Tungutak
Sigurbjörg Þrastardóttir
sitronur@hotmail.com
Sparnaður er vinsæll í upphafi árs. Fólk keppist við að senda sparnaðarráð til ríkisstjórnarinnar, skera niður umfang sitt í líkamsrækt, borga minna á útsölum o.s.frv. Eitt er það svið þar sem almenningur hefur þegar tekið til hendinni, óumbeðinn, og það er að fækka orðum í föstum orðasamböndum.
Ung kona sem selur mér kaffi segir alltaf minnsta þegar ég þakka henni fyrir. Minnsta! Þar er á ferð orðalagið minnsta mál og mjög nútímalegt hvernig henni tekst að stytta það í eitt orð. Slík helmingun er reyndar þekkt í tilsvarinu Rólegan! þar sem of tímafrekt er að hrópa Rólegan æsing! Í nýlegu útilegulagi segir á einum stað Mér er alveg slétt, í stað slétt sama, 20% sparnaður þar, og sumir segjast taka ýmsu með stóískri, þ.e. stóískri ró. Og þetta er ekki bara eitthvert götutal. Þegar persóna í bók eftir Gyrði Elíasson sagði: Eins og talað út úr mínu, vissi ég að hún væri að spegla eitthvað satt (hjarta).
Þetta birtist enda hvert sem ég lít. Hitti þennan óvænt á förnum, stóð skrifað við fésbókarmynd (vegi) og einhver var alveg á síðustu að mæta á tónleika (stundu) … Og konu einni fannst allt vera alveg í himna, sem er viss nýjung þar sem hún sleppti ekki heilu orði, heldur hálfu (himnalagi). Við þekkjum líka viðburði í beinni (útsendingu), og fólk er æ oftar farið að sjá eitthvað í línulegri, þótt það hafi talið hana dottna úr móð (dagskrá).
Það sem er skemmtilegt er einkum tvennt. Þegar orð hverfur og annað kemur í staðinn. Dæmi: Eitthvað er sagt vera út í hött, svo kemst í tísku að segja út í Hróa hött (því það er fyndið) sem endar með að orðtakið verður út í hróa. Upphaflega orðið, hött, er horfið.
Hitt sem er skemmtilegt er nýbreytnin sem unga fólkið finnur upp á. Nú segja unglingar, ef eitthvað er óljóst: Það fer eftir. Að baki liggur Það fer eftir ýmsu, en með ákveðnu tónfalli koma þau merkingunni fullkomlega til skila og spara fjórðung: Það fer eftir.
Mjög ríður á að við eldri(!) borgararnir viðhöldum nú virku talsambandi við ungdóminn, svo við töpum ekki þræði, enda mun fátt vera vandræðalegra en skilningsvana vandamenn sem þurfa almenna skyndihjálp í samtölum. Ég er í andlegu!, segir þá unga fólkið (áfalli), ef einhver afinn veit t.d. ekki hvað minnsta! merkir.
Nýlega sá ég annars Kött á heitu og fannst ég svöl, það verk hét einu sinni Köttur á heitu blikkþaki, en það er óþarfi að segja það til enda því ég veit að þið vitið það. Þetta er e.k. kóði – ef viðmælandinn þekkir línuna í heild blikkar maður hann huglægt með því að sleppa úr. Besta styttingin á einmitt uppruna í hópi þar sem fólk skilur hvert annað vel. Slagorðið Lifi! er málað á rafmagnskassa í Laugarneshverfi og kyrjað þar sem viðeigandi þykir. Án andlagsins Þróttur virðist það hafa almenna skírskotun, en þeir sem vita, vita. Lifi Þróttur er fínt. Lifi! er enn skemmtilegra.