Þorvaldur Jóhannsson
Heyrst hefur að Seyðisfjörður og íbúar hans berjist á nýbyrjuðu ári fyrir afkomu sinni og tilveru í þessum fallega firði á Austurlandi. Þar ríkir nú tortryggni og kvíði og óróleikapúls mælist m.a. vegna margsvikinna „loforða“ um tryggar heilsárslandsamgöngur.
Eitt stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins hefur verið með öfluga starfsemi síðustu ár og með kjölfestu sinni stutt vel við félagslífið í bænum. Það hætti á liðnu ári með stærstan hluta starfseminnar, m.a. vegna óvissu um framhaldið og hvert skuli stefna með byggðarlagið. Beðið er loðnuvertíðar annað árið í röð. Ferðaþjónustan, sem hefur verið ört vaxandi, á í miklu basli með að halda veitingastöðum opnum yfir vetrarmánuðina. Þeim er því bara lokað.
Smyril Line (óskabarnið) siglir ekki til Seyðisfjarðarhafnar nú í upphafi árs eins og verið hefur í fjölda ára. Allt stefnir í að skemmtiferðaskipum, sem hafa verið vaxandi í tekjuöflun hafnarinnar, fari fækkandi. Ákveðinn hópur fólks, sem hefur hátt, vill hafa fallega fjörðinn sinn í friði fyrir sig og sína.
Hægt og rólega setja erfiðar landsamgöngur þennan bæ, sem á ríka sögu um frumkvöðla og öflugt atvinnu- og mannlíf, til hliðar. Hann fjarlægist nú óðum að vera talinn spennandi kostur til athafna og búsetu til framtíðar. Fjárfestar líta ekki við á þeim bæjunum.
Sagan
Frá 1975 hefur Seyðisfjörður staðið vaktina með einu landamærastöðina út og inn í landið sjóleiðina fyrir gesti, bíla og varning frá Evrópu. Færeyska skipafélagið, í samvinnu við hafnaryfirvöld á Seyðisfirði, hefur séð um þessa þjónustu samfellt í hálfa öld. Í júnímánuði næstkomandi eru 50 ár frá því að Smyril Line sigldi sína fyrstu ferð. Það verða að teljast merk tímamót í sögu samgöngumála á Íslandi. Við móttökuna fyrir 50 árum fögnuðu fyrirmenn Íslands framtaki Færeyinga og heimamanna. Mörg falleg orð voru sögð við þau tímamót. Bættar landsamgöngur að og frá höfninni yfir og um Fjarðarheiði voru mönnum á þeim tíma ofarlega í huga. Framtíðin þótti björt og heillandi. Síðan hafa Seyðfirðingar og vildarvinir í samtölum við stjórnvöld lagt mikla áherslu á að öruggar heilsárssamgöngur að og frá höfninni verði tryggðar. Fjarðarheiðin er hæsti fjallavegur að og frá þéttbýli á landinu (10 km í 600-610 m) og hafa menn staðið í ströngu vetur eftir vetur að sinna vetrarþjónustu á þessum erfiða fjallvegi. Þar hafa starfsmenn Vegagerðar og björgunarsveitin staðið vaktina af miklum dugnaði. Kærar þakkir fyrir það. Stundum hefur birt til þegar samgönguyfirvöld og Alþingi hafa sett Fjarðarheiðina á dagskrá og í umræðuna. Svo var í stóra áfallinu þegar fjöllin rumskuðu í desember 2020. Bærinn var í skyndi rýmdur og allir íbúarnir keyrðu yfir Fjarðarheiði í Egilsstaði. Nokkru áður hafði heiðin verið ófær. Spyrja má: Hvað ef? Þá skorti ekki á öflugan og hlýjan skilning stjórnvalda og landsmanna, sem bentu á nauðsyn þess að svara skýru ákalli Seyðfirðinga sem allra fyrst. Síðan eru liðnir 1.466 dagar, rúm fjögur ár, og enn auglýsir Vegagerðin: „Fjarðarheiði er lokuð. Reynt verður að opna á morgun eða þegar veður leyfir.“
Árlega frá 2015 hefur Samband sveitarfélaga á Austurlandi, SSA, með stuðningi þingmanna Norðausturkjördæmis, ályktað um Fjarðarheiðargöng sem þau næstu á Austurlandi á eftir Norðfjarðargöngum. Eftir mikla og einarða baráttu er staðan nú sú að göngin, 13,3 km, hafa verið og eru í forgangi nr. 1 í gildandi samgönguáætlun Alþingis. Endurskoðun hennar kemur í fang nýrrar stjórnar og ráðherra nú strax á nýju ári. Undirbúningsrannsóknir sem tóku 6-7 ár hafa fætt af sér fullhönnuð göng sem eru tilbúin og klár í útboð. Engin önnur gangaleið á Íslandi er í þeirri stöðu í dag. Flestar stærri flýtiframkvæmdir, s.s. Sundabraut, á að fjármagna sem samvinnuverkefni samkvæmt nýjum verkreglum sem hafa ekki verið útfærðar að fullu. Því bíða nú nokkrar brýnar stærri framkvæmdir í samgöngumálum á landsbyggðinni, þar á meðal Fjarðarheiðargöng.
Á sama tíma og Austfirðingar bíða og bíða bora og fullgera félagar okkar í Færeyjum jarðgöng á færibandi. Nýlega samþykktu þeir að fara í lengstu neðansjávargöngin, 23 km frá Sandey til Suðureyjar. Þar eru tryggar samgöngur mannréttindi sem þeir virða. Til hamingju, kæru vinir, með frábært hugarfar og glæsileg samgöngumannvirki.
Seyðfirðingar senda nýrri ríkisstjórn og nýjum samgönguráðherra kveðjur á nýbyrjuðu ári með þeirri heitu ósk að biðin og kyrrstaðan verði rofin. Því hafið þið lofað hátt og snjallt. Forgangsröðun liggur fyrir. Raungerist það getur bærinn á ný opnað faðminn sem fullgildur meðal jafningja og tekið áfram þátt í framtíðaruppbyggingu Austurlands og Íslands. Það væri vel í takt við frumkvöðlana sem tóku með landamærastöð sinni á Seyðisfirði á móti fyrstu áætlunarferð bíla- og farþegaferju frá Evrópu til Íslands fyrir hálfri öld.
Gleðilegt nýtt ár, ágætu landsmenn. Sólardagurinn á Seyðisfirði er 18. febrúar. Þá eru pönnukökur, kakó og annað góðgæti á hverju heimili.
Allir velkomnir. Vinsamlegast kynnið ykkur samt vel færðina á Fjarðarheiði áður en þið leggið í hana. Góðar stundir.
Höfundur er fv. skólastjóri og bæjarstjóri, nú eldri borgari.