Varnarmál Jonas Gahr Støre forsætisráðherra (t.h.) og Emelie Enger Mehl dómsmálaráðherra kynna hér hvítbók norskra stjórnvalda um viðbúnað.
Varnarmál Jonas Gahr Støre forsætisráðherra (t.h.) og Emelie Enger Mehl dómsmálaráðherra kynna hér hvítbók norskra stjórnvalda um viðbúnað. — AFP/Rodrigo Freitas
Stjórnvöld í Noregi greindu frá því í gær að þau vildu setja aftur í byggingarreglugerðir skyldu um að reisa loftvarnabyrgi í nýbyggingum, en kvöð um slíkt var tekin út árið 1998. Er þetta ein af um hundrað tillögum sem norsk stjórnvöld hafa sett…

Stjórnvöld í Noregi greindu frá því í gær að þau vildu setja aftur í byggingarreglugerðir skyldu um að reisa loftvarnabyrgi í nýbyggingum, en kvöð um slíkt var tekin út árið 1998. Er þetta ein af um hundrað tillögum sem norsk stjórnvöld hafa sett fram til þess að búa landið betur undir hugsanleg stríðsátök og auka þrautseigju landsins komi til stríðs.

Dómsmálaráðherra Noregs, Emilie Enger Mehl, sagði í gær að Norðmenn þyrftu að stíga ýmis skref til þess að bregðast við krísum og styrjöldum, en hún og Jonas Gahr Støre kynntu hvítbók ríkisstjórnarinnar um undirbúning fyrir neyðarástand.

Segir meðal annars í hvítbókinni að Úkraínustríðið hafi varpað ljósi á þá þörf að allar stærri byggingar búi yfir loftvarnabyrgjum. Þá er vakin sérstök athygli á því að í Noregi séu nú til næg byrgi til þess að taka á móti um 45% af íbúum landsins, en í Finnlandi er sama hlutfall um 90%, í Danmörku um 80% og í Svíþjóð um 70%.

Í hvítbókinni er einnig lagt til að fjölgað verði í varaliði norska hersins úr 8.000 upp í 12.000 manns, og að sjálfbærni í matvælaframleiðslu verði aukin upp í 50% fyrir árið 2030. Tillögur stjórnvalda fela einnig í sér aukna samþættingu í netvörnum á milli hins opinbera og í einkageiranum og að sett verði fram ný áætlun um að berjast gegn falsfréttum.

Þá verða einnig reglur um landakaup hertar, en norskir fjölmiðlar hafa vakið athygli á því undanfarin misseri að útlendingar, og Rússar þar á meðal, hafi náð á síðustu árum að kaupa land sem er í nágrenni við viðkvæm svæði á borð við herstöðvar norska hersins.

Hvítbókin tekur einnig á öðrum öryggisáhættum sem falla ekki undir stríðsátök, á borð við hættuna á skemmdarverkum, fjölþáttahernaði og netárásum, sem og hættuna á heimsfaraldri eða náttúruhamförum.

Støre sagði á blaðamannafundinum að meira spennuástand ríkti nú í alþjóðamálum, en að ekki væri nein yfirvofandi hernaðarógn gegn norsku landsvæði.

Minnihlutastjórn Verkamannaflokksins og Miðflokksins mun nú leggja hvítbókina fyrir norska stórþingið og gætu tillögurnar því tekið nokkrum breytingum í meðförum þingsins. sgs@mbl.is