Sviðsljós
Ómar Friðriksson
omfr@mbl.is
Skráð atvinnuleysi á landinu hefur þokast lítið eitt upp á við á síðustu mánuðum en atvinnuleysið er þó eftir sem áður lágt hér á landi í samanburði við önnur Evrópulönd.
Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar, segir að atvinnuleysi á nýliðnu ári hafi verið afskaplega lítið miðað við atvinnuleysi í löndunum í kringum okkur og í Evrópu almennt. „Við skárum okkur alveg úr að því leyti að það var minnsta atvinnuleysið hér. Fram eftir árinu var meiri eftirspurn eftir vinnuafli en framboð en svo fór þetta aðeins að kólna með haustinu og er held ég enn í þessum kælingarfasa. Við búumst við að meðaltalsatvinnuleysi hækki örlítið yfir árið 2025,“ segir hún. „Ég held að það sé engin ástæða til þess að kvíða komandi ári eins og staðan er núna“.
Samkvæmt nýjum tölum VMST var skráð atvinnuleysi 3,8% í desember sl., sem er örlítið hærra en í sama mánuði fyrir ári. VMST spáir því að atvinnuleysið verði á bilinu 3,9% til 4,1% í janúar en það hefur mælst um 3,7 til 3,8% í janúar á árunum 2022 og ‘23. Hafa ber í huga að árstíðabundið atvinnuleysi eykst yfirleitt í þessum mánuðum en tölurnar eru hins vegar lítið eitt hærri núna en á síðustu árum og segir Unnur að kælingin í atvinnulífinu sé vel merkjanleg um þessar mundir þar eð t.d. bæði ferðaþjónustan og byggingariðnaðurinn eru í lágmarki á þessum árstíma.
Að jafnaði voru 7.875 einstaklingar án atvinnu í desember, 4.571 karl og 3.304 konur, og fjölgaði atvinnulausum að meðaltali um 271 frá nóvember. Ef litið er á atvinnuástandið eftir landshlutum má sjá að skráð atvinnuleysi er sem fyrr mest á Suðurnesjum, en þar jókst það umtalsvert á milli mánaðanna nóvember og desember sl. og hækkaði úr 6,5% í 7,2% í síðasta mánuði. Atvinnuleysið hækkaði alls staðar á landinu í desember frá mánuðinum á undan. Næstmesta atvinnuleysið er á höfuðborgarsvæðinu, eða 3,9%. Á landsbyggðinni í heild jókst atvinnuleysið úr 3,4% í nóvember í 3,7% í desember. Minnst var það á Norðurlandi vestra, eða 1,3%.
Atvinnulausum fjölgaði í flestum atvinnugreinum í desember en mest var fjölgunin í byggingariðnaði.
Að sögn Unnar er ferðaþjónustan ein helsta ástæða aukins atvinnuleysis á Suðurnesjum í janúar. „Ferðaþjónustan er svo stór þáttur í atvinnulífinu í Reykjanesbæ og á Suðurnesjum. Það er í þessum mánuði sem fæstir ferðamenn koma til landsins og við sjáum alltaf strax merki þess þar,“ segir hún.
Stór hópur einstaklinga hefur verið án atvinnu í langan tíma. Um síðustu áramót var á skrá 1.381 atvinnuleitandi sem hefur verið án atvinnu í meira en 12 mánuði. Fjölgaði þeim um 60 frá nóvember. „Í desember 2023 var fjöldi þeirra hins vegar 1.127 og nemur fjölgunin 254 á milli ára. Þeir sem höfðu verið atvinnulausir í 6-12 mánuði voru hins vegar 1.697 í desember síðastliðnum en voru 1.481 í desember 2023,“ segir í mánaðarskýrslu VMST.
Erlendum ríkisborgurum sem skráðir voru án atvinnu í lok síðasta árs voru 4.837 talsins og hafði þeim fjölgað um 294 frá því í nóvember. Var hlutfall erlendra ríkisborgara á atvinnuleysisskrá 58% í lok desember.
Vinnumálastofnun
Spáir 3,8-4,0% atvinnuleysi
á árinu 2025
Samkvæmt spá Vinnumálastofnunar má búast við að meðalatvinnuleysi ársins verði á bilinu 3,8 til 4,0% á árinu 2025. Hins vegar gæti atvinnuleysi einstaka mánuði farið upp í 4,2 til 4,3%, helst þá í janúar og febrúar, að sögn Ástu Ásgeirsdóttur, deildarstjóra greiningardeildar á þróunar- og tæknisviði Vinnumálastofnunar.
Í síðasta mánuði ársins komu alls inn 78 ný störf sem auglýst voru í vinnumiðlun hjá Vinnumálastofnun. 204 einstaklingar voru á ráðningarstyrk innan fyrirtækja eða stofnana í síðasta mánuði og 11 einstaklingar voru á nýsköpunarstyrk.
VMST gaf í desember út 178 atvinnuleyfi til erlendra ríkisborgara til að starfa hér á landi, þar af eru 160 á höfuðborgarsvæðinu.