Þórarinn Hjaltason
Þórarinn Hjaltason
Höfuðborgarsvæðið er það borgarsvæði á Norðurlöndunum þar sem umferðartafir eru næstmestar.

Þórarinn Hjaltason

Þann 20. nóvember síðastliðinn var birt í Morgunblaðinu grein mín „Umferðartafir á höfuðborgarsvæðinu“, þar sem ég bar höfuðborgarsvæðið saman við ýmis önnur borgarsvæði á Norðurlöndunum hvað umferðartafir snerti. Stuðst var við mat fyrirtækisins TomTom á umferðartöfum á tæplega 400 borgarsvæðum á árinu 2023.

Nýlega birti TomTom lista yfir mat á umferðartöfum 500 borgarsvæða á árinu 2024, byggt á upplýsingum úr fjölda leiðsögutækja á vegum TomTom. Það vakti athygli mína að svokallaður tafastuðull fyrir höfuðborgarsvæðið hefur hækkað úr 19% fyrir árið 2023 upp í 22% fyrir árið 2024.

Tafastuðull

Tafastuðull borgarsvæðis segir til um hve miklu lengri tíma (%) bílferðir taka samanborið við ferðatíma, þegar engar eru umferðartafirnar, sbr. Traffic Index, Selected Metropolitan Areas | The Geography of Transport Systems.

Ég tel að tafastuðull sé besti mælikvarðinn á umferðartafir, en hann er síbreytilegur yfir daginn. Uppgefinn tafastuðull hjá TomTom er dagsmeðaltal.

Borgarsvæðin raðast þannig að efst er Búkarest-svæðið með tafastuðulinn 46%. Höfuðborgarsvæðið (Reykjavík) er nr. 296 á listanum með tafastuðulinn 22%. Af norrænum borgarsvæðum er aðeins Helsinki-svæðið með hærri tafastuðul (25%).

Eftirfarandi norræn borgarsvæði eru neðar á listanum (tafastuðull innan sviga):

Kaupmannahöfn (21%), Ósló (21%), Árósar (21%), Stokkhólmur (20%), Turku (19%), Stavanger (17%), Uppsalir (17%), Óðinsvé (16%), Álaborg (15%), Tampere (15%), Gautaborg (15%), Þrándheimur (14%), Málmey (13%), Bergen (13%), Helsingborg (12%) og Espoo (12%).

Árlegt tímatap á álagstíma

Skoðum nú niðurstöðurnar miðað við mælikvarðann árlegt tímatap á álagstíma. Ef litið er á „Time lost per year at rush hours“ á TomTom-listanum með stillt á leitarmöguleikann „Metro“ er Búkarest-svæðið aftur efst á listanum með árlegt tímatap upp á 127 klukkustundir. Höfuðborgarsvæðið er nr. 151 á listanum með árlegt tímatap upp á 47 klukkustundir. Af norrænum borgarsvæðum er aðeins Helsinki-svæðið með meira árlegt tímatap (50 klukkustundir).

Eftirfarandi norræn borgarsvæði eru neðar á listanum (árlegt tímatap í klukkustundum innan sviga):

Osló (43), Stokkhólmur (38), Kaupmannahöfn (35), Stavanger (35), Árósar (29), Uppsalir (26), Gautaborg (26), Turku (25), Bergen (23), Þrándheimur (22), Álaborg (22), Óðinsvé (20), Málmey (17), Tampere (17), Espoo (12) og Helsingborg (11).

Tími sem tekur að aka 10 km

Ég tel að þessi mælikvarði á umferðartafir sé lakari en bæði tafastuðull og árlegt tímatap á álagstíma. Ástæðan er einfaldlega sú að meðalökuhraði markast töluvert af útfærslu gatnakerfisins á viðkomandi borgarsvæði, þar með talið leyfilegum hámarkshraða. Við skulum samt skoða hvort það breyti miklu hvernig höfuðborgarsvæðið kemur út miðað við hin norrænu borgarsvæðin. Á höfuðborgarsvæðinu tekur að meðaltali 15 mínútur og 36 sekúndur að aka 10 km og miðað við þennan mælikvarða er svæðið nr. 175 á listanum. Sem fyrr er það aðeins Helsinki-svæðið sem lendir ofar á listanum (nr. 79), en þar tekur að meðaltali 19 mínútur og 35 sekúndur að aka 10 kílómetra.

Óeðlilega miklar umferðartafir á höfuðborgarsvæðinu

Óháð því hvaða mælikvarði á umferðartafir er notaður er höfuðborgarsvæðið það borgarsvæði á Norðurlöndunum þar sem umferðartafir eru næstmestar samkvæmt TomTom. Aðeins á Helsinki-svæðinu eru umferðartafir taldar meiri. Þetta er athyglisvert einkum af tveim ástæðum. Í fyrsta lagi eru umferðartafir að jafnaði meiri eftir því sem borgarsvæði eru fjölmennari. Í öðru lagi eru umferðartafir í bílaborgum að jafnaði mun minni en í öðrum borgum (heimild: Traffic Index, Selected Metropolitan Areas | The Geography of Transport Systems). Það skýtur því skökku við að í litlu bílaborginni okkar, höfuðborgarsvæðinu, skuli umferðartafir vera álíka miklar eða meiri en í stærstu borgum hinna Norðurlandaríkjanna.

Höfundur er samgönguverkfræðingur.

Höf.: Þórarinn Hjaltason