Lee Seong-kweun, þingmaður á suðurkóreska þinginu, sagði í gær að upplýsingar suðurkóresku leyniþjónustunnar, NIS, bentu til þess að Norður-Kóreumenn hefðu misst um 3.000 manns í heildina í bardögum sínum við Úkraínumenn. Þar af hefðu um 300 verið felldir og um 2.700 særðir.
Vestrænar leyniþjónustur telja að Norður-Kórea hafi í heild sent á bilinu 10-12 þúsund hermenn til Rússlands, en þeim hefur aðallega verið beitt til árása á vígstöður Úkraínumanna í Kúrsk-héraði Rússlands.
Lee, sem situr í leyniþjónustunefnd suðurkóreska þingsins, sagði að norðurkóresku hermennirnir væru undir fyrirmælum um að svipta sig lífi frekar en að láta taka sig til fanga og hefðu slík fyrirmæli fundist á líkum hermannanna.
Lee greindi m.a. frá því að norðurkóreskur hermaður sem var umkringdur hefði hrópað nafn Kims Jong-uns leiðtoga Norður-Kóreu og reynt að fella sjálfan sig og aðra með handsprengju. Var sá skotinn áður en hann gat valdið skaða.
Volodimír Selenskí Úkraínuforseti greindi frá því um helgina að Úkraínumenn hefðu náð að handsama tvo norðurkóreska hermenn. Sagði Selenskí á samfélagsmiðlum sínum á sunnudaginn að hann væri reiðubúinn að afhenda þá aftur til Norður-Kóreu í skiptum fyrir stríðsfanga í haldi Rússa. Þá sagði Selenskí að mögulega væri hægt að finna aðrar lausnir fyrir þá Norður-Kóreumenn sem vildu ekki snúa aftur heim.
Selenskí birti myndband af yfirheyrslum yfir norðurkóresku stríðsföngunum. Sagði annar þeirra að hann hefði ekki vitað að hann væri á leiðinni til Úkraínu og að sér hefði verið sagt að um heræfingar væri að ræða.