Ágúst Úlfar Sigurðsson
Ágúst Úlfar Sigurðsson
Við yfirferð á hinum ýmsu tölvuforritum Seðlabankans vegna þúsaldarvandans fundust a.m.k. 90 forritsaðgerðir sem þurfti að lagfæra og breyta.

Ágúst Úlfar Sigurðsson

Nú eru 25 ár liðin síðan við kvöddum árið 1999 og sá alræmdi dagur 1. janúar 2000 rann upp, dagurinn sem öll tölvukerfi heimsins áttu að hrynja. Þess vegna voru miklar áhyggjur tengdar þessum áramótum.

Orsök vandans var sú að algengt var í tölvukerfum að skrá dagsetningar aðeins með tveggja stafa ártali en í tölvuforritunum var síðan gengið út frá því að tveir fremstu stafirnir væru alltaf þeir sömu, þ.e. „19“. Heimskulegur hönnunargalli myndu sumir segja, en skýringin er augljós: Tölvuminni og geymslurými fyrir tölvugögn voru ákaflega dýr lengi fram eftir tölvuöld og menn reyndu eftir föngum að spara rýmið sem gögnin tóku. Allir vissu að öldin myndi ekkert breytast í bráð. Minna var hins vegar hugsað um líftíma tölvukerfa og afleiðingarnar ef kerfin yrðu langlíf.

Þegar styttast fór í aldamótin áttuðu menn sig á því að enn voru í notkun mörg tölvuforrit sem ekki gátu unnið rétt með dagsetningar eftir 31. desember 1999. Forrit sem höfðu árum saman reiknað út dagafjölda milli tveggja dagsetninga, t.d. aldur fólks eða vaxtadaga á lánum, myndu fara að skila kolröngum niðurstöðum, til dæmis neikvæðum dagafjölda. Forrit sem röðuðu gögnum í tímaröð höfðu ekki heldur nein tök á að greina hvort dagsetningin 01.01.00 væri fyrsti janúar árið 1900 eða 2000.

Til allrar hamingju voru til framsýnir menn sem áttuðu sig tímanlega á hættunni og vöktu athygli á henni, m.a. í fjölmiðlum. Við fyrstu sýn virtist vandinn fremur lítill og auðleystur, en þegar betur var að gáð var hann alls ekki svo lítill. Enn fremur mátti búast við víxlhrifum þar sem truflun á einum stað myndi valda alvarlegum truflunum á öðrum stöðum og magna vandann. Áhættan var ekki afmörkuð við landamæri, því að erfiðleikar í einu landi gátu augljóslega dreifst til annarra landa. Augljóst var að ef illa færi myndi koma upp gífurlegur skortur á kunnáttufólki í tölvu- og upplýsingatækni. Sum stórfyrirtæki mátu áhættuna svo mikla að þau gerðu sérstaka baksamninga við þjónustufyrirtæki í upplýsingatækni um að fá forgangsþjónustu ef á þyrfti að halda.

Sem betur fer gengu hrakspárnar ekki eftir. Þegar 1. janúar árið 2000 rann upp höfðu flest tölvukerfi heimsins þegar verið yfirfarin og lagfærð og héldu áfram að virka rétt. Einungis bárust fréttir af tiltölulega fáum og afmörkuðum tölvuvandamálum sem leystust fljótt og vel.

Þótt nú séu liðin 25 ár heyrist af og til í „álitsgjöfum“ sem fullyrða að hinn margumræddi tölvuvandi ártalsins 2000 hafi verið stórlega ýktur, þaninn út úr öllu samhengi og orsakað mikil og óþörf útgjöld. Til sannindamerkis er gjarna bent á það hve afleiðingarnar reyndust vera litlar í samanburði við hrakspárnar sem fjölmiðlar höfðu flutt fólki.

Það hefur greinilega farið framhjá þessum sömu „álitsgjöfum“ að margvíslegar fyrirbyggjandi aðgerðir höfðu þegar verið gerðar til að leysa vandann áður en hann varð að vandamáli. Undirritaður þekkir vel til þess hvernig unnið var að þessu hjá Seðlabanka Íslands því hann var starfsmaður bankans á þessum tíma og átti þar talsverðan þátt í undirbúningi vegna þúsaldarvandans.

Líkt og hjá flestum samstarfsaðilum bankans var farið ítarlega yfir öll forrit og tölvubúnað til að sannreyna hvort tölvuklukkur myndu tifa og telja rétt yfir aldamótin og hvort forritin myndu reikna rétt þegar þeim færu að berast gögn með dagsetningum hinnar nýju þúsaldar. Einnig var haft samband við alla helstu birgja og samstarfsaðila bankans innan lands sem utan til að kanna hvernig undirbúningi væri háttað hjá þeim og hvort treysta mætti áfram á búnað þeirra og þjónustu. Loks var margvísleg gagnaöflun viðhöfð til að miðla eigin reynslu og fylgjast með reynslu annarra.

Allur þessi undirbúningur kostaði sitt. Mér telst til að bankinn hafi a.m.k. lagt fjögur mannár í verkefnið, en við yfirferð á hinum ýmsu tölvuforritum bankans fundust a.m.k. 90 forritsaðgerðir sem þurfti að lagfæra og breyta.

Auk vinnulauna voru helstu útgjaldaliðir Seðlabanka Íslands fólgnir í endurnýjun á tölvubúnaði sem vafi lék á að myndi vinna rétt eftir aldamótin.

Samtals telst mér til að þetta verkefni hafi kostað Seðlabanka Íslands upphæð sem framreiknuð til ársins 2025 nemur u.þ.b. 76 milljónum króna. Inni í henni eru vinnulaun og kaup á umtalsverðu magni tölvu- og hugbúnaðar því að í nokkrum tilfellum var flýtt endurnýjun á eldri búnaði sem vafi lék á að myndi virka rétt.

Vissulega var talsverðu til kostað, en fyrir bragðið varð engin truflun á starfsemi bankans vegna forrita eða tölvubúnaðar sem hætti að virka 1. janúar 2000.

Ég tel því að peningunum sem verkefnið kostaði hafi verið býsna vel varið hjá Seðlabanka Íslands, líkt og hjá svo mörgum öðrum fyrirtækjum.

Eftir stendur staðfest frásögn um tæknilegt afrek þar sem með samstilltu fjölþjóðlegu átaki tókst að leysa stórt verkefni áður en það varð að risastóru vandamáli.

Hefði verkefnið hins vegar ekki verið leyst tímanlega væri þessara tímamóta sennilega minnst vegna risastóra tölvuklúðursins, Y2K og afleiðinga þess á heimsbyggðina.

Höfundur er tölvunarfræðingur á eftirlaunum.

Höf.: Ágúst Úlfar Sigurðsson