Breiðafjarðarferjan Vegagerðin keypti ferjuna Baldur frá Noregi árið 2023.
Breiðafjarðarferjan Vegagerðin keypti ferjuna Baldur frá Noregi árið 2023. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Niðurstaða útboðs vegna rekstrar Breiðafjarðarferjunnar Baldurs hefur verið kærð og ríkir því óvissa um það hvaða félag muni annast reksturinn. Hinn 16. september 2024 auglýsti Vegagerðin útboðið „Rekstur Breiðafjarðarferju 2025-2028“

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Niðurstaða útboðs vegna rekstrar Breiðafjarðarferjunnar Baldurs hefur verið kærð og ríkir því óvissa um það hvaða félag muni annast reksturinn.

Hinn 16. september 2024 auglýsti Vegagerðin útboðið „Rekstur Breiðafjarðarferju 2025-2028“. Þrjú tilboð bárust og voru þau opnuð 3. desember 2024.

Tilboð Ferjuleiða ehf. var lægst og tilkynnti Vegagerðin þann 20. desember 2024 að tilboð félagsins hefði verið valið.

Samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar hefur ekki verið unnt að ganga til samninga um tilboðið þar sem kæra barst innan lögboðins biðtíma um val á tilboði. Gerð samnings sé því ekki heimil þar til kærunefnd útboðsmála hefur leyst úr kærunni skv. 1 mgr. 107. gr. laga um opinber innkaup.

Sem fyrr segir átti fyrirtækið Ferjuleiðir ehf. Reykjavík lægsta tilboðið í rekstur Breiðafjarðarferjunnar Baldurs til næstu þriggja ára. Rekstur ferjunnar er ríkisstyrktur eins og annar ferjurekstur í landinu.

Ferjuleiðir ehf. í Reykjavík buðust til að taka að sér reksturinn fyrir krónur 1.750.615.265. Var það 91,8% af áætluðum verktakakostnaði sem var krónur 1.906.832.181. Sjótækni ehf. á Tálknafirði bauð krónur 1.795.748.700 og Sæferðir ehf. í Stykkishólmi krónur 2.050.132.500.

Sjótækni kærði

Sjótækni kærði niðurstöðu útboðsins og lýtur kæran að því að lægstbjóðandi hafi ekki uppfyllt skilyrði útboðslýsingar.

Ferjuleiðir ehf. voru stofnaðar 2022 í tengslum við tilboðsgerð í rekstur Hríseyjarferjunnar Sævars. Forsvarsmaður félagsins er Eysteinn Þórir Yngvason.

Í októberlok 2023 skrifaði Vegagerðin undir samning við Sæferðir um rekstur Baldurs. Samningurinn við Sæferðir gildir til 30. apríl 2025.

Nýr Baldur var keyptur í Noregi árið 2023 og hóf siglingar um Breiðafjörð seint á því ári. Skipið var smíðað í Noregi 1991.

Höf.: Sigtryggur Sigtryggsson