Jökulhlaup Síðasta jökulhlaup úr Grímsvötnum var fyrir ári.
Jökulhlaup Síðasta jökulhlaup úr Grímsvötnum var fyrir ári. — Morgunblaðið/RAX
Jökulhlaup hófst úr Grímsvötnum í gær. Jökulhlaup úr Grímsvötnum koma fram undan Skeiðarárjökli og renna í Gígjukvísl. Gera má ráð fyrir að rennsli úr jöklinum nái hámarki í lok vikunnar og 1-2 sólarhringum seinna í Gíglukvísl við þjóðveg 1

Birta Hannesdóttir

Egill Aaron Ægisson

Jökulhlaup hófst úr Grímsvötnum í gær. Jökulhlaup úr Grímsvötnum koma fram undan Skeiðarárjökli og renna í Gígjukvísl. Gera má ráð fyrir að rennsli úr jöklinum nái hámarki í lok vikunnar og 1-2 sólarhringum seinna í Gíglukvísl við þjóðveg 1.

Náttúruvársérfræðingar Veðurstofu Íslands gera ekki ráð fyrir að jökulhlaupið verði stórt en eru engu að síður á varðbergi þar sem eldstöð Grímsvatna er tilbúin til að gjósa. Miðað við það vatnsmagn sem safnast hefur í Grímsvötnum er líklegt að hámarksrennsli verði ekki umfram 1.000 m3/s.

Síðast varð jökulhlaup úr Grímsvötnum fyrir ári og hefur hlaupið þaðan á u.þ.b. árs fresti síðan í nóvember árið 2021. Þar áður var heldur lengra á milli hlaupa og seinasta hlaup fyrir 2021 var hlaupið árið 2018.

„Það er ekki innistæða fyrir miklu hlaupi. Hlaupið fyrir ári var mjög viðráðanlegt og þetta verður sennilega enn þá minna,“ segir Jóhanna Malen Skúladóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við Morgunblaðið.

Samkvæmt mælingum er vatnsmagn í Grímsvötnum talið vera um 0,25 km3, sem er svipað og var í vötnunum fyrir síðasta hlaup. Þetta vatnsmagn er tæpur þriðjungur þess sem var í vötnunum fyrir hlaup í lok árs 2021. Vatnasérfræðingar frá Veðurstofu Íslands munu fara á staðinn í dag þar sem rafleiðni verður mæld í Gígjukvísl auk þess sem mælar og aðstæður verða athugaðar.

Jóhanna segir að brennisteinsmengun geti fylgt jökulhlaupum eins og þessu og hún verður mæld í dag ef veður leyfir.

„Það getur orðið vart við gasmengun við árfarveginn og aðallega við sporðinn á Skeiðarárjökli. Það verður eflaust mælt á morgun ef veður leyfir,“ segir Jóhanna. Hlaupið ætti ekki að hafa áhrif á vegi og brýr.