Ólafur Viggó Sigurbergsson fæddist 4. ágúst 1943. Hann lést 30. desember 2024.
Útför fór fram 10. janúar 2025.
Óli Viggó eins og hann var kallaður af fjölskyldunni hefur nú kvatt þetta jarðlíf. Ég á margar góðar minningar um hann frá æskuárum okkar, en við erum bræðrasynir. Faðir hans, Sigurbergur, var okkur systkinum ómetanlegur stuðningur þegar ég missti minn föður sex ára gamall. Heimili Sigurbergs og Lydíu var okkur ávallt opið og úr Eskihlíðinni á ég margar góðar minningar.
Óli frændi var farsæll maður í lífi sínu, ábyrgðarfullur, heiðarlegur, nákvæmur í sínum störfum, glaðlyndur og umfram allt hlýr og notalegur í öllum sínum samskiptum. Við frændur áttum góð samskipti þar sem ég þáði þjónustu hans sem endurskoðanda árum saman, sömuleiðis hittumst við oft á stórum tímamótum í stórfjölskyldunni.
Síðustu 15 árin hafa samskipti okkar orðið mjög náin þar sem börnin okkar fundu hvort annað og hafa sameinað okkur frændur enn betur. Yndislegra samverustunda með þeim hjónum Óla Viggó og Sólrúnu höfum við notið í enn ríkari mæli eftir að Elín Hrönn og Árni Geir stofnuðu sitt heimili saman. Við hjónin nutum þess að vera með þeim í Kaldbaksvík á Ströndum, þar sem Óli Viggó og Sólrún nutu sín til fulls sem húsráðendur og buðu til ógleymanlegra stunda í stórbrotinni náttúru með veiðiskap, gleði og góðum veitingum.
Oft höfum við fengið tækifæri til að rifja upp gamlar minningar úr fjölskyldunni og Óli dró upp margar skemmtilegar og skondnar myndir úr sínum minningasjóði.
Í faðmi fjölskyldu sinnar, sem var honum afar dýrmæt, skilaði Óli Viggó farsælu lífi sínu, um það bil sem árið var að renna sitt skeið. Við sem eftir stöndum þökkum góðum Guði fyrir allt sem hann var okkur og biðjum um styrk til þeirra sem syrgja yndislegan eiginmann, föður, tengdaföður, afa og langafa.
Jón Dalbú og Inga Þóra.
Við Óli kynntumst í gegnum eiginkonur okkar en Sólrún og Guðrún heitin voru frænkur og góðar vinkonur. Sambandið milli vinkvennanna var náið og hittust fjölskyldurnar því oft og urðum við Óli fljótlega miklir vinir.
Óli og Sólrún áttu hlut í Kaldbaksvík á Ströndum og fórum við fjölskyldurnar oft saman þangað á sumrin. Kaldbaksvík er eins og Paradís á jörð fyrir flesta, bæði börn og fullorðna. Þar stunduðu menn göngur, berjatínslu, veiðar o.fl. Þegar dvalið var í Kaldbaksvík var ávallt borinn fram veislumatur bæði kvölds og morgna og var Óli alltaf hrókur alls fagnaðar í þessum matarveislum. Óli hafði þá gáfu að geta sagt skemmtilega frá og kunni hann margar spaugilegar sögur og hann vílaði ekki fyrir sér að gera grín að sjálfum sér í þeim sögum sem snertu hann og var þá oft hlegið dátt.
Óli var mjög virkur félagi í Oddfellow-reglunni og hafði hann mikinn áhuga á starfi hennar og gegndi þar mörgum veigamiklum embættum, enda mikils metinn í reglustarfinu. Óli var í stúkunni Hallveigu, en sú stúka átti vinastúku í hverju landi hinna Norðurlandanna og skiptust þessar stúkur á að halda mót í sínu landi fyrir allar vinastúkurnar. Óli var mjög áhugasamur um þetta samstarf norrænu stúknanna og tóku þau Sólrún þátt í flestum þessum mótum á sínum tíma.
Óli hafði mikinn áhuga á bílum og var alltaf á flottum bílum. Ekki máttu bílarnir verða of gamlir og var því oft uppfært í nýjustu gerð, en hann var þó ekki mikið að skipta um tegund. Síðustu 20-30 árin var það Volvo en áður voru það Mitsubishi-bílar. Þó Óli hafi haft mikinn áhuga á bílum fannst honum ekkert skemmtilegt að keyra þá, en hann lét sig hafa það og keyrði m.a. nokkrum sinnum á hverju sumri til Kaldbaksvíkur. Einnig voru þau Sólrún dugleg að taka bílaleigubíl á leigu og keyra um ýmis lönd í Evrópu.
Óli var endurskoðandi af guðs náð, hann hafði alltaf allt á hreinu um debit og kredit í heimilisrekstrinum, í vinnunni og í öðrum rekstri sem hann kom nálægt. Óli hóf nám og störf hjá nafna sínum í Tjarnargötunni, en mestan hluta starfsævinnar var hann einn eigenda PwC á Íslandi. Skv. reglum PwC þá þurftu allir endurskoðendur stofunnar að hætta störfum 65 ára og fannst Óla erfitt að þurfa þá að hætta allri vinnu við endurskoðun sem hann hafði mjög gaman af. Hann hætti þó alls ekki að vinna við það sem hann kunni best, þar sem hann var mjög eftirsóttur til að sinna uppgjöri og eftirliti með uppgjöri og fékk hann alla tíð nóg að gera.
Heilsan var ekki alltaf góð hjá Óla og voru það hinir ýmsu kvillar sem hrjáðu hann, en hann tók þeim af slíku æðruleysi að aðdáunarvert var. Það var sama hvenær maður spurði hann um hvernig hann hefði það, þá svaraði hann að hann hefði það gott og ekkert væri að honum. Hann var alltaf glaður í bragði og kvartaði aldrei yfir neinu varðandi heilsuna.
Við Kristín munum sakna Óla og alls þess sem við höfum gert saman. Hugur okkar er hjá Sólrúnu, Guðlaugu og Elínu Hrönn og sendum við þeim innilegar samúðarkveðjur.
Hjörtur Hansson.