Bryndís Guðmundsdóttir
Sunnudaginn 5. janúar síðastliðinn birtist viðtal á mbl.is við móður fjögurra ára drengs með einhverfu. Málið snýr að takmörkuðu aðgengi hans að talþjálfun hjá talmeinafræðingi, en sonur hennar hefur verið á biðlista eftir talþjálfun í tvö og hálft ár. Vegna þess samkomulags sem ríki og sveitarfélög hafa sín á milli og þeirra skilyrða sem Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) setja fyrir greiðsluþátttöku vegna talþjálfunar, þá fellur það í hlut SÍ að bera kostnað á þjónustunni við drenginn þar sem vandi hans fellur undir þeirra ábyrgð. Talmeinaþjónusta sveitarfélaganna snýr einna helst að greiningum, ráðgjöf og talþjálfun leik- og grunnskólabarna með væg frávik í tal- og málþroska.
Móðir drengsins nefnir í viðtalinu að vegna einhverfu sonar síns eigi hann erfitt með að sækja þjónustu utan skólans, m.a. talþjálfun, og óskar því eftir að sjálfstætt starfandi talmeinafræðingur stofu sæki um undanþáguheimild til að sinna drengnum í nærumhverfi. Einnig tekur hún fram að þeim hafi verið neitað um þá þjónustu í þrígang.
Hún stofnaði undirskriftalista fyrir helgi þar sem hún skorar á umboðsmann Alþingis að taka rammasamning talmeinafræðinga og Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) til frumkvæðisathugunar. Undirskriftalistinn hefur vakið mikla athygli og fengið yfir þúsund undirskriftir sem staðfestir að margir deila áhyggjum móðurinnar.
Stjórn Félags talmeinafræðinga á Íslandi tekur heils hugar undir með móður drengsins um að bæta þurfi stórlega aðgengi að talþjálfun fyrir börn í jafn viðkvæmri stöðu og sonur hennar er. Því miður er staðan sú í dag að þótt hægt sé að sækja um undanþáguheimild til að veita barni þjálfun í nærumhverfi þá er ekki greitt fyrir ferðir talmeinafræðings til og frá leik- eða grunnskóla. Einnig gætu talmeinafræðingar sem sinna þessari þjónustu ekki nýtt þjálfunartíma fyrir og eftir þjálfun í nærumhverfi og verða því af tekjum fyrir þá tíma. Á meðan rammasamningur við Sjúkratryggingar Íslands gerir ekki ráð fyrir greiðslu ferðakostnaðar og/eða vegna niðurfellingar á samliggjandi þjálfunartímum (sem hefðu annars nýst fyrir talþjálfun annarra barna) þá eru fáir talmeinafræðingar sem hafa tök á að taka slíka þjónustu að sér. Stjórn Félags talmeinafræðinga á Íslandi fagnar umræðu um dreifingu ábyrgðar og kostnaðar vegna þjálfunar fyrir börn með alvarlegan vanda sem þurfa aukin úrræði og meiri sveigjanleika í þjónustu.
Stjórn félags talmeinafræðinga vill árétta að staðan er sú að talmeinafræðingar myndu gjarnan vilja sinna börnum í nærumhverfi. Fáar stéttir vilja hins vegar starfa launalaust og á meðan fyrrgreindir þættir eru ekki leiðréttir eru litlar líkur á að jafn umsetin stétt og talmeinafræðingar eru hafi tök á að sinna slíkri þjálfun.
Höfundur er formaður Félags talmeinafræðinga á Íslandi.