Höskuldur Daði Magnússon
hdm@mbl.is
„Ég á gífurlega sterkar minningar frá þessu svæði. Við vorum bara í sjokki hérna við hjónin þegar þessar fréttir tóku að berast og settum okkur í samband við fólk sem við þekkjum sem býr enn á svæðinu,“ segir Sigurjón Sighvatsson kvikmyndaframleiðandi.
Miklir gróðureldar herja nú á Los Angeles í Kaliforníu. Yfir 200 þúsund manns hafa þurft að yfirgefa heimili sín og á annan tug hefur látist. Ekki virðist sjá fyrir endann á eyðileggingunni. Sigurjón var búsettur í Los Angeles í rúma fjóra áratugi ásamt fjölskyldu sinni og hefur miklar tengingar við svæðið sem nú brennur. Fyrsta húsið sem fjölskyldan bjó í er brunnið til kaldra kola. Það stóð við El Medio Avenue í Pacific Palisades-hverfinu.
Bjuggu í 25 ár á svæðinu
„Þetta er eftir að ég kem úr skóla og er búinn að gera það nokkuð gott með Propaganda Films. Þetta var sögufrægt hús. Það var upphaflega byggt sem sumarhús fyrir Roy Rogers fyrir 100 árum, 250 fermetra hús í spænskum stíl. Húsið stóð rétt fyrir ofan þennan fræga skóla, Pali High, sem brann eiginlega strax. Við gerðum húsið mikið upp og vorum þarna í rúm 14 ár, til ársins 2000. Þá fluttum við til Brentwood sem er næsta bæjarfélag við. Þar er sem betur fer ekki mikið byrjað að brenna en fólk má þó ekki fara heim til sín. Í Brentwood vorum við í önnur tíu ár. Þetta eru því alls 25 ár á þessu svæði, meira en þriðjungur af minni ævi. Þótt við séum flutt burt erum við enn þá Palisades-fólk.“
Þorpstilfinning og samstaða
Pacific Palisades-hverfið hefur verið vinsælt meðal fólks í skemmtanabransanum. Sigurjón lýsir því enda sem eins konar vin í eyðimörkinni í stórborginni kunnu. „Það sem er stórkostlegt við Los Angeles er að hún er samsett af mörgum bæjum. Vegalengdir eru miklar og því heldur fólk sig mikið til á sínu svæði en þegar fólk er komið heim er auðvelt að slaka á og enginn ónáðar neinn,“ segir hann og tekur sem dæmi að þegar hann og fjölskylda hans bjuggu í Pacific Palisades hafi það tekið hann um hálftíma að keyra á skrifstofuna sína uppi í Hollywood. Það taki einn og hálfan tíma nú á dögum. Af þessum sökum kjósi margir rólegt fjölskyldulíf í hverfi sem þessu og þar hafi myndast mikil þorpstilfinning.
„Þarna var mikil samstaða. Hvort sem það var í ísbúðinni eða á veitingastaðnum Tivoli. Nú eða á deli-inu Moritz deli sem hafði verið rekið í 80 ár og Motz gamli stjórnaði eða hjá Lulu í fatahreinsuninni. Það var bara eins og að skjótast í fatahreinsunina Björg. Svo fór maður á bensínstöðina og bílaþvottastöðina á laugardögum og menn spjölluðu saman. Þá reyndi maður kannski að gera einhvern kvikmyndadíl,“ segir hann og hlær við.
Gamlir vinir missa allt
Sigurjón segir að þegar fjölskyldan flutti þangað hafi Pacific Palisades ekki verið orðið eins vinsælt meðal þekkts fólks og síðar varð raunin. Margir hafi flutt þangað eftir óeirðirnar í Watts árið 1994. Þá vildi fólk flytja sig lengra frá miðborginni og fá meira öryggi. „Öryggið er mikið enda eru bara tvær götur inn og út úr hverfunum. Við læstum aldrei húsinu okkar.“
Meðal gamalla vina sem enn eru búsettir á svæðinu er maður sem bjó í næsta húsi við Sigurjón og hans fólk. Sá er umboðsmaður óskarsverðlaunaleikstjórans Guillermos del Toros og staðfesti hann við Sigurjón að gamla húsið hans væri farið. „Svo bjó þarna einn af mínu bestu vinum. Hann átti hús ofarlega í hæðinni sem hann keypti 1983 og hafði því búið þarna í yfir 40 ár. Hann átti eitt stærsta rokkminjasafn sem ég hef séð en fékk ekki mikinn tíma áður en hann þurfti að yfirgefa hús sitt. Hann náði að kippa með nokkrum gíturum og bítlabókum. Það er allt farið – húsið brann á nokkrum tímum.“
Fræg partí haldin í húsinu
Sigurjón segir að þótt ekki hafi verið eins algengt að Íslendingar ferðuðust til Los Angeles á þessum árum og nú hafi samt sem áður hundruð samlanda hans komið í heimsókn til fjölskyldunnar. Þá heimsótti sjónvarpsmaðurinn Jón Ársæll Þórðarson hann þangað og gekk með honum um hverfið í þættinum Sjálfstætt fólk.
„Þarna héldum við óskarspartíið fyrir Friðrik Þór Friðriksson þegar Börn náttúrunnar var tilnefnd árið 1991. Svo man ég eftir risapartíi þegar strákarnir í Mezzoforte komu. Þeir voru lengi að, löbbuðu út úr húsinu þegar nágrannarnir voru að keyra af stað í vinnuna. En þetta voru auðvitað ekkert bara partí. Það kom fullt af Íslendingum í ýmsum erindagjörðum seinna þegar ég varð ræðismaður. Sumir fengu meira að segja að búa hjá okkur um hríð.“
Svæðið er bara ein rúst
Íbúar í Los Angeles hafa áður þurft að kljást við gróðurelda og rifjar Sigurjón upp að árið 1996 hafi fjölskyldan þurft að flýja hús sitt. Þá rétt náðu þau að kippa fjölskyldumyndum og vegabréfum með sér upp í bíl áður en þau keyrðu af stað. Sem betur fer þurftu þau ekki að vera lengi í burtu. Hann segir að eldarnir nú séu miklu verri en það sem áður hefur sést.
„Eldarnir fara nú á 100 kílómetra hraða á klukkustund. Ég get ekki ímyndað mér hvert framhaldið verður. Svæðið er bara ein rúst. Það mun taka mikinn tíma að byggja það upp að nýju og á meðan fólk á ekki heimili getur það ekki mikið einbeitt sér að vinnu sinni. Þetta mun því auðvitað hægja á öllu í bransanum.“