Hafsteinn Jónsson fæddist 14. október 1956 á Sólvangi í Hafnarfirði. Hann varð bráðkvaddur 28. desember 2024.

Foreldrar hans voru Jón Ólafur Ormsson, vélstjóri og bifreiðarstjóri, og Álfheiður Ingimundardóttir.

Eiginkona hans er Guðrún Böðvarsdóttir, f. 10. október 1955. Börn þeirra eru: 1) Ingólfur, f. 1980. Maki Sólveig Dögg Alfreðsdóttir og þau eiga tvö börn. 2) Álfheiður, f. 1987. Maki Sverrir Björgvinsson og þau eiga tvö börn. 3) Guðrún Una, f. 1988. Maki Lilja Svavarsdóttir og þær eiga eitt barn.

Hafsteinn vann nánast allan sinn starfsferil hjá Kynnisferðum, að frátöldum fjórum árum sem þau Guðrún bjuggu í Bolungarvík.

Útför verður frá Lindakirkju í dag, 14. janúar 2025, klukkan 11.

Enn og aftur sannast orð Hallgríms Péturssonar „ein nótt er ei til enda trygg“. Það sama má segja um dagana. Þann 29. desember barst okkur sú harmafregn hingað vestur að Mýrum í Dýrafirði, að vinur okkar og venslamaður Hafsteinn Jónsson hefði orðið bráðkvaddur 28. desember þar sem hann var einn að störfum í hesthúsi. Þessi fregn kom eins og bylur á húsið, það var svo óvænt. Við vissum ekki annað en Hafsteinn væri við góða heilsu aðeins 68 ára að aldri. Komið var nálægt starfslokum hjá honum og eiginkonu hans og hugðu þau gott til þess að njóta efri áranna með börnum og barnabörnum.

Kynni okkar Hafsteins hófust er hann hóf sambúð með systurdóttur minni Guðrúnu Böðvarsdóttur, hjúkrunarfræðingi og ljósmóður. Þau bjuggu um tíma í Bolungavík en lengst af í Reykjavík. Var jafnan föst regla er við Mýrafólk vorum á ferð fyrir sunnan að fara í matarboð til þeirra hjóna.

Fastagestir í þessum veislum voru jafnan Jón faðir Hafsteins sem ættaður var af Ströndum, fróður og minnugur við góða heilsu fram í háa elli, og Álfheiður móðir Guðrúnar.

Flest vor komu þau Hafsteinn og Guðrún vestur að Mýrum, hún til að aðstoða við sauðburðinn enda gott að hafa ljósmóður til hjálpar, og hann var liðtækur við girðingarvinnu, dúntekt og fleira. Síðasta ferð Hafsteins hingað að Mýrum var í september sl. Hann var að vitja um konu sína sem hafði komið nokkru áður í berjatínslu.

Þann 6. september fórum við upp í Hjalla og Vatnakverk til að vitja um brunna tvo sem sjá Mýrabænum fyrir neysluvatni. Hreinsuðum við gróður sem var að safnast fyrir í þeim. Var þetta seinasta verkið sem hann fékkst við hér vestra. Hafsteinn var vandvirkur, verklaginn, athugull, hæglátur og þeirrar gerðar sem gamlir Mýrhreppingar kölluðu valmenni.

Að leiðarlokum þökkum við góða og gefandi viðkynningu. Eiginkonu, börnum og öðrum ættingjum vottum við innilega samúð.

Valdimar H. Gíslason, Edda Arnholtz og Elínbjörg Snorradóttir.

Andlátsfregnin barst eins og þruma úr heiðskíru lofti. Örfáum dögum fyrr hittumst við á kaffifundi gamalla starfsbræðra og félaga. Þar var Hafsteinn glaður og reifur að vanda.

Það er sárgrætilegt að þetta ótímabæra og sviplega fráfall gerðist svo skömmu eftir starfslok á óvenjulega glæsilegum starfsferli þar sem frábærir eðliskostir Hafsteins nutu sín svo vel.

Nú blasti við rúmur tími til að sinna áhugamálum og fjölskyldu. Hafsteinn, góðvinur og starfsfélagi til áratuga, átti sér margs konar hugðarefni til að sinna. Þar ber hæst hestamennsku, ræktun og ferðalög um náttúru og óbyggðir.

Síðasta verk Hafsteins í þessu jarðlífi var að sinna hestum sínum en nú hneggjar yndi hans og stolt, stóðhesturinn Vökull, við stall eftir vini sínum.

Harmur er kveðinn að hans nánustu, Guðrúnu, syni og dætrum.

Við Helga og börn okkar sendum innilegar kveðjur með samúð og söknuði.

Kristján Jónsson.