Tækni Gestir á tæknisýningunni CES í Las Vegas virða fyrir sér vélmenni sem spásserar á sýningarsvæðinu.
Tækni Gestir á tæknisýningunni CES í Las Vegas virða fyrir sér vélmenni sem spásserar á sýningarsvæðinu. — AFP/Ian Maule
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sjónvarpstæki eru stöðugt að þróast í þá átt að verða einskonar stjórntæki daglegs lífs á heimilum fólks eftir því sem gervigreindartækninni fleygir fram. Þessi þróun var áberandi á árlegri raftækjasýningu, CES, í Las Vegas, sem var opnuð í vikunni

Guðmundur Sv. Hermannsson

gummi@mbl.is

Sjónvarpstæki eru stöðugt að þróast í þá átt að verða einskonar stjórntæki daglegs lífs á heimilum fólks eftir því sem gervigreindartækninni fleygir fram. Þessi þróun var áberandi á árlegri raftækjasýningu, CES, í Las Vegas, sem var opnuð í vikunni.

Tæknifyrirtæki á borð við LG, Samsung og TCL hlaða sífellt meiri gervigreind í æ stærri sjónvarpsskjái sem eru að verða einskonar stafrænir aðstoðarmenn fjölskyldunnar og geta spjallað við heimilisfólkið og önnur raftæki heimilisins, sum með aðstoð Google og Microsoft.

William Cho, forstjóri LG, boðaði þannig á blaðamannafundi í Las Vegas komu „ástúðlegrar greindar“ þar sem heimilistæki vaka yfir fólki, allt frá því að fylgjast með því hvernig það sefur og til þess að minna það á að taka með sér regnhlíf ef það rignir.

Annað hugtak sem er fyrirferðarmikið á CES-sýningunni er „öldrunartækni“ sem ætlað er að létta öldruðum lífið og gera þeim kleift að dvelja lengur á eigin heimilum. Reiknað er með að markaður fyrir slíka tækni muni vaxa hratt á næstu árum.

Nærri 90% Bandaríkjamanna, sem eru komnir yfir miðjan aldur, telja mikilvægt að geta búið áfram á heimilum sínum í ellinni en álíka stórt hlutfall óttast að það verði ekki fært um það, samkvæmt könnun sem kynnt var á sýningunni. Því er mikil eftirspurn eftir tækjum sem fylgjast með heilsufari og auka öryggi fólks. Dæmi um það eru salerni sem geta greint hugsanlega þvagfærasýkingu.

Vellíðan fólks og geðheilsa eru einnig í öndvegi á sýningunni. Sprotafyrirtæki sýna þar ýmis tól, m.a. mæli sem fólk getur notað til að fylgjast með svonefndum streituhormónum. Franska fyrirtækið Baracoda sýnir spegil, sem kallast BMind, en í honum er myndavél sem greinir merki um streitu eða þreytu og ráðleggur notandanum að slaka á. Þá má nefna tækið CalmiGo, lítið tæki sem hægt er að halda á ef notandinn er að fá kvíðakast en tækið hefur áhrif á ósjálfráða taugakerfið, hægir á hjartslætti og dregur úr kvíðanum.

Höf.: Guðmundur Sv. Hermannsson