Málaga Valskonur spila fyrri leikinn á Spáni og seinni á Hlíðarenda.
Málaga Valskonur spila fyrri leikinn á Spáni og seinni á Hlíðarenda. — Morgunblaðið/Karítas
Íslands- og bikarmeistarar Vals verða ekki með sitt sterkasta lið gegn Málaga Costa del Sol í fyrri viðureign liðanna í 16-liða úrslitum Evrópubikars kvenna í handknattleik sem fram fer á Spáni í dag

Íslands- og bikarmeistarar Vals verða ekki með sitt sterkasta lið gegn Málaga Costa del Sol í fyrri viðureign liðanna í 16-liða úrslitum Evrópubikars kvenna í handknattleik sem fram fer á Spáni í dag.

Elísa Elíasdóttir og Sigríður Hauksdóttir, sem báðar léku í sigrinum í toppslagnum gegn Fram á miðvikudagskvöldið, fóru ekki með til Spánar. Elísa er í lokaprófi í háskólanum og Sigríður átti ekki heimangengt. Þá er Lilja Ágústsdóttir frá vegna meiðsla en hún hefur ekki spilað nema þrjá leiki í úrvalsdeildinni í vetur.

Ágúst Jóhannsson þjálfari Vals sagði við Morgunblaðið í gær að leikurinn yrði mjög erfiður gegn toppliði Spánar sem hefði unnið Evrópubikarinn 2021 og orðið spænskur meistari 2023.

„Þær eru með tvo mjög öfluga portúgalska landsliðsmenn, bæði leikstjórnanda og vinstri skyttu og mjög sterka brasilíska skyttu hægra megin. Þær eru með spænskan línumann sem er í spænska landsliðinu þannig að við búumst bara við hörkuleik,“ sagði Ágúst.

Málaga vann Sao Pedro do Sul frá Portúgal 32:15 og 24:23 í 32-liða úrslitum og Valur vann þá Kristianstad frá Svíþjóð tvisvar, 27:24 á Hlíðarenda og 29:24 í Kristianstad.

Þar á undan vann Málaga tvo sigra á Pontinia frá Ítalíu, 32:25 og 31:22, og Valur vann Zalgiris Kaunas tvisvar í Litháen, 31:17 og 34:28.

Valskonur hafa nú unnið 40 leiki í röð í öllum mótum en nú er væntanlega komið að þeirra erfiðasta verkefni í langan tíma gegn sterku liði á útivelli.

Leikurinn í dag hefst klukkan 17 í Málaga en síðari viðureign liðanna fer fram á Hlíðarenda næsta laugardag, 18. janúar.