Þorvarður Þorvarðarson afi minn var afar merkilegur maður sem naut vinsælda og virðingar á sinni tíð. Hann var málamiðlari og flinkur að ná fólki saman en líka dugnaðarforkur og mikill baráttumaður fyrir réttindum þeirra sem minna mega sín. Hann var með gott jarðsamband og vissi hvernig fólkinu leið. Ég hefði mjög gjarnan viljað hitta hann og jafnvel ganga með honum eins og eina 1. maí-göngu,“ segir Sólveig Kristín Einarsdóttir, rithöfundur og barnabarn Þorvarðar. Hann lést árið 1936, þremur árum áður en Sólveig sjálf kom í heiminn.
Í dag, laugardag, verður afhjúpaður nýr legsteinn í Hólavallagarði við leiði Þorvarðar og seinni eiginkonu hans, Gróu Bjarnadóttur, tveggja sona þeirra og sonar Þorvarðar af fyrra hjónabandi.
Forsaga málsins er sú að frændi Sólveigar, Ágúst Freyr Takács Ingason, sem býr í Vesturbæ Reykjavíkur, komst að því að Þorvarður, sem er langalangafi hans, hvíldi í Hólavallagarði. Hann gekk reglulega um garðinn en fann aldrei legsteininn, þrátt fyrir mikla leit. Ágúst fór því að grennslast betur fyrir um málið og fann í framhaldinu staðinn en þar var engan legstein að finna. Þá komst hann að því að það er ekki aðeins Þorvarður sem hvílir þarna, heldur líka Gróa og synirnir þrír.
Þetta var vorið 2020. Afkomendum Þorvarðar þótti miður að enginn legsteinn væri við gröf hans, þannig að sex manna nefnd var skipuð, sem í sátu þrjár konur og þrír karlar, og árið 2021 hófst söfnun til að fjármagna steininn. Heimsfaraldurinn tafði það verk aðeins en nú er allt tilbúið.
Sólveig sat ekki sjálf í nefndinni en er ánægð með störf hennar. Auk þess að leysa verkefni sitt hafi nefndin líka kallað á aukin samskipti við frændsystkini hennar, sem hafi verið ánægjulegt. „Það er mér að kenna hversu dugleg við erum að hittast á ættarmótum og vera í sambandi; mig langar alltaf að sjá og hitta mitt fólk, ekki síst börnin,“ segir Sólveig, sem lengi hefur búið í Ástralíu. Hún ver þó gjarnan hluta ársins á Íslandi, helst á sumrin.
Það var annar frændi Sólveigar, Eiríkur Örn Arnarson, sem stakk upp á því að afhjúpa legsteininn 11. janúar, á afmælisdegi Leikfélags Reykjavíkur (LR), en Þorvarður var fyrsti formaður þess. Þess má geta að LR lagði fé til söfnunarinnar, eins Grafía, stéttarfélag í prent- og miðlunargreinum, en Þorvarður var stofnandi Hins íslenzka prentarafélags.
Átti að verða prestur
Þorvarður Þorvarðarson fæddist 23. maí 1869 að Kalastöðum á Hvalfjarðarströnd. Foreldrar hans eignuðust alls 12 börn en aðeins sex þeirra komust á legg. Sólveig segir móður Þorvarðar, prestsdótturina Margréti Sveinbjarnardóttur, hafa viljað að hann yrði prestur en hugur hans stóð til annarra starfa.
Faðir Þorvarðar, Þorvarður Ólafsson hreppstjóri, sigldi, stundaði laganám í Kaupmannahöfn og las bókmenntir, meðal annars Shakespeare og Dickens, og urðu það eftirlætishöfundar Þorvarðar yngri. „Þaðan kemur þessi mikli bókmenntaáhugi í fjölskyldunni,“ segir Sólveig.
Þorvarður eldri og Margrét höfðu einnig brennandi áhuga á þjóðsögum og segir Sólveig Jón Árnason hafa leitað til þeirra þegar hann var að safna þeim sögum á sinni tíð. Margrét sagði frá en Þorvarður skrifaði upp sögurnar. Vakti íslenskan á sögum þeirra sérstaka athygli, að sögn Sólveigar.
Upplýsingarnar um ævi Þorvarðar, sem hér fara á eftir, eru fengnar frá Sólveigu og Eiríki Erni Arnarsyni, en meðal heimilda má nefna kafla um Þorvarð úr bókinni Þeir settu svip á öldina eftir Jón Guðnason, bókina Leikfélag Reykjavíkur 50 ára, bók Eufemiu Waage, Lifað og leikið: minningar, og grein um Þorvarð eftir Sigurð Guðmundsson ritstjóra í Þjóðviljanum á aldarafmæli hans, 1969.
Þorvarður yngri hóf prentnám 15 ára gamall 1884 hjá Sigmundi Guðmundssyni í Skólastræti og vann þar uns prentsmiðjan brann árið 1885. Haustið 1886 var hann tekinn inn í fyrsta bekk Lærða skólans, þar sem hann stundaði nám næstu tvo vetur en vann við prentverk á sumrum. Sólveig segir Þorvarð hafa gengið ungan í Góðtemplarastúku og mætt andbyr af þeim sökum í skólanum. „Það var enginn maður með mönnum á þeim tíma nema drekka áfengi. En hann hélt fast við sitt og var bindindismaður alla ævi,“ segir hún.
Stúkan sem Þorvarður gekk í hét Einingin nr. 14. Árið 1899 var hann kjörinn í framkvæmdanefnd Stórstúkunnar fyrst 1893-97 og Stórgæslumaður ungtemplara. Hann var Stórkanslari 1913-1919 og Stórtemplar IOGT 1921-1923.
Þorvarður hætti skólanámi 1889, sigldi um sumarið til Kaupmannahafnar og var þar einn vetur í prentsmiðju J.H. Schultz. Sneri þá heim og vann í Ísafoldarprentsmiðu í nokkur ár en síðan í Félags- og Aldarprentsmiðju. Árið 1902 setti hann á stofn Prentsmiðju Reykjavíkur og rak til 1905, er hann og fleiri prentarar stofnuðu Gutenberg, en hlutafélagið keypti prentsmiðju hans. Gutenberg fól Þorvarði alla framkvæmd við stofnun prentsmiðjunnar og fór hann utan, keypti vélar í Danmörku og letur í Svíþjóð og réð sænskan yfirprentara. Þorvarður var kjörinn forstjóri prentsmiðjunnar og hélt því starfi meðan hún var rekin sem hlutafélag, en vann til æviloka á skrifstofu prentsmiðjunnar eftir að hún varð ríkiseign 2. janúar 1930. Vegna starfa sinna við prentverk segir Sólveig afa sinn stundum hafa verið kallaðan Þorvarð þrykkjara.
Þorvarður var stofnandi Hins íslenzka prentarafélags (HÍP) og fyrsti formaður þess 1897-98. Hann var upphafsmaður að stofnun Sjúkrasamlags prentara og fyrsti formaður þess 1897-98 og ritari samlagsins árið 1901, en það er talið fyrirmynd og undanfari Sjúkrasamlaga og síðar Sjúkratrygginga Íslands.
Þorvarður lét víðar til sín taka. Verkamannasamband Íslands var stofnað 29. október 1907 og stóðu að því Verkamannafélagið Dagsbrún, HÍP og aðilar úr Bárufélögunum. Kosið var sjö manna sambandsráð og var Þorvarður formaður þess. Sólveig segir afa sinn hafa verið róttækan jafnaðarmann.
Minnst sem brautryðjanda
Á aldarafmæli Þorvarðar, 23. maí 1969, birtist grein honum til heiðurs í Þjóðviljanum eftir Sigurð Guðmundsson ritstjóra blaðsins. Nefnist hún Brautryðjandinn Þorvarður Þorvarðarson.
Þar segir m.a.: „Ómetanlegt hefur það verið íslenskri verkalýðshreyfingu að hún skyldi þegar í bernsku fá notið snertingar við erlenda reynslu í hagsmunabaráttu og tengjast jafnframt hugsjón og kenningum sósíalismans. Og það hefur orðið hlutskipti ÞÞ öllum öðrum fremur á upphafsskeiði verkalýðshreyfingarinnar á Íslandi að miðla þeirra reynslu, beita henni við íslenskar aðstæður. Á þetta hefur tæpast verið lögð nægileg áhersla og Þorvarðs sjaldnar verið minnst en annarra brautryðjenda, en það er trúa mín að hlutur hans í sögu íslenskra alþýðusamtaka eigi eftir að stækka við rannsóknir og söguritun.“
Vitnar Sigurður í minningargrein í blaði HÍP, Prentaranum, frá október 1936, eftir Hallbjörn Halldórsson þar sem segir: „Hann (ÞÞ) skildi manna best að verkamönnum er einnig nauðsynlegt að standa á verði um hagsmuni sína á sviði stjórnmálanna, því að andvíg stjórnvöld geta vitanlega gert hverja kjarabót að engu með opinberum álögum og réttarskerðingu. Þorvarður gerðist því einn af fyrstu forvígismönnum jafnaðarstefnunnar hér á landi og stóð framarlega í flokki jafnaðarmanna í Alþýðuflokknum er hann hafði verið stofnaður og var í kjöri fyrir hann bæði í Reykjavík og við landskosningar, og mun hann, þó eigi auðnaðist honum að [hljóta] kosningu til löggjafarstarfs, hafa átt eigi lítinn þátt í að afla flokki sínum fylgis því hann var vinsæll maður. ... Í hina röndina var hann (ÞÞ) aftur á móti dulur og fáskiptinn og hætti því til að víkja í troðningi manna fram til mannvirðinga. Hann var hugsjónamaður, sem fylgdi fastlega hverju mannbótamáli, en jafnframt veruleikans maður, glöggskyggn á muninn á skýjaborgum og hagnýtum verðmætum. Hæfileikar hans hefðu vel mátt gera hann að vel metnum yfirráðastéttarmanni, en samúð hans vísaði honum jafnan í hóp hinnar undirokuðu stéttar þjóðfélagsins“. Lýkur Sigurður ritstjóri grein sinni með þessum orðum: „Þess væri mikil þörf að ævisaga hans (ÞÞ) yrði rituð, og eins er raunar um fleiri brautryðjendur verkalýðshreyfingarinnar og forystumenn, sem að þessu leyti liggja enn óbættir hjá garði.“
Þorvarður var kjörinn bæjarfulltrúi í Reykjavík árið 1912 og sat í bæjarstjórn til 1924.
Vantaði 25 atkvæði
Jón Guðnason sagnfræðingur, sem þekkti vel til Þorvarðar, segir í fyrrnefndri bók sinni frá þremur tillögum hans sem samþykktar voru, öllum frá 1916.
Sú fyrsta er þess að efnis „að bærinn kaupi botnvörpung og geri hann út á kostnað bæjarsjóðs“.
Í öðru lagi „að bæjarstjórn skyldi fela dýrtíðarnefnd að semja frumvarp til laga um hámark húsaleigu í Reykjavík. Báðar þessar tillögur voru sprottnar af vandræðaástandi sem skapast hafði vegna stríðsins, atvinnuskorti og dýrtíð“.
Loks „að fá erlenda verkfræðinga til þess að rannsaka hvar tiltækilegast væri að virkja vatnsafl handa Reykjavík, en honum var mjög umhugað um að nota Sogið sem aflgjafa“.
Sólveig staðfestir að afi hennar hafi einu sinni boðið sig fram til þings og mun hann aðeins hafa verið 25 atkvæðum frá því að ná kjöri. „Mér skilst að það hafi gert útslagið að hann var ekki á landinu meðan kosningabaráttan fór fram, heldur hafði farið vestur um haf,“ segir hún.
Þorvarður gaf sig einnig mjög að útgáfumálum og mætti rita langt mál um það. Árið 1897 stofnaði hann Æskuna, fyrsta barnablað á Íslandi, ásamt Sigurði Júl. Jóhannessyni og 1904 hóf hann útgáfu á blaðinu Nýja Íslandi fyrir alþýðu alvarlegs og skemmtandi efnis.
Þorvarður gekk leiklistinni fyrst á hönd í starfi Góðtemplarareglunnar í Reykjavík. Fljótlega eftir að stúkan Einingin nr. 14 var stofnuð hófu félagar að sýna sjónleiki, en öll aðstaða til sýninga stórbatnaði þegar þeir fengu inni í Góðtemplarahúsinu, (Gúttó), sem stúkurnar í Reykjavík höfðu reist sameiginlega árið 1887. Fyrir leiklistarstarfsemi sem þar hófst komu í ljós svo góðir leikarar að flest það fólk sem þar hóf starfsleikstarfsemi varð kjarninn að leikstarfsemi í Reykjavík um tugi ára ásamt því fólki sem við bættist við stofnun LR.
Valgarður Ó. Breiðfjörð reisti leikhús í Aðalstræti 8 við Bröttugötu árið 1893 og var það uppnefnt Fjalaköttur. Breiðfjörð kom sér upp leikflokki.
Þorvarður og Borgþór Jósefsson, sem síðar kvæntist Stefaníu Guðmundsdóttur leikkonu, voru góðir vinir, enda hafði Borgþór verið trúlofaður Rannveigu systur Þorvarðar sem fórst í sjóslysi. Þorvarður var einn þátttakenda í hópnum sem myndaðist í kringum Stefaníu í Gúttó, sem lék sitt fyrsta hlutverk þar 30. janúar 1893. Hún hélt ásamt Árna Eiríkssyni, Þorvarði og fleiri góðtemplurum uppi leikstarfsemi í Gúttó veturna 1892-1896 og öðru hvoru í Fjalakettinum.
Veturinn 1895-1896 var myndaður leikflokkur undir forystu Stefáns Runólfssonar prentara sem hélt uppi sjónleikjum Guttó. Flestir voru úr stúkunum Einingin og Verðandi, þar á meðal Þorvarður, kona hans Sigríður Jónsdóttir, Hjálmar Sigurðsson, ritstjóri Norðurljóssins, Helgi Pétur Hjálmarsson, síðar prestur að Grenjaðarstað, Borgþór Jósefsson verslunarmaður, Jónas Jónsson þinghúsvörður, Helgi Helgason verslunarstjóri og Stefanía Guðmundsdóttir.
Á árunum 1896-1897 reistu iðnaðarmenn í Reykjavík samkomuhús á uppfyllingu við norðausturenda Tjarnarinnar með rúmgóðu sviði. Iðnaðarmannahúsið fékk fljótlega gælunafnið Iðnó og var notað bæði til samkomuhalds og sem leikhús. Þorvarður beitti sér fyrir því að ná saman helstu leikurum bæjarins í leikfélag og sameinuðust tvö félög sem höfðu staðið fyrir leiksýningum í Fjalakettinum og Gúttó í Leikfélag Reykjavíkur 11. janúar 1897, en iðnaðarmenn áttu frumkvæðið að stofnun þess og átti Þorvarður mikinn þátt í því.
Fyrsti formaður LR og leikhússtjóri til 1904 var Þorvarður Þorvarðarson, Árni Eiríksson varaformaður, Friðfinnur Guðjónsson ritari og Borgþór Jósefsson gjaldkeri. Margir aðrir höfðu komið að málum, ekki síst Indriði Einarsson, en það var Þorvarður sem dró þyngsta hlassið þegar kom að því að búa til starfhæft leikfélag.
Vilhjálmur Þ. Gíslason kemst svo að orði í bókinni Leikfélag Reykjavíkur 50 ára: „Félagsmálaáhugi Þorvarðs og félagslægni hefur sjálfsagt átt mikinn þátt í því, að Leikfélagið komst yfir fyrstu erfiðleika sina og fór ekki sömu leið og hinir leikflokkarnir, sem stofnaðir höfðu verið.“
Fyrsta leiksýning á vegum LR fór fram í árslok 1897.
Þorvarður var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku Fálkaorðu 1929 og gerður að heiðursfélaga í HÍP sama ár. Á 65 ára afmæli Iðnaðarmannafélags Reykjavíkur 1932 var Þorvarður gerður að heiðursfélaga þess og var þá búinn að vera félagi í 43 ár. Þá varð hann heiðursfélagi Leikfélags Reykjavíkur 1934.
Var tvígiftur
Þorvarður var tvígiftur. Fyrri kona hans var Sigríður Jónsdóttir (1863-1921), tómthúsmanns í Skálholtskoti í Reykjavík, og gengu þau í heilagt hjónaband í Frúarkirkju í Kaupmannahöfn árið 1890.
Börn þeirra voru fimm; Rannveig Kristín (1892-1952), María (1893-1967), sem giftist Eiríki Kristjánssyni kaupmanni á Akureyri, Kjartan (1898-1936), Ágústa (1901-1948), sem giftist Peter Björn verkfræðingi í Kaupmannahöfn, og Sigríður (1903-1994), sem giftist Einari Olgeirssyni alþingismanni.
Sólveig, sem er dóttir Sigríðar og Einars, segir eitt af fáum bréfum frá afa sínum sem hafa varðveist vera bréf sem hann ritaði föður hennar þegar hann trúlofaðist móður hennar. „Í því bréfi segir Þorvarður pabba að sjálfur hafi hann gift sig allt of ungur í Kaupmannahöfn og að líf þeirra ömmu hafi verið hið mesta basl. Því lauk með skilnaði árið 1904, þegar mamma var ekki nema eins árs,“ segir Sólveig og bætir við að skilnaðir hafi ekki verið algengir á þessum tíma.
Þorvarður og Einar þekktust ekki fyrir en vissu hvor af öðrum og voru um margt sammála í pólitík. „Afi var mjög glaður með þessa trúlofun mömmu og pabba,“ segir Sólveig og brosir.
Rannveig Kristín var skírð í höfuðið á systur Þorvarðar sem fyrr er getið og fórst í sjóslysi á Faxaflóa aðeins 21 árs gömul, ásamt bróður þeirra, Sveinbirni formanni og skipseiganda, en þau voru á leið frá Akranesi til Reykjavíkur í afar slæmu veðri. „Afi sá óskaplega eftir þessari systur sinni og Rannveigarnafnið er í miklu uppáhaldi í fjölskyldunni. Rannveig Kristín, móðursystir mín, bjó lengst af erlendis. Mjög merkileg kona og vel gefin en eignaðist ekki börn,“ segir Sólveig, sem einmitt vinnur að því að skrá sögu hennar, Bráðgáfuð heimskona ... en gleymd. „Rannveig var stjarnan í fjölskyldunni.“
Við þá efnisöflun hefur Þorvarð borið oft á góma, sem Sólveig segir hafa verið í senn ánægjulegt og spennandi. „Ég hafði ekki stúderað hann svoleiðis áður, en nú er ég líka komin á bólakaf í hans sögu.“
Maríu Þorvarðardóttur farnaðist einnig vel í lífinu og var orðlögð fyrir fegurð.
Sonur Ágústu Þorvarðardóttur var Baldur Georgs búktalari. „Barnaafmælin hjá mér voru mjög vinsæl, enda mættu Baldur og Konni iðulega,“ segir Sólveig hlæjandi.
Ósammála í pólitík
Kjartan Þorvarðarson varð fyrir slysaskoti sem barn og var kúlan aldrei fjarlægð úr líkama hans, að sögn Sólveigar. Hann var blaðamaður í Reykjavík en lést skyndilega aðeins 38 ára eftir að kúlan hafði færst úr stað.
Seinni kona Þorvarðar var Gróa Bjarnadóttir (1878-1964), en þau giftu sig árið 1904 í Noregi. „Eftir skilnaðinn við ömmu hélt afi til Noregs, þar sem hann kynntist Gróu, sem þá hafði misst sinn fyrri mann. Gróa var ekki bara ákaflega glæsileg kona, heldur líka sjálfstæð og fylgin sér. Hún var til dæmis mjög íhaldssöm og kaus alltaf Sjálfstæðisflokkinn enda þótt afi væri jafnaðarmaður. Gróa lét ekki segja sér fyrir verkum.“
Gróa og Þorvarður eignuðust fjögur börn; Þorvarð (1909-1930), Ólaf Kalstað Þorvarðarson (1911-1942), Gunnar Kalstað Þorvarðarson (1913-1987) og Bjarna Kalstað (1917-1919).
Gróa liðsinnti þeim sem minna máttu sín, að sögn Sólveigar. Þannig eignaðist hún fósturdóttur, Ingibjörgu Sigurgeirsdóttur (1919-1988), sem hún annaðist og unni sem sínum eigin börnum.
Móðir Sólveigar kynntist föður sínum lítið fyrstu árin, enda ólst hún upp hjá móður sinni eftir að foreldrar hennar skildu. Sólveig segir ömmu sína hafa verið afar duglega að ala önn fyrir börnunum, hún hafi til dæmis vaknað klukkan fjögur alla morgna til að baka kleinur sem hún seldi. Þá munu elstu dæturnar, Rannveig og María, hafa drýgt tekjur heimilisins með því að leika á píanó þegar þöglu myndirnar voru sýndar í bíó. „Þær fundu leiðir til að bjarga sér.“
Sigríður flutti með yngri tvær dæturnar til Danmerkur, þar sem tvær þær eldri dvöldust fyrir. Sigríður lést árið 1921, langt fyrir aldur fram. „Þá var mamma ekki nema 18 ára og kveið því mjög að þurfa að fara aftur heim til Íslands til að búa hjá föður sínum, sem hún þekkti lítið, og Gróu. Þegar á reyndi gekk allt vel og mamma sagði alltaf að þau hefðu reynst sér afskaplega vel, ekki síst Gróa.“
Þorvarður lést 13. október 1936, með sviplegum hætti. Sólveig segir hann hafa haldið óskaplega mikið upp á Kjartan son sinn og hann hafi fyrir vikið tekið dauða hans mjög nærri sér. Þorvarður orti ljóð um Kjartan að honum látnum, þar sem sorgin leynir sér ekki. Aðeins þremur mánuðum seinna lést Þorvarður sjálfur, gekk í sjóinn.
„Talað hefur verið um að hann hafi átt í fjárhagsörðugleikum en mamma hélt því fram að afi hefði bugast eftir fráfall Kjartans, sem var þriðji sonurinn sem hann missti, og hreinlega ekki getað meira. Sjálfri þykir mér það líkleg skýring. Sjálfsvíg voru mikið tabú á þessum tíma, ógurleg skömm og ekki talað hátt um þetta. Sjálf frétti ég af þessu á unglingsaldri en spurði aldrei mikið. Þetta var að vonum mikið áfall fyrir Gróu og öll börn Þorvarðar sem eftir lifðu. Missir þeirra var mikill.“