Þórarinn Kristinn Sigurjónsson var fæddur 12. júní 1949 í Hafnarfirði. Hann lést 29. desember 2024 á Heilbrigðisstofnun Suðurlands.
Foreldrar hans voru Sigurjón Alfreð Kristinsson, sjómaður og verkamaður, f. 28. nóv. 1911, d. 6. júní 1967, og Þóra Guðrún Guðmundsdóttir saumakona, f. 22. febr. 1918, d. 11. mars 1978.
Þórarinn var elstur þriggja systkina, hin eru Ingólfur, f. 25. október 1950, kvæntur Sigurlín Hermannsdóttur og eiga þau tvo syni, Sigurjón Hermann og Leó Gunnar, og Jónína Borghildur, f. 6. desember 1951, d. 11. júní 2014. Hún á soninn Alfreð Þór Nikulásson, f. 2. desember 1981.
Þórarinn gekk í Lækjarskóla og Flensborg og lauk gagnfræðaprófi þaðan. Á sumrin vann hann alla almenna verkamannavinnu, t.d. í fiskvinnslu og við lagningu hitaveitu. Eftir að skólagöngu lauk vann hann hjá Rafha, Frostverki og Ali kjötvinnslu. Síðast vann hann hjá Toyota þar til hann fór á eftirlaun.
Þórarinn hafði áhuga á klassískum gítar og stundaði nám hjá Eyþóri Þorlákssyni á árunum 1974-1983. Hann lét sig dreyma um að fara utan til frekara náms í gítarleik en aldrei varð af því. Hann kenndi á gítar á Suðurnesjum á þeim árum.
Þórarinn tók systurson sinn að sér og ól hann upp. Þeir bjuggu lengst af á æskuheimili Þórarins á Hraunstíg 2 í Hafnarfirði þar til þeir fluttu fyrir sjö árum, fyrst á Selfoss en bjuggu síðustu árin í Þorlákshöfn og undu vel hag sínum þar.
Fyrir tæpum þremur mánuðum kom í ljós illkynja mein hjá Þórarni og dvaldi hann að mestu leyti á Heilbrigðisstofnun Suðurlands upp úr því.
Útförin fer fram frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði í dag, 14. janúar 2025, kl. 13.
Mamma söng oft fyrir mig „Ó, Jesú bróðir besti“ þegar hún var að svæfa mig pínulítinn. Þá hélt ég að hún væri að syngja um þig og fannst það mjög eðlilegt. Þú varst jú stóri bróðir og ég leit upp til þín. Þær eru margar minningarnar af Hraunstígnum og á svona stundum lætur maður hugann reika og endurlifir gamla tíma. Veiðiferðirnar niður á bryggju til að dorga og þvælast um borð í gömlu síðutogarana sem lágu við endann á bryggjunni. Þetta var stranglega bannað af mömmu og við fengum að heyra það enda var hún næm á fiskifýluna þegar við komum heim. Bíóferðir voru líka vinsælar og bíóin vel sótt á þrjú-sýningu og jafnvel líka klukkan fimm. Gjarnan var farið að sjá Roy og Trigger og svo beint í kábojleik eftir sýningu.
Þegar árin liðu var gott að geta komið í heimsókn til þín á æskuheimilið og spjallað. Við töluðum oft um þessa gömlu daga og það fólk sem setti svip á bæinn þá því þú varst mjög minnugur og kunnir deili á flestum. Eftir að þið Alli fluttuð austur fyrir fjall fækkaði heimsóknum en í stað þess töluðum við iðulega saman í símann. Við höfðum þann sið að tala saman úr gömlu heimasímunum. Þið Alli komuð líka oft við á Lyngheiðinni þegar þið brugðuð ykkur í bæinn en stoppuðuð stutt, ykkur leið vel fyrir austan. Þá var bara að grípa símann og halda samtölunum áfram. Í þeim komu stundum fram áhyggjur hjá þér af því hvað yrði um Alla, því ekki yrðir þú til staðar fyrir hann alla tíð. Engum datt þó í hug að þú ættir eftir að fara svona snöggt.
Ég á eftir að sakna þessara samtala. Hvíl í friði, Tóti bróðir besti.
Ingólfur.