[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Öfugt við það sem margir kynnu að halda, þá þrífst útgáfa klassískrar tónlistar vel og gildir þá einu hvort rætt er um plötur, geisladiska eða útgáfur á streymisveitum. Ég fylgist vel með útgáfubransanum og hef valið tíu plötur sem komu út á árinu…

Af tónlist

Magnús Lyngdal

Magnússon

Öfugt við það sem margir kynnu að halda, þá þrífst útgáfa klassískrar tónlistar vel og gildir þá einu hvort rætt er um plötur, geisladiska eða útgáfur á streymisveitum. Ég fylgist vel með útgáfubransanum og hef valið tíu plötur sem komu út á árinu 2024 sem mig langar að benda lesendum Morgunblaðsins sérstaklega á. Auðvitað má deila um valið en þetta eru allt plötur sem vöktu mikla hrifningu hjá mér.

Ég hef einnig útbúið spilunarlista á Spotify með dæmum af plötunum tíu. Listann má annaðhvort nálgast með því að skanna kóðann sem fylgir greininni (með myndavélinni í Spotify-appinu) eða þá slá inn leitarorðið „2024 – Topp 10“ á Spotify. Plötunum má einnig fletta upp á öllum helstu streymisveitum (Tidal, Apple Music, Amazon Music o.s.frv.).

Andstætt við kanadíska píanóleikarann Glenn Gould sem helgaði seinni hluta (alltof stuttrar) ævi sinnar hljóðverinu tekur rússneski píanistinn Grigory Sokolov núorðið eingöngu upp á tónleikum. Nýrra platna með leik hans er alltaf beðið með eftirvæntingu og hljóðritanir hans á verkum eftir Henry Purcell og Wolfgang Amadeus Mozart ollu aðdáendum hans síður en svo vonbrigðum. Þá má einnig heyra verk eftir fleiri tónskáld á plötunni, þar á meðal frábæra hljóðritun Sokolovs á e-moll prélúdíu Johanns Sebastians Bachs (úts. Silioti). Það er forleggjarinn Deutsche Grammophon sem gefur út.

Verk á spilunarlista: Bach: Prélúdía í e-moll

Bretinn Nicholas Collon varð árið 2021 fyrstur manna til þess að gegna stöðu aðalhljómsveitarstjóra Finnsku útvarpshljómsveitarinnar sem er ekki Finni. Forleggjarinn Ondine gaf út á árinu 2024 hljóðritun sem Collon stjórnar með hljómsveitinni í nokkrum verkum pólska tónskáldsins Witolds Lutosławski, það er að segja Konserti fyrir hljómsveit, Partítu fyrir fiðlu og hljómsveit (einl. Christian Tetzlaff) og Novelette. Þetta eru geysilega fínar upptökur, ekki hvað síst hljómsveitarkonsertinn.

Verk á spilunarlista: Lutosławskis: Konsert fyrir hljómsveit, 3. þáttur

Ég er að jafnaði ekki aðdáandi kanadíska hljómsveitarstjórans Yannicks Nézet-Séguin en heildarhljóðritun hans á fjórum sinfóníum eftir Johannes Brahms er ljómandi góð. Túlkunin tekur mjög mið af hugmyndum upprunaskólans (e. Historically Informed Performances) og leikur Kammersveitar Evrópu er framúrskarandi. Það er forleggjarinn Deutsche Grammophon sem gefur út.

Verk á spilunarlista: Brahms: Sinfónía nr. 1, 1. þáttur

Annað heildarsett af sinfóníum Brahms kom út á árinu 2024. Að þessu sinni er það indverski hljómsveitarstjórinn Zubin Mehta sem stjórnar Fílharmóníusveitinni í München (hljómsveitin gefur safnið sjálf út). Túlkun Mehtas stendur á gömlum merg, er sem sagt „rómantísk“, öfugt við túlkun Nézet-Séguins. Báðar eiga fullan rétt á sér. Almennt er ég hallur undir „rómantíska“ skólann í Brahms og hljóðritun Mehtas er mjög fín. Þetta er í þriðja sinn sem hann hljóðritar allar sinfóníur Brahms (áður hafði hann gert það með Fílharmóníusveitinni í New York og Fílharmóníusveitinni í Ísrael) en ég er ekki frá því að upptökurnar frá München séu þær bestu sem hann hefur gert.

Verk á spilunarlista: Brahms: Sinfónía nr. 4, 4. þáttur

Fulltrúa „nýþýska“ skólans og höfuðandstæðingi Brahms í tónsköpun í þýskumælandi löndum um og eftir miðja 19. öld, Richard Wagner, voru gerð nokkuð góð skil á árinu 2024. Þannig komu út tvær heildarhljóðritanir af síðustu óperu tónskáldsins, Parsifal. Báðar voru gerðar á sýningu, önnur í Vínaróperunni sem Frakkinn Philippe Jordan stjórnar og hin á Wagner-hátíðinni í Bayreuth undir stjórn Spánverjans Pablos Heras-Casado. Sony gefur Jordan-upptökuna út en Deutsche Grammophon hljóðritunina sem Heras-Casado stjórnar. Bassinn Georg Zeppenfeld (Gurnemanz) og mezzósópransöngkonan Elena Garanča (Kundry) syngja á báðum hljóðritunum en með titilhlutverkið fara annars vegar Jonas Kaufmann (Jordan) og hins vegar Andreas Schager (Heras-Casado). Báðar eru þetta frábærlega sungnar sýningar.

Verk á spilunarlista: Wagner: Parsifal, 2. þáttur („O Gnade, höchstes Heil“ (Jordan) og „Midtag: Die Stund’ ist da“ (Heras-Casado)

Finnski hljómsveitarstjórinn Esa-Pekka Salonen tilkynnti árið 2024, mjög óvænt, að hann hygðist ekki endurnýja samning sinn sem aðalhljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitarinnar í San Francisco. Sama ár kom út tónleikaupptaka sem hann stjórnaði með hljómsveitinni en á efnisskránni er heildarhljóðritun á Eldfuglinum eftir Igor Stravinskíj. Eins og flestallt sem Salonen gerir er um að ræða kalda og mjög „klíníska“ túlkun en sennilega á það hvergi betur við en einmitt í þessum balletti Stravinskíjs. Það er hljómsveitin sjálf sem gefur út.

Verk á spilunarlista: Stravinskíj: Eldfuglinn, „Infernal Dance of all Kaschei‘s Subjects‘“

Það eru því miður ekki til margar hljóðritanir með rússnesk-austurríska píanóleikaranum Elisabeth Leonskaju en á árinu 2024 komu út upptökur hennar á píanókonsertum Roberts Schumann og Edvards Grieg. Það er Sinfóníuhljómsveitin í Luzern sem leikur með undir stjórn Michaels Sanderling. Leonskaja er af rússneska skólanum í píanóleik og þetta er alvöruþrungin túlkun en að sama skapi fyrsta flokks. Mikilvægar upptökur sem forleggjarinn Warner gefur út.

Verk á spilunarlista: Grieg: Píanókonsert, 1. þáttur

Kanadíski píanóleikarinn Bruce Liu var 15 ára gamall þegar hann kom fyrst fram með Cleveland-hljómsveitinni og árið 2021 bar hann sigur úr býtum í Chopin-keppninni, þá 24 ára að aldri. Hann hefur síðan hljóðritað fyrir Deutsche Grammophon og árið 2024 kom út túlkun hans á Árstíðunum eftir Pjotr Tsjajkovskíj (alls 12 píanóverk sem heita hvert og eitt eftir mánuðum almanaksársins). Þetta er framúrskarandi upptaka, ekki hvað síst „Júní“, sem er sennilega mest leikni hluti verksins.

Verk á spilunarlista: Tsjajkovskíj: Árstíðirnar, „Júní“

Ég varð strax hrifinn af upptökum á síðustu þremur sinfóníum Antoníns Dvořák þar sem Rússinn Semyon Bychkov stjórnar Fílharmóníusveitinni í Tékklandi og varð því afar undrandi á mjög svo misjöfnum dómum sem hljóðritanirnar fengu. Spilamennskan er hins vegar fyrsta flokks sem og hljóðið. Kannski hefur Bychkov aldrei verið í hópi hljómsveitarstjóra sem þykja hvað tilfinningaríkastir í túlkunum sínum en hér tekst honum einkar vel upp. Það er forleggjarinn Pentatone sem gefur út.

Verk á spilunarlista: Dvořák: Sinfónía nr. 8, 4. þáttur

Höf.: Magnús Lyngdal