Lóló hefur kennt fólki að hreyfa sig í þrjátíu ár. Hún leggur mikla áherslu á að finna jafnvægi í hollustu, en huga þarf að svefni, mataræði og hreyfingu jöfnum höndum.
Lóló hefur kennt fólki að hreyfa sig í þrjátíu ár. Hún leggur mikla áherslu á að finna jafnvægi í hollustu, en huga þarf að svefni, mataræði og hreyfingu jöfnum höndum.
Við þurfum að lyfta og enn meira þegar við eldumst, því við verðum að halda vöðvamassa og styrk. Um leið og þú ferð að missa vöðvamassa, ferðu að síga saman.

Matthildur Rósenkranz Guðmundsdóttir, betur þekkt einfaldlega sem Lóló, hefur helgað líf sitt hreyfingu og hollustu. Lóló varð 75 ára á síðasta ári en er enn að vinna við að halda fólki í formi, veita því aðhald og gefa góð ráð. Hún hefur unnið sem kennari og einkaþjálfari hjá World Class í þrjátíu ár en hefur meðfram því verið fararstjóri hjá Úrval Útsýn. Þegar blaðamaður sló á þráðinn á öðrum degi ársins og falaðist eftir viðtali tók hún vel í það, enda alltaf til í að tala um ágæti heilbrigðs lífsstíls. Lóló var að sjálfsögðu í World Class í Laugum að klára að þjálfa viðskiptavini þegar blaðamann bar að garði. Á kaffihúsinu beið hún með tvö vatnsglös, í skærappelsínugulum íþróttafötum og eldhress, enda í toppformi!

Fer í laugina alla daga

Snemma beygist krókurinn, segir máltækið, og á það vel við í tilfelli Lólóar. Hún var ekki nema sjö ára gömul þegar hún ákvað hvert hún vildi stefna í lífinu.

„Þetta byrjaði allt þegar ég fór í fyrsta íþróttatímann minn í sjö ára bekk. Það opnaðist fyrir mér eitthvað stórkostlegt þegar ég gekk inn í salinn. Þegar ég kom heim sagði ég foreldrum mínum að ég ætlaði að verða íþróttakennari,“ segir Lóló.

„Ég átti aktífa foreldra sem fóru með mig á skíði, skauta og í sund, en ég var orðin synd fjögurra ára gömul. Ég fór svo að æfa sund ellefu ára og fjórtán ára var ég komin í landsliðið þar sem ég var til tvítugs að æfa sund. Ég æfði öll sund og átti Íslandsmet í nokkrum greinum; meðal annars setti ég fyrsta Íslandsmetið sem var sett hér í Laugardalslauginni, á vígslumótinu,“ segir Lóló, en metið féll í hundrað metra baksundi.

„Mér þykir afskaplega vænt um það,“ segir Lóló, en óhætt er að segja að hún þekki Laugardalslaugina vel því í hana fer hún enn daglega. Þar hefur hún einnig kennt fólki skriðsund í gegnum árin, bæði á námskeiðum og í einkatímum.

Lóló veit fátt betra en að vera í vatni.

„Ég syndi ekki alltaf en fer í alla pottana og er dugleg að fara með ömmugullin mín í laugina og eru þau því alin upp í vatni hjá mér,“ segir Lóló, en hún kenndi um árabil ungbarnasund og er því alvön að kenna börnum að synda.

„Ég á eftirmiðdagana fría svo ég geti verið með ömmugullunum fimm.“

Ég hef hreyft mig alla ævi

Lóló lærði íþróttafræði á Laugarvatni eftir menntaskóla og hóf svo kennslu í skólum.

„Ég fann fljótt að það hentaði mér ekki og fór þá að gera ýmislegt annað. Ég var flugfreyja í nokkur ár og stofnaði verslun og var í alls konar. En alltaf var ég sjálf að æfa og rækta mig; það er mitt áhugamál númer eitt, tvö og þrjú,“ segir hún.

„Svo fyrir þrjátíu árum fór ég út í það að þjálfa og kenna tíma hér í World Class,“ segir Lóló og segir aldurinn ekki aftra sér frá því að vinna, enda er heilsan í fínu lagi.

„Ég er í fullu fjöri og bý að því að hafa hreyft mig alla ævi. Það er enginn óhultur fyrir sjúkdómum, en með því að hugsa um sig skilar það sér í góðri heilsu og er forvörn. Ég er allveg sannfærð um það,“ segir hún.

„Þetta er mitt líf. Ég hef alla tíð hugsað vel um mig og þetta er mitt hjartans áhugamál. Mér líður svo vel í þessu starfi og nýt þess að geta hjálpað fólki að líða betur og að geta gefið því leiðbeiningar,“ segir Lóló, en hún kennir pilates og tekur fólk í einkaþjálfun.

Lóló hefur undanfarin ár verið fararstjóri í heilsuferðum á vegum Úrvals Útsýnar.

„Þetta eru ferðir fyrir sextíu plús og býð ég upp á alls kyns hreyfingu; pilates á morgnana, gönguferðir, sund og míní-golf. Það er engin skyldumæting í neitt, enda er fólk misjafnlega á sig komið. Ég hef verið mikið á Tenerife, Kanarí, Alicante, Madeira og Benidorm, svo bætist Ítalía við í vor.“

Fólk er bogið yfir símum

Hvaða breytingar hafa orðið á líkamsrækt á þessum þrjátíu árum?

„Íslendingar eru þekktir fyrir hjarðhegðun og því er það misjafnt hvað er vinsælast hverju sinni; þetta kemur svolítið í bylgjum. Allt í einu vilja allir hlaupa maraþon eða ganga á fjöll eða fara í sjósund. Það fer eftir hvað er mest í umræðunni. En líkamsrækt eins og er hér inni hefur ekki mikið breyst í grunninn. Það er auðvitað misjafnt hvað fólk þarf, enda er fólk í misjöfnu ástandi þannig að ég þarf að vega og meta og búa til prógramm sem hentar einstaklingnum; einkaþjálfunin snýst einmitt um það. Mín megináhersla í þjálfun er að fá fólk til að bera sig vel,“ segir Lóló og ósjálfrátt réttir hokinn blaðamaður úr bakinu.

„Og þú réttir úr þér,“ segir Lóló og brosir.

„Ég vil að fólk fari út í daginn beint í baki og beri sig vel. Þetta snýst allt um þessa grunnvinnu; að læra að bera sig vel og hreyfa líkamann rétt. Fyrir marga er það kúnst,“ segir Lóló og segir mikilvægt að halda stoðkerfinu í lagi.

„Ég sé stórmun á þessu eftir að snjallsímarnir komu til sögunnar. Fólk er alltaf bogið yfir símunum og verður hokið. Síminn er farinn að stýra fólki.“

Lóló segir að vissulega hafi fjölbreytnin aukist mikið á þrjátíu árum hvað varðar tíma sem boðið er upp á.

„Það hefur orðið gríðarleg þróun í því sem er í boði. Nú er mikið jóga, heitir salir, pilates, barre og bjöllutímar svo fátt eitt sé nefnt. Það er alltaf verið að finna eitthvað nýtt og best er að hafa nógu mikið í boði því þá ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi.“

Best að búa til rútínu

Í einkaþjálfun hjá Lóló er áhersla lögð á að viðhalda styrk, en hún er með nokkra eldri viðskiptavini.

„Við þurfum að lyfta og ekki síður þegar við eldumst, því við verðum að halda vöðvamassa og styrk. Um leið og þú ferð að missa vöðvamassa, ferðu að síga saman. Til að halda sér gangandi þarf að styrkja stoðkerfið. Bakið þarf að vera sterkt,“ segir hún.

„Ráðið við bakverkjum er að hreyfa sig. Pilates snýst um að styrkja miðjuna og það gerir svo mikið fyrir fólk. En fyrir marga með bakverki er best að ganga og svo að lyfta. Sundið er líka ein besta hreyfing sem til er. Auk þess er sundið heilun þar sem fólk er aleitt í vatninu og síminn má þar ekki fara ofan í,“ segir Lóló.

„Svo þurfum við líka góðar teygjur. Þetta þarf allt að spila saman og ég vil að fólk gangi hér út ánægt með sig og alls ekki bugað. Ég vil að fólki finnist það endurnært, fullt af orku og að það hlakki til að mæta á næstu æfingu,“ segir Lóló.

„Hreyfingu fylgir svo mikil vellíðan og best er að fólk búi sér til rútínu því það gengur ekki að ætla sér bara í ræktina þegar maður nennir. Þetta á að vera jafn mikilvægt og að sofa og borða,“ segir Lóló og að oft gott að setja sér markmið og mæta að minnsta kosti þrisvar til fjórum sinnum í viku í ræktina.

„Þú þarft að sofa, borða og líka að æfa!“

Þú átt bara einn líkama

Hreyfing og hollur matur er okkur nauðsyn og megrunarkúrar virka alls ekki, að sögn Lólóar.

„Ég er ekki næringarfræðingur en þetta er ekki flókið; fólk á að hugsa um það sem það setur ofan í sig. Ekki borða rusl heldur hreina fæðu og drekka vatn,“ segir hún.

„Þróunin er í öfuga átt, því miður, og það er sorglegt að horfa upp á þetta. Fólk er mikið að borða rusl,“ segir Lóló og segir þjóðina, sem sífellt þyngist, standa frammi fyrir vanda.

„Meðvirknin er svo mikil í þjóðfélaginu og fólk er að taka undir að það sé í lagi að við séum að þyngjast, en það er hættulegt,“ segir Lóló og nefnir að orkudrykkjaneysla ungmenna sé hræðileg.

„Markaðurinn er alltaf að hjálpa fólki svo það þurfi ekki að eyða tíma í eldhúsinu. Fólk kaupir tilbúna rétti beint í örbylgjuna og hefur ekkert fyrir þessu. Í þessu er lítil næring.“

Hvaða ráð viltu gefa fólki nú í upphafi árs sem vill bæta heilsuna?

„Sem betur fer hefur þetta breyst og þeim fer fækkandi sem fara í átak í janúar. Heldur fer þeim fjölgandi sem stunda hreyfingu og hugsa um sig allt árið um kring. Ef maður hugsar vel um sig allt árið getur maður leyft sér að gera vel við sig um hátíðarnar. Aðalatriðið er að velja holla og hreina fæðu allt árið og æfa vel. Sofðu vel og hugsaðu vel um þig. Þetta er samspil og það þarf að halda þessu öllu í jafnvægi. Hvað ætlar þú að gera við líkama þinn? Þú átt bara þennan eina!“

Höf.: Ásdís Ásgeirsdóttir