Hörður Rúnar Úlfarsson fæddist 3. júní 1966. Hann lést 12. desember 2024.
Útför hans fór fram 10. janúar 2025.
Elsku besti frændi minn. Nú ertu fallinn frá. Ég eiginlega get ekki trúað því að þú sért farinn. Þinn tími var ekki kominn. Með svo yndislega konu, svo glaður með lífið og svo hnarreistur, elsku frændi minn.
Það var svo dásamlegt að sjá þig, Helgu og Nidinu í sextugsafmælinu mínu. Hvað ég er þakklát elsku frændi að þið skylduð koma.
Manstu eftir öllum misvitru bernskubrekunum okkar? Þau voru ansi mörg. Ég bjó á hæðinni fyrir ofan með ömmu og afa, Ingu og Þór. Þú bjóst á neðri hæðinni með foreldrum þínum og Villa bróður þínum. Ég held að fyrstu orðin þín hafi verið Scania Vabísss með löngu s-i. Þú varst algjör vörubílakarl frá blautu barnsbeini.
Við lékum okkur endalaust með fótboltaspilið góða. Manstu þegar við grófum okkur í gegnum hliðið skrýtna inni í hitakompunni sem lá undir gangstéttinni og inn í garðinn? Fundum þarna fylgsni. Við vorum svo kát með afraksturinn. Svo var veisla haldin og þá vorum við búin að gera svo fínt. Komin kerti og veitingar og öll börnin í veislunni komin þarna inn og enginn fann okkur. Við fundumst svo í góðu yfirlæti, sátt og kát.
Elsku Hörður minn. Minningar okkar skarta svo mörgu og þegar ég hugsa til baka, þá var þetta svo gaman. Elsku Nidina konan þín og mamma þín sem hefur misst alla sína af sinni nærfjölskyldu. Elsku Pálína dóttir þín og barnabarnið þitt hann Hrafnkell Hörður.
Þú fórst of snemma. Þú áttir svo margt eftir. Þín beið svo margt … að fá að faðma lífið, njóta og fylgjast með barnabarninu þínu, nafna þínum, vaxa úr grasi.
Takk fyrir allt elsku frændi minn.
Þín,
Kolla frænka.
Kolbrún Hildur Gunnarsdóttir.
Elsku Höddi, ekki óraði mig fyrir því að þú myndir kveðja okkur svona skyndilega. Okkar vinátta spannaði fjörutíu ár óslitið. Við áttum saman engilinn okkar hana Pálínu sem þú varst svo stoltur af. Þú varst góður faðir og þegar Hrafnkell Hörður afastrákur kom í heiminn með látum hef ég sjaldan séð stoltari mann. Við stormuðum saman í barnavörubúðina til að kaupa allt sem lítið barn þarfnast og þá var ekkert til sparað. Þú varst mikill fjölskyldumaður og mikið varð ég glöð þegar þú sagðir mér að þú hefðir kynnst henni Nidiu þinni, þið skópuð ykkur fallegt heimili og gott líf. Margar minningar koma upp í hugann og munu fylgja mér út lífið. Þakka þér fyrir dýrmæta vináttu þína og samfylgd gegnum súrt og sætt.
Hversvegna er leiknum lokið?
Ég leita en finn ekki svar.
Ég finn hjá mér þörf til að þakka
þetta sem eitt sinn var.
(Starri í Garði)
Kristín Sigurðardóttir (Bía).
Elsku Höddi.
Nú ertu farinn frá okkur, sviptur góða lífinu sem þú varst búinn að skapa þér með Nidiu þinni og orðinn afi.
Þú komst inn í mitt líf sama dag og Gummi, á afmælisdaginn sem þið hélduð saman, það var nú frekar fyndið og búið að segja margar sögur af því. Var til dæmis aðalræðuefnið í brúðkaupinu okkar. Mikið hlegið að þeirri sögu.
En nú á ég erfitt með að koma hugsunum og minningum á blað, ég er svo dofin.
Get ekki þá hugsun að Gummi minn fái sér ekki kaffibolla um helgar og þið á spjallinu.
Elsku vinur, hvíl í friði, við höldum í allar góðu og skemmtilegu minningarnar um þig.
Þín vinkona,
Ólöf.
Minn allra besti … Þú komst í heiminn 22-23 merkur, tekinn með töngum því þú varst engin smásmíði í upphafi og barst þau merki alla tíð. Við urðum vinir frá sex ára aldri og slógumst reglulega, fyrstu kúluna á hausinn fékk ég sex ára en þér var fyrirgefið fljótt, síðan varð það hver var sterkastur í bekknum, við skiptumst á sigri þangað til að ég hætti að nenna að slást við þig, þú varst orðinn beinastór og handsterkur. Eftirminnilegar mótorhjólaviðgerðir og forskrúfaðir boltar þar sem þú varst einfaldlega of sterkur. Unglingsárin voru bara skemmtun og gleði. Mótorhjólin voru alltaf mikill partur af lífi okkar frá 13-14 ára aldri, ég, þú og Ingi, en samt alltaf með einhverjum hléum. Svo tók fjölskyldulífið við og þú eignaðist fyrstur af okkur litla stúlku, hana Pálínu. Áfengisþolið var orðið verulegt og þú settir tappann í flöskuna mjög ungur, ekki fórstu í áfengismeðferð heldur hættir á eigin forsendum og fórst reglulega á AA-fundi, Jón Ingi var þér stoð og stytta í þeirri baráttu við Bakkus, staðfastur og sterkur varstu og edrú eftir það og hjálpaðir mörgum með þína reynslu.
Við hjálpuðum hvor öðrum í gegnum árin, alltaf gat maður stólað á hjálp þína, alltaf boðinn og búinn að hjálpa til. Svo varð það vörubíllinn og ástríðan við starfið, ekkert annað starf kom til greina, Scania og Harley voru svo aðalmerkin og það var einfaldlega það sem þú elskaðir. Utanlandsferðir voru nokkrar og þær eftirminnilegustu spænska eyjan Ibiza í þrjár vikur af skemmtun, hlátri og gleði og svo sú fáránlega hugmynd að fara til Mallorca í nóvember, við félagarnir með félagi eldri borgara var náttúrlega fáránleg hugmynd en við gátum alltaf rifjað þessa ferð upp og hlegið að vitleysunni. Fyrsta keppni Formúlunnar í Shanghai 2005 var líka alveg geggjuð, Bike week Daytona að skoða mótorhjól, Bahamaeyjar í matarboð hjá Völla. Endalausar mótorhjólaferðir út um fjöll og dali. Við skelltum svo í alvörupartí í tilefni 40 ára vináttuafmælis með stæl, Ari Eldjárn mætti með uppistand á skemmtistað niðri í bæ og öllum vinum og vandamönnum var boðið og auðvitað fullt hús.
Þín verður svo mikið sárt saknað við þetta skrítna fráfall þitt sem enginn skilur, helvítis fokking fokk, ég sit hér með tár á hvarmi, sýg upp í nefið og klökkna og ég hélt í alvöru að þú yrðir 100 ára. Ég sjálfur var við dauðans dyr, en þú varst duglegur að koma við á Landspítalanum, kaffistundir og símtölin um allt veraldlegt og þá sérstaklega fjölskylduna, stjórnmálin, mótorhjólin og bílana, já og hláturinn, fasið þitt og það að hneyksla aðra með skrítnum skoðunum og sjá undrunarsvip á viðkomandi eða til að koma umræðu af stað, við vorum líkir að þessu leyti og svo líka Liverpool-menn. Eitt af því sem við Ólöf, þú og ég komumst að eftir spítalainnlagnir og gallblöðrutökur var að við værum öll til allrar hamingju orðin gallalaus!
Það var akkúrat enginn eins og þú.
Elsku Höddi minn, hvíl í friði, mun alltaf sakna þín. Elsku Helga, Nidia, Pálína og fjölskylda, ég votta ykkur mína dýpstu samúð.
Þinn vinur,
Guðmundur (Gummi).