hægt að rekja þær aftur og segja, já það var þarna sem þetta gerðist. En aldrei hefði ég trúað því að ég sæti hérna og aldrei hefði ég trúað því að þetta gerðist svona hratt. Stundum er maður á réttum stað á réttum tíma; það myndast einhver glufa og maður stekkur inn.“

Var erfitt að vera allt í einu í sviðsljósinu, vera opinber persóna og þurfa að sæta gagnrýni?

„Já, það var oft erfitt. Ég fékk mikla eldskírn því ég kom svo hratt inn og fékk mikla athygli. Ég lenti í því í kosningunum 2021 að verið var að fara yfir fjármál mín af því að ég hafði unnið í Kviku og fólki þótti skrítið að jafnaðarmanneskja væri að koma úr fjárfestingarbanka. Ég þótti óhefðbundinn kandídat. Mér fannst þetta erfitt fyrst en var mjög fljót að hrista það af mér. Í þessu starfi á maður ekkert skilið, það er ekkert gefins og það er ekkert ósanngjarnt í pólitík. Mér finnst það sem mér finnst og annaðhvort kýs fólk mann eða ekki. Þannig virkar lýðræðið. Ég var fljót að tileinka mér það hugarfar að ég væri fyrst og fremst í þjónustuhlutverki fyrir almenning. Þetta snýst ekki um mig.“

Stjórna ekki á heimilinu

Nú þegar Kristrún er forsætisráðherra Íslands bíða hennar ótal verkefni en hún er tilbúin í slaginn.

„Þetta hefur verið rosaleg vinna og margar tilfinningar kviknað, því þetta er mjög tilfinningalegt starf. Ég hitti margt fólk og þarf að mæta því þar sem það er, en í undirbúningi kosninga fór ég út um allt land að tala við fólkið í landinu. Sögur þess tek ég með mér inn í embættið. Það væri minn mesti sigur, og sigur þessa ríkisstjórnar í samstarfi með hinum flokkunum, ef það væri hægt að yfirfæra þetta hugarfar sem við vorum komin með í Samfylkinguna yfir í landsstjórnina. Að bera virðingu fyrir fólkinu í landinu og færa sig nær því þannig að fólk upplifi tengingu við stjórnmálin og jákvæðni gagnvart stjórnkerfinu. Við sjáum það heilt yfir að það er krafa um breytingar, en víða um heim upplifum við það að fólk kýs eitt en fær annað. Fólk er þreytt á því að upplifa að það hafi ekki sæti við borðið.“

Finnið þið fyrir væntingum fólks til valkyrjanna?

„Já, og ég upplifi mikla ábyrgð; að skila einhverjum niðurstöðum. Nú er ég komin í annað verkefni sem er ríkisstjórn þriggja flokka. Ég er mjög verkefnamiðuð og er komin í forsætisráðuneytið fyrst og fremst til að vera verkstjóri okkar stefnuyfirlýsingar; ekki til að vera með hliðarverkefni eða vera á fínum eða flottum fundum. Kjarnahlutverkið hjá mér er að við komum velferðarmálum í gegn og komumst að niðurstöðu. Velferðarkerfið er hornsteinn íslensks samfélags og nú þarf að forgangsraða þessum kjarnaverkefnum sem liggja fyrir og skila af okkur niðurstöðum. En já, það er pressa en ég tek þessari áskorun. Ég á ekki að vera í þessari stöðu ef ég get ekki skilað niðurstöðu. Betra er að lofa minna og gera meira. Fólk verður að upplifa að við séum að vinna í þágu þess.“

Greinilegt er að Kristrúnar bíður stórt verkefni sem hún nú tekst óhrædd á við. Þegar vinnudegi lýkur tekur svo heimilislífið við með tilheyrandi steiktum fiski, að lesa fyrir háttinn og njóta samveru fjölskyldunnar.

„Í háskólanum kynntist ég manninum sem ég er gift í dag,“ segir hún, en eiginmaður hennar er Einar Bergur Ingvarsson og eiga þau tvær dætur, fimm og tveggja ára. Einar vinnur í dag hjá útgerðarfyrirtækinu Reyktal.

„Einar er stórkostlegur og minn allra besti vinur og ég elska hann alveg út af lífinu. Við erum svo heppin að hafa upplifað svo margt saman. Við kynntumst árið 2009 og höfum búið á Íslandi, í Bandaríkjunum og í Bretlandi. Við höfum fengið að ganga í gegnum svo margt saman og þroskast saman sem er svo dýrmætt og ekki sjálfgefið í samböndum. Hann er minn helsti stuðningsmaður og ein ástæða fyrir því að ég get sinnt þessu starfi í dag.“

Litlu stúlkurnar tvær átta sig sjálfsagt ekki á að mamma þeirra stjórni landinu.

„Ég er sko ekkert forsætisráðherra á mínu heimili; þar stjórna þær tvær til skiptis,“ segir hún og hlær.

Höf.: Ásdís Ásgeirsdóttir