Kristín Heiða Kristinsdóttir
khk@mbl.is
„Þetta er einleikur um hana Ífí sem er undurmálsmanneskja, ung kona sem býr á Ásbrú á Suðurnesjum. Þetta er breskt verk, Iphigenia i Splott, eftir Gary Owen og gerist þá í hverfi í Cardiff í Wales, en við erum búnar að staðfæra þetta verðlaunaverk frá 2015 sem hefur farið sigurför um allan heim,“ segir Anna María Tómasdóttir, leikstjóri einleiksins Ífigenía í Ásbrú, sem hún og leikkonan Þórey Birgisdóttir þýddu saman, en Þórey fer með hlutverk Ífigeníu.
„Þórey rakst fyrst á þetta verk í coivd-tíð og kolféll fyrir því og hún sá það seinna á sviði í London. Hjá höfundinum Gary Owen er fyrirmyndin forngríski harmleikurinn Ífigenía í Ális sem Evripídes skrifaði árið 410 fyrir Krist. Þar segir frá Agamemnon leiðtoga í Trójustríðinu og ákvörðun hans að fórna dóttur sinni, Ífígeníu, fyrir byr svo herinn komist til Tróju. Í því verki tekur Ífígenía sjálf þá ákvörðun að fórna sér fyrir þjóð sína, hún vildi ekki vera dregin á altarið og slátrað, heldur gera þetta sjálf. Þetta er táknrænt fyrir kvennafórnir enn í dag, við konur erum alltaf að fórna okkur sjálfar, og það er einmitt það sem verið er að koma inn á í þessari nútímaútgáfu á fornum harmleik.“
Anna María segir að í verkinu sé mikið verið að pota í heilbrigðiskerfið og mismunina þar, það varpi m.a. ljósi á alla þá sem hafi ekki tíma, rödd eða getu til að berjast fyrir sjálfum sér í því kerfi, hafi ekki efni á því, tali ekki rétta tungumálið, eða hvað annað sem er í veginum.
„Einnig er komið inn á slæma ástandið í heilbrigðiskerfinu hjá okkur, þar sem eru of fáir læknar, niðurskurður og mannekla, útbrunnið starfsfólk undir ofurálagi sem hefur ekki forsendur til að sinna því sem það ætti að sinna.“
Hún vill ekki lifa með því
Anna María segir að Ífí í leikritinu sé sannarlega undirmálsmanneskja.
„Hún hefur marga fjöruna sopið, margan drykkinn sopið og margan manninn sopið. Við þekkjum öll þessa konu, höfum séð svona skvísur og við dæmum þær, vorkennum þeim þegar við sjáum þær í stuttum pilsum og engum sokkabuxum klukkan fjögur um nótt. En snilldin í þessu leikriti er hversu sjarmerandi hún Ífí er, hún er með mikinn húmor og er mjög fyndin manneskja, og hún er líka gífurlega klár. Verkið er fyrir vikið virkilega fyndið, en á sama tíma er mikill harmleikur að fylgjast með hvað kemur fyrir þessa ungu konu. Hún verður barnshafandi eftir einnar nætur gaman og gæinn er giftur. Hún ákveður að eiga barnið og taka sig á, fer í sund og hættir að drekka, kaupir falleg barnaföt á nytjamarkaði og þvær þau í vaskinum. En fæðingin fer af stað langt fyrir settan tíma og heilbrigðisstofnunin á Suðurnesjum getur ekki tekið á móti fyrirburum svo Ífí er send í bæinn og engin ljósmóðir með henni, af því að aðeins ein slík er á vakt og hún þarf að vera eftir með annarri fæðandi konu. Þau lenda í snjóbyl og hálku á Reykjanesbrautinni og sjúkrabíllinn fer út af og Ífí fæðir barnið í bílnum með sjúkraliðum sem gera allt sem þeir geta til að bjarga barninu, og hér kemur Höskuldarviðvörun: það tekst ekki. Ífí fer í mál við sjúkrahúsið og stofnunin vill semja við hana, láta hana fá bætur, en spurningin sem þvælist fyrir Ífí er þessi: Ef ég fæ bætur fyrir ástvinamissi, hvað með alla hina sem missa ástvini vegna niðurskurðar og manneklu í heilbrigðiskerfinu, fara þeir þá ekki fram á bætur líka og fer þá ekki almannafé í að borga fyrir þann missi, og sveltur þá heilbrigðiskerfið ekki enn meira? Vill hún lifa með því? Nei, hún vill það ekki, sem er hennar fórn, hún tekur þetta á sig fyrir aðra, vill ekki vera sú sem verður til þess að að heilbrigðiskerfið svelti enn meira, sem mun bitna á fólki. Einnig er verið að velta upp hinu skakka í okkar heilbrigðiskerfi þegar starfandi einstaklingar þar eru gerðir persónulega ábyrgir fyrir því sem misferst, undir kringumstæðum sem eru ekki boðlegar til að starfa í.“
Hún vill að fólk láti hana í friði
Í kynningu á verkinu segir m.a. að komið sé að skuldadögum í huga Ífí.
„Henni finnst fólk skulda sér að hætta að dæma hana, af því að fólk veit ekkert hvað hún hefur gengið í gegnum og þurft að þola, það veit ekki af hverju hún er eins og hún er. Hún vill að fólk fái að vita hvað hún gerði fyrir það og hún vill að fólk láti hana í friði. Hún er að reyna að lifa af og ætlar að gera það með sínum hætti,“ segir Anna María og spyr: „Hversu margt af þekkta utangarðsfólkinu sem við ólumst upp með í Reykjavík var á vöggustofu sem lítil börn þar sem þau voru vanrækt og fengu enga hlýju, voru eyðilögð frá fyrstu stundu af kerfi sem brást. Hvaða forsendur höfðu þau til velfarnaðar í lífinu? Og þurftu svo að þola að vera dæmd,“ segir Anna og bætir við að þetta sé ofboðslega vel skrifað verk.
„Þetta er rosalega skemmtilegt stykki, hnyttin og hræðileg saga, allt í bland, þar sem tilfinningar fara í reiptog.“
Kúnst að spegla sannfærandi
Anna María segir að mesta vinnan og kúnstin hafi verið að þýða verkið og staðfæra.
„Þórey keypti réttinn, af því að við vitum að þetta verk er of gott til að setja það ekki upp. Við höfum sinnt þessari þýðingu í hjáverkum meðfram öðru í nokkur ár, í millitíðinni varð ég bomm og eignaðist barn, keypti íbúð sem ég er að gera upp og fleira. Ég er stelpa í harkinu,“ segir Anna María og hlær.
„Við fórum með þessa sýningu á Act Alone, einleikjahátíð á Suðureyri, en nú hlökkum við til frumsýningar í Tjarnarbíói, því við erum búnar að leggja rosalega mikið á okkur, sérstaklega vinnan við handritið, hvernig við ættum að spegla þetta sannfærandi í íslenskum raunveruleika, því annars fær maður illt í lógíkina. Það má enginn skakkur hljómur vera í þessu, þá hættir maður að trúa, og ekki viljum við það. Þegar heppnast vel að setja upp slík verk, þá verða töfrar til sem eiga sér ekki stað neins staðar annars staðar en í leikhúsinu.“
Uppselt er á frumsýningu í Tjarnarbíói 16. janúar, en miðar á aðrar sýningar fást á vefnum tix.is.