Halla Gunnarsdóttir
Halla Gunnarsdóttir
Óhætt er að segja að mikilvægasta aðgerðin til að taka á vöxtum og verðbólgu felist í stórtækum aðgerðum í húsnæðimálum.

Halla Gunnarsdóttir

Í upphafi þessarar aldar var Margaret Thatcher, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, spurð hvert hefði verið hennar helsta afrek í stjórnmálum. Hún var snögg til svars: „Tony Blair og New Labour. Við breyttum því hvernig andstæðingar okkar hugsa.“ Með öðrum orðum var það ekki stærð Íhaldsflokksins sem hún mældi árangur sinn í, heldur einmitt í því að hafa náð að færa pólitíska ásinn í heild sinni. Hugmyndir sem áður hefðu þótt róttækar, jafnvel öfgakenndar, urðu að meginstraumi. Það er því hollt að leitast við að greina meginstraumshugmyndir í stjórnmálum á hverjum tíma fyrir sig og þau áhrif sem þær kunna að hafa á kjör og réttindi launafólks.

Einn af ríkjandi straumum dagsins í dag snýr að því að tryggja þurfi jöfnuð í ríkisfjármálum, nánast sama hvað það kostar. Ríkisstjórn breska Verkamannaflokksins hefur forgangsraðað fjárlagahallaleysi framar löngu tímabærum aðgerðum til að bregðast við sívaxandi fjölda fullvinnandi einstaklinga sem búa við fátækt, vegna samspils kjararýrnunar, verðhækkana og húsnæðiskostnaðar. Forseti Bandaríkjanna hefur einnig falið auðmanninum Elon Musk að skera niður og spara innan stjórnkerfisins, sem er talið víst að muni fela í sér afregluvæðingu gagnvart stórfyrirtækjum á borð við hans eigin. Og hér á landi hafa stjórnvöld boðið þjóðinni til samtals um hvernig stjórnarflokkarnir eigi að bera sig að við að uppfylla kosningaloforð um hagræðingu í ríkisrekstri.

Húsnæðismál mikilvægust

Fyrir kosningar boðuðu bæði Viðreisn og Samfylkingin, hvor með sínum hætti, niðurskurð á ríkisútgjöldum, en Samfylkingin gerði þó einnig ráð fyrir tekjuöflun. Þessar áherslur voru settar í samhengi við að ná niður vöxtum og verðbólgu, þótt ekki sé sýnt fram á að verðbólgan hafi verið tilkomin vegna ríkisútgjalda. Þvert á móti hafa áhrifaþættirnir verið verðhækkanir, húsnæðisverð, matarverð og húsaleiga. Óhætt er að segja að mikilvægasta aðgerðin til að taka á vöxtum og verðbólgu felist í stórtækum aðgerðum í húsnæðismálum.

Eftir kosningar var því eðlilega horft til ríkisstjórnar í mótun með ákveðinni eftirvæntingu. Hvar átti niðurskurðurinn að koma niður og hvernig átti áð hagræða í ríkisrekstri? Með öðrum orðum: hvert var „planið“? Samráðsgátt stjórnvalda er kjörinn vettvangur til að kynna slík áform en þess í stað ákvað forsætisráðherra að opna þar eitt allsherjar athugasemdakerfi fyrir þjóðina um hvernig mætti stuðla að „hagsýni í ríkisrekstri“. Niðurstaðan kemur ekki á óvart. Þúsundir athugasemda hrannast inn og velflestar eru kunnugleg hugmyndafræðileg stef. Lagt er til að leggja niður allan ríkisstuðning til menningar og lista, minnka utanríkisþjónustuna og draga úr alþjóðastarfi, falla frá loftslagsaðgerðum og stöðva áform um borgarlínu. Umsækjendur um alþjóðlega vernd lenda í skotlínunni, sama má segja um stjórn Seðlabankans, aðstoðarmenn ráðherra og opinbera starfsmenn, en einnig almennt launafólk, sem mörgum þykir vera ofhaldið.

Spara aurinn og kasta krónunni

Inni á milli leynast góðar hugmyndir og til þess er leikurinn vafalaust gerður. Einstaklingar sem þekkja til í sjávarútvegi benda á nauðsynlegar úrbætur, bent er á slæm áhrif kennitöluflakks og skattsvika og kallað eftir stórauknum forvörnum. Þetta síðastnefnda er sérstaklega mikilvægt, því ekki er verið að ráðast í niðurskurð á ríkisútgjöldum í fyrsta sinn. Niðurskurður hefur þvert á móti verið leiðandi stef í stjórnmálum um langa hríð, bæði fyrir og eftir efnahagshrun. Það hefur leitt til þess að við erum sífellt að grípa of seint inn í vanda sem hefði mátt fyrirbyggja eða lágmarka og gildir þar einu hvort litið er til velferðarþjónustu eða vegagerðar, menntakerfisins eða heilbrigðisþjónustu. Því oft er einfaldasta niðurskurðarleiðin að spara aurinn en kasta krónunni.

Kjarni málsins er sá að stærstur hluti ríkisútgjalda liggur í velferð, heilsu, samgöngum og menntun. Ef sparnaður á að vera teljandi þarf að grípa þar niður en hættan er sú að það skili sér í meiri kostnaði seinna meir eða, eins og oft vill verða raunin, meiri kostnaði á öðrum stöðum. Sem dæmi má nefna að þegar ríkið selur eignir til að laga skuldastöðuna en leigir um leið húsnæði undir sömu starfsemi leiðir það til mun meiri kostnaðar fyrir skattgreiðendur til lengri tíma. Ef þjónusta er lögð niður á landsbyggðinni í sparnaðarskyni færist kostnaðurinn yfir á fólk (og stéttarfélögin sem hlaupa undir bagga) sem þarf að leggja í kostnaðarsöm ferðalög til að sækja þessa sömu þjónustu. Og þegar forvörnum er sleppt kostar það síðar meir.

Hagsmunir launafólks í forgrunni

Aðhald í ríkisrekstri er mikilvægt á hverjum tíma og vissulega þarf að huga að fjármunum ríkissjóðs nú þegar fjárlagahalli er staðreynd eftir bæði covid og Grindavík. Ríkissjóður stendur samt ágætlega og það er engin bráð þörf á að ráðast í lítt hugsaðar aðgerðir honum til bjargar, sérstaklega þegar þær leiða á endanum til hærri útgjalda fyrir launafólk í formi gjalda eða þjónustuskerðingar.

Því er mikilvægt fyrir stjórnvöld, þegar þau ráðast í að vinna úr stóra kommentakerfinu sem samráðsgátt er orðin, að hafa hugfast að það er þeirra að axla ábyrgð á heildarsýninni. Þar eiga hagsmunir launafólks og almennings að vera í forgrunni.

Höfundur er formaður VR.

Höf.: Halla Gunnarsdóttir