Guðjón Sigurður Guðbjartsson fæddist í Efri-Húsum í Önundarfirði 26. október 1937. Hann lést á Sjúkrahúsinu á Akureyri 23. desember 2024.

Foreldrar Guðjóns voru Guðbjartur Sigurður Guðjónsson, f. 2. febrúar 1904, d. 10. febrúar 1992 og Petrína Friðrika Ásgeirsdóttir, f. 7. júní 1904, d. 16. ágúst 1992. Guðjón var sjöundi í röðinni af 12 systkinum. Hann fluttist til Akureyrar og kvæntist þar, 1. nóvember 1959, Fanneyju Þórðardóttur, f. 12. apríl 1941. Foreldrar Fanneyjar voru Þórður Daníelsson, f. 9. desember 1896, d. 11. maí 1953 og Laufey Sigríður Kristjánsdóttir, f. 2. nóvember 1899, d. 21. júní 1993.

Börn Guðjóns og Fanneyjar eru 1) Guðbjartur, f. 10 apríl 1960. Unnusta Anna Guðlaug Jóhannsdóttir, f. 10. nóvember 1962. Stjúpsynir Guðbjarts úr fyrri sambúð með Rósu Maríu Sigurðardóttur eru a) Sigurður Helgi Árnason, f. 27. september 1982. b) Jóhann Alexander Árnason, f. 31. mars 1988. Hann á þrjú börn. c) Halldór Árnason, f. 12. júní 1990. Maki Jóhanna Valgerður Guðmundsdóttir, f. 7. ágúst 1995. Hann á eitt barn. 2) Laufey Sigríður, f. 18. mars 1961. Maki Rúnar Gústafsson, f. 28. janúar 1958. Börn þeirra eru a) Hildur, f. 23. desember 1980, d. 30. desember 1980. b) Hákon, f. 6. janúar 1982. Maki Heiða Björk Jónsdóttir, f. 30. júlí 1982. Þau eiga þrjú börn. c) Hafþór, f. 28. júní 1988. Maki Eva Sóley Ásgeirsdóttir, f. 3. september 1987. Þau eiga tvö börn. 3) Svavar Þór, f. 26. október 1962. Maki Sólveig Sól Einarsdóttir, f. 15. febrúar 1965. Börn Svavars með Valgerði Jóhannsdóttur eru a) Inga Björk, f. 25. júní 1981. Maki Einar Kristinn Brynjólfsson, f. 12. janúar 1981. Þau eiga tvö börn. b) Baldvin Þór, f. 19. apríl 1988. Maki Sunna Líf Hafþórsdóttir, f. 4. janúar 1990. Þau eiga þrjú börn. 4) Haukur Snær, f. 6. janúar 1967. Maki Sheila McGrath, f. 19. apríl 1963. Barn þeirra er a) Marissa McGrath, f. 2. júní 1984. Maki Victor Manuel Valadez, f. 31. janúar 1979. 5) Pétur Már, f. 15. febrúar 1971. Maki Hulda Hrönn Ingadóttir, f. 15. desember 1969. Börn þeirra eru a) Birkir Örn, f. 22. apríl 1989. Maki Heiða Berglind Magnúsdóttir, f. 24. maí 1989. Þau eiga þrjú börn. b) Fanney Lind, f. 12. apríl 1994. Maki Davíð Almar Víðisson, f. 16. júlí 1999. Þau eiga tvær dætur.

Afabörn Guðjóns eru 11 en langafabörn eru 18.

Útför fór fram í kyrrþey.

Pabbi minn.

Það var nú umsamið að ekki skyldu fara af stað neinar lofræður þegar væri verið að minnast þín. Þegar ég sat við rúmið þitt á sjúkrahúsinu í byrjun desember, þá var vitað hvert stefndi. Við ræddum um lífið hér á jörð og lífið fyrir handan. Hvernig skyldi það vera? Við ræddum líka að þú ætlaðir ekkert að vera að ganga aftur og skipta þér af hlutunum. Mig grunar að þú sért nú þegar búinn að hætta við þau fyrirheit.

Ég kynntist þér öðruvísi þegar ég vann undir þinni stjórn í Vatnsveitu Akureyrar, þá var ég 16-20 ára. Þú varst reyndar alveg frábær með unga fólkið og seinna áttaði ég mig á því að leið mín hefur verið svipuð og þín, að vinna mikið með ungu fólki. Ég hef ósjálfrátt tileinkað mér margt af þínum aðferðum; að vera ákveðinn og fylginn mér en bera virðingu fyrir unga fólkinu. En þú vildir oftast vera í kringum ungt fólk en ekki einhver gamalmenni, jafnvel þegar þú varst á níræðisaldri.

Ég er svo þakklátur fyrir margt. Til dæmis hversu dýrmætar stundir við áttum síðustu árin þín. Hvað það var gaman að fara með þig til Ítalíu þegar þú varst nú rúmlega áttræður. Æðruleysi þitt þegar ég stimplaði eitt auka-R í gps-tækið og við vorum rammvillt, sennilega 500 kílómetra af leið. Frábærar stundir sem við áttum þar.

Það var alltaf gaman að hringja í þig og spjalla. Ég mun sakna þess. Síðustu 3-5 ár var nú oftast verið að athuga stöðuna, hvernig heilsan væri eða til að létta þér lundina. Það var fljótt að koma í ljós ef þú varst léttur í skapi, ef ég spurði „hvernig er heilsan?“ þá var oft stutt í grínið: „Hvurn andskotann kemur þér það við!“ Og svo hlógum við.

Núna þegar þú hefur fengið hvíldina þá fagna ég því þótt ég sakni þín. Ég vil meina að þú sért sáttur og mér finnst þú hafa spilað bara nokkuð vel úr spilunum sem þú fékkst á hendi í lífinu. Held að þar hafir þú ekkert svindlað eins og þú gerðir þegar þú spilaðir skottu. Ætli við finnum ekki spil undir mottum og pullum næstu árin í Lindasíðunni. Já það var gaman að spila með þér, sérstaklega þegar þú tapaðir.

Þú stóðst þig vel í uppeldinu, þótt þú hafir stundum farið í taugarnar á mér þegar þú siðaðir mig til. En það þurfti og ég er löngu búinn að átta mig á því.

En þetta verður allt í lagi, ég skal sjá um mömmu og ég sé til þess að Guðjón Breki komist upp með vera jafn dyntóttur og sérlundaður og þú. Svo sé ég um að gefa Fönnzu að borða þegar hún er með drúldu og held áfram að styðja KA með Bippa þínum.

Takk fyrir pabbi minn, ég sakna þín en ég ætla fyrst og fremst að fagna lífinu þínu þessi 87 ár sem þú fékkst. Og nú væri við hæfi að segja „haltu kj…“ en sleppum því.

Ég mun horfa upp til þín undir bláhimni þar sem þú gengur um í sumarsins paradís.

Pétur.