Hópur innflytjenda frá Rúmeníu hefur í Skotlandi verið fundinn sekur um mansal, kynferðis- og fíkniefnabrot eftir að upp komst um skipulagða glæpastarfsemi þeirra. Er um að ræða fjóra karlmenn og eina konu á aldrinum 34 til 41 árs.
Breskir fréttamiðlar greina frá því að lögreglan í Skotlandi hafi að undanförnu unnið að umfangsmikilli glæparannsókn eftir að grunur um afbrot féll á hópinn. Í samtali við Sky News lýsir rannsóknarlögreglumaðurinn Scott Carswell fólkinu sem „viðurstyggilegu“. Það hafi nýtt sér bága stöðu ungra kvenna í von um skyndigróða. Áfengi og fíkniefnum hafi meðal annars verið haldið að brotaþolum, sem eru konur af rúmenskum og skoskum uppruna, og þær síðan seldar í vændi. Brotin eru sögð sérstaklega gróf og svívirðileg, en málið hefur vakið talsverða athygli þar í landi.
Misnotuðu tíu konur
Carswell rannsakandi segir hópinn hafa haldið vímuefnum að brotaþolum sínum í samkvæmum sem gerendum var boðið í. Þær hafi því næst verið neyddar til kynferðisathafna. „Þessar konur voru gerðar háðar fíkniefnum og vegna bágrar stöðu neyddust þær til að stunda kynferðislegar athafnir með mönnum í þeirri von að fá næsta fíkniefnaskammt fyrir,“ sagði hann.
„Hópurinn skeytti í engu um hvaða afleiðingar þetta hafði á fórnarlömb sín. Það er ljóst að þau vissu upp á hár hvað þau voru að gera,“ bætti hann við en alls var um tíu konur að ræða. Þeim er nú veitt viðeigandi aðstoð.
Rannsókn lögreglu hófst fyrst árið 2021 en sumarið 2022 varð lögreglu ljóst umfangið og að verið væri að gera hóp kvenna háðan vímuefnum með fyrrgreindum tilgangi.