Miðlun „Með þessu viljum við reyna að koma til móts við ólíka hópa,“ segir Ingibjörg Þórisdóttir um fyrirlestrana.
Miðlun „Með þessu viljum við reyna að koma til móts við ólíka hópa,“ segir Ingibjörg Þórisdóttir um fyrirlestrana. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ný fyrirlestraröð hefur göngu sína í Eddu í næstu viku. Ingibjörg Þórisdóttir, sviðsstjóri miðlunarsviðs hjá Árnastofnun, segir það vera lið í því að opna stofnunina og miðla þeim verðmætum sem hún geymir til almennings

Ragnheiður Birgisdóttir

ragnheidurb@mbl.is

Ný fyrirlestraröð hefur göngu sína í Eddu í næstu viku. Ingibjörg Þórisdóttir, sviðsstjóri miðlunarsviðs hjá Árnastofnun, segir það vera lið í því að opna stofnunina og miðla þeim verðmætum sem hún geymir til almennings.

„Árnastofnun hefur, eins og margir vita, verið svolítið lokuð bók. Hún hefur verið á bak við luktar dyr í Árnagarði vegna strangrar öryggisgæslu í kringum handritin. En nú erum við komin í þetta stórglæsilega hús og við erum eiginlega búin að opna Árnastofnun, bæði í eiginlegri og óeiginlegri merkingu,“ segir Ingibjörg.

Fyrirlestrarnir munu tengjast handritasýningunni Heimur í orðum beint eða óbeint. Þá verður einnig boðið upp á annars konar viðburði, til dæmis tónleika og dagskrá fyrir börn. „Sýningin er fyrir alla og með þessu viljum við reyna að koma til móts við ólíka hópa og fjalla um það úr handritaarfinum sem á erindi við okkur í dag.“

Fyrsta fyrirlesturinn heldur Terry Gunnell, prófessor í þjóðfræði, en þar mun hann fjalla um flutning eddukvæða. „Ef ég þekki Terry rétt þá verður þetta magnaður fyrirlestur hjá honum,“ segir Ingibjörg. Fyrirlesturinn fer fram á þriðjudag, 14. janúar, klukkan 12 og verður hann fluttur á ensku.

Fjölbreytt efnistök

Miðaldafræðingar, sagnfræðingar og íslenskufræðingar munu flytja fyrirlestra auk þess sem ýmsir starfsmenn Árnastofnunar, sem eru sérfræðingar á sínu sviði, svo sem Guðrún Nordal forstöðumaður, Svanhildur Óskarsdóttir rannsóknarprófessor og Sigrún Kristjánsdóttir sýningarstjóri, munu halda erindi. Þá segir Ingibjörg líklegt að doktorsnemar verði fengnir til að segja frá rannsóknum sínum. Meðal þess sem beri á góma verði litarefni í handritum, tilfinningar í fornsögum og ferðalög á miðöldum, svo eitthvað sé nefnt. Þá muni einhverjir viðburðir hverfast um sjálf handritin á sýningunni, sérstaklega þegar nýjum handritum verður komið þar fyrir og önnur fá hvíld.

Einnig verða fyrirlesarar fengir utan frá, m.a. úr atvinnulífinu. Ingibjörg nefnir sem dæmi Davíð Þór Björgvinson, lagaprófessor og fyrrverandi dómara, sem mun fjalla um fornar lögbækur og gildandi lög í fyrirlestri 25. febrúar. Þá muni rithöfundar og tónlistarfólk einnig koma fram. Ingibjörg segir áhrifa handritaarfsins gæta víða, m.a. verði forvitnilegt að heyra hvernig Marvel-heimurinn hafi tekið á móti norrænu goðafræðinni. „Þetta mun allt tengjast efni sýningarinnar á einn eða annan hátt,“ segir hún.

Gert er ráð fyrir að fyrirlestraröðin nái fram á vor og svo verði þráðurinn tekinn upp að nýju í haust. Dagskráin er enn í mótun en hún verður auglýst vel á vef Árnastofnunar, arnastofnun.is, og á vef sýningarinnar, heimuriordum.is.

Þess má geta að ráðinn hefur verið nýr safnkennari við Árnastofnun, Marta Guðrún Jóhannesdóttir. „Við vorum lengi vel með safnkennara sem tók á móti nemendahópum og nutu þær heimsóknir gífurlegra vinsælda en þetta hefur legið í dvala undanfarin ár því við höfum ekki haft aðstöðu til þess að taka á móti hópum. Nú hafa aðstæður sannarlega breyst og verður tekið vel á móti skólahópum á flestum skólastigum.“

Mikið líf verður í húsinu á næstu misserum því einnig stendur til að opna kaffihúsið Ými á allra næstu dögum.

Nýr veruleiki

„Árnastofnun hefur sinnt rannsóknarhlutverki sínu í öll þessi ár en miðlunarhlutinn hefur setið á hakanum,“ segir Ingibjörg. „Núna erum við svolítið að opna okkur sem stofnun, líka sem þjónustustofnun. Þetta er algjörlega nýr veruleiki að vera svona sýnileg. Þessi miðlunarþáttur er þess vegna orðinn miklu mikilvægari en áður, en rannsóknirnar eru alltaf jafn öflugar.“

Spurð út í mikilvægi þess að miðla þessari vitneskju til almennings minnir Ingibjörg á að handritin séu á heimsminjaskrá UNESCO. „Þetta er okkar dýrmætasti menningararfur og það erum ekki bara við hér á Íslandi sem erum að rannsaka þetta heldur er þetta rannsakað um allan heim. Það er svo margt í þessum arfi sem tengist nútímanum án þess að fólk geri sér grein fyrir því. Þetta er svo samofið okkar samfélagi,“ segir hún og bætir við að Árnastofnun haldi líka utan um öll gögn sem tengist íslenskri tungu. „Þetta eru tveir dýrgripir, íslenskan sem töluð er af 400 þúsund manns og svo eru það þessi handrit. Íslenskan er í raun alveg jafn mikill dýrgripur, hún er bara ekki jafn áþreifanleg.“

Höf.: Ragnheiður Birgisdóttir