Landsliðsþjálfarinn Snorri Steinn Guðjónsson hefur vaxið í starfi og hans handbragð er farið að sjást á liðinu, að mati Geirs Sveinssonar.
Landsliðsþjálfarinn Snorri Steinn Guðjónsson hefur vaxið í starfi og hans handbragð er farið að sjást á liðinu, að mati Geirs Sveinssonar. — AFP/Ina Fassbender
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Geir Sveinsson, fyrrverandi landsliðsþjálfari og fyrrverandi fyrirliði íslenska landsliðsins í handknattleik, telur það eðlilega kröfu að Ísland komist áfram í átta liða úrslit á komandi heimsmeistaramóti sem fram fer í Króatíu, Danmörku og Noregi og hefst í dag

HM 2025

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Geir Sveinsson, fyrrverandi landsliðsþjálfari og fyrrverandi fyrirliði íslenska landsliðsins í handknattleik, telur það eðlilega kröfu að Ísland komist áfram í átta liða úrslit á komandi heimsmeistaramóti sem fram fer í Króatíu, Danmörku og Noregi og hefst í dag.

Ísland leikur í G-riðli keppninnar ásamt Slóveníu, Kúbu og Grænhöfðaeyjum í Zagreb í Króatíu. Efstu þrjú lið riðilsins tryggja sér sæti í milliriðli fjögur sem verður einnig leikinn í Zagreb. Takist Íslandi að komast áfram í milliriðil verða næstu mótherjar liðsins úr H-riðli þar sem Egyptaland, Króatía, Argentína og Barein leika. Tvö efstu lið milliriðilsins komast svo áfram í 8-liða úrslitin sem verða leikin í Zagreb og Bærum í Noregi.

Geir þekkir landsliðsumhverfið vel en hann lék alls 340 landsleiki á árinum 1984 til ársins 1999 og skoraði í þeim 502 mörk en hann er þriðji leikjahæsti landsliðsmaður Íslands frá upphafi. Hann var fyrirliði íslenska liðsins frá árinu 1991, fór með liðinu á tvenna Ólympíuleika og sjö heimsmeistaramót. Hann var fyrirliði Íslands á HM 1997 í Japan þegar Ísland hafnaði í 5. sæti mótsins sem er jafnframt besti árangur landsins á heimsmeistaramóti.

Mjög spennandi hópur

Þá þjálfaði hann landsliðið frá 2016 til 2018 og fór með liðið á tvö stórmót, HM í Frakklandi árið 2017 þar sem Ísland hafnaði í 11. sæti og EM 2018 í Króatíu þar sem Ísland hafnaði í 13. sæti.

„Heilt yfir leggst þetta mót mjög vel í mig,“ sagði Geir í samtali við Morgunblaðið.

„Ég horfði á báða vináttulandsleikina gegn Svíþjóð og mitt mat byggist fyrst og fremst á þessum tveimur leikjum. Það er alveg ljóst að við erum með mjög öflugan leikmannahóp og höfum verið með öflugan hóp síðastliðin ár. Við erum með marga mjög góða leikmenn sem eru líka flestir á góðum aldri.

Þetta er mjög spennandi hópur í alla staði og mótið er lagt mjög vel upp fyrir okkur. Við vorum heppnir með drátt þegar horft er til liðanna sem við mætum, bæði í riðlakeppninni og í milliriðlakeppninni. Mér finnst það mjög eðlileg krafa að þetta lið komist í 8-liða úrslitin,“ sagði Geir.

Högg að missa Arnar Frey

Landsliðsþjálfarinn Snorri Steinn Guðjónsson gaf það út fyrir vináttulandsleikina gegn Svíþjóð að hann myndi fara í ákveðna tilraunastarfsemi í leikjunum, meðal annars vegna meiðsla lykilmanna á borð við Ómar Inga Magnússon sem verður ekkert með á HM og landsliðsfyrirliðann Aron Pálmarsson sem verður ekkert með liðinu þangað til í milliriðlakeppninni, en leikjunum tveimur lauk með jafntefli í Kristianstad, 31:31, og svo með tveggja marka sigri Svía í Malmö, 26:24.

„Tilfinningin er sú að hann hafi alltaf ætlað sér að spila á öllum þeim 18 leikmönnum sem hann valdi, gegn Svíunum. Hann gerði það þótt menn hafi fengið mismikið af tækifærum og flestallir fengu að sýna sig eitthvað. Mín tilfinning var sú að hann hafi ætlað að gera Arnar Frey Arnarsson að línumanni eitt í landsliðinu en svo lendir hann í því að meiðast og þá þarf Snorri allt í einu að gera breytingu. Elliði Snær Viðarsson er okkur líka mikilvægur en hann er samt allt öðruvísi leikmaður en Arnar og þeir spila í raun hvor sinn handboltann. Það hefði verið gott að vera með báða þessa leikmenn klára og það var því ákveðið högg að missa Arnar. Hvað Aron Pálmarsson varðar þá held ég að hann komi inn í lokaleik riðlakeppninnar gegn Slóveníu.

Það má samt ekki gleymast að við erum ekki eina liðið sem glímir við meiðsli. Svona er líf landsliðsþjálfarans og þú getur aldrei gert ráð fyrir að þú sért að fara stilla upp þínu besta liði á þessum stórmótum. Um það snýst starf þjálfarans og það er hans að púsla þessu saman, hann er með nóg af leikmönnum til þess. Við erum vel mannaðir en að mörgu leyti erum við með marga svipaða leikmenn sem eru steyptir í sama mótið. Ég hefði viljað vera með fleiri leikmenn eins og Þorstein Leó Gunnarsson sem hafa þessa stærð og geta skotið fyrir utan.“

Dauðafæri gegn Svíþjóð

Þrátt fyrir tap í báðum leikjunum gegn Svíþjóð var Geir ánægður með margt sem hann sá í leik íslenska liðsins.

„Þetta snýst um úrslit og að vinna leiki og það er stærsta prófraunin. Við áttum marga góða kafla gegn Svíþjóð en ég verð samt að taka það fram, sérstaklega ef við horfum til fyrri leiksins gegn þeim í Kristianstad, að þá hef ég sjaldan séð sænskt lið jafn ólíkt sjálfu sér. Þeir voru mun betri í seinni leiknum en maður hefur oft séð Svíana sterkari fyrir stórmót og það er stórt spurningarmerki hversu langt þeir fara á mótinu í ár.

Eitt sem maður veltir fyrir sér eftir þessa tvo leiki er það að við eigum góða spretti og skilum góðum tölum, en við náum samt ekki að vinna leikina. Við fengum algjört dauðafæri til að gera það, sérstaklega í fyrri leiknum, en náðum ekki að vinna hann. Voru menn bara sáttir með jafnteflið eða útkomuna og af hverju tókst okkur ekki að leggja Svíana að velli? Það vantaði ákveðinn vilja til þess að vinna leikinn því hópurinn er það reyndur að hann á að geta klárað svona leiki. Ég vona að strákarnir svari því gegn Slóveníu, sem er í raun fyrsti leikurinn á mótinu þar sem mun reyna á strákana og liðið.“

Unnið í því að lækka rána

Landsliðsþjálfarinn fyrrverandi vill ekki ganga svo langt að tala um veikleika hjá íslenska liðinu, enn sem komið er í það minnsta.

„Við vorum tveimur mörkum yfir í fyrri leiknum og misstum það niður. Ég er ekki alveg tilbúinn til þess að tala um þetta sem veikleika hjá liðinu en við þurfum að taka þessi augnablik ef við ætlum okkur í átta liða úrslitin, sem við eigum að gera. Slóvenar eru sterkasta liðið í riðlinum og við eigum að vinna þá. Vonandi tekst okkur að fara með fullt hús stiga inn í milliriðilinn og þar mætum við sem dæmi Króötum sem við unnum á síðasta stórmóti í Þýskalandi. Við getum líka unnið Egyptaland þannig að þetta eru allt lið sem við getum unnið.

Mitt persónulega mat er það að allt frá árinu 2018 höfum við unnið hægt og rólega í því að lækka rána hjá landsliðinu. Andstæðingar liðsins eru alltaf að taka framförum en ekki við. Við erum farnir að sætta okkur allt of mikið við það sem við erum ekki að klára en eigum samt að klára. Hópurinn í heild þarf að gera alvörukröfur um að hann ætli sér langt og þess vegna spyr maður sig af hverju við göngum ekki á lagið gegn Svíþjóð. Ég geri bara þá kröfu að við vinnum Svíþjóð, jafnvel á þeirra heimavelli, þegar okkur gefst tækifæri til þess því það gerist ekki á hverjum degi.“

Kveikt á öllum perum

Hvað þarf að ganga upp svo íslenska liðið nái markmiðum sínum á mótinu?

„Varnarleikurinn og markvarslan þurfa að vera fyrir hendi, svo einfalt er það. Nútímahandbolti gengur út á það að markverðir verji 34-35 prósent skota í hverjum einasta leik. Á stórmóti þarf allt að smella en það er samt þannig að þegar við erum á deginum okkar þá getum við verið helvíti gott handboltalið. Við höfum gert þetta áður en fyrir mér skiptir ofboðslega miklu máli hjá íslenska liðinu að ná upp alvörustemningu innan hópsins.

Við erum með mjög öfluga leikmenn í flestum stöðum eins og ég hef áður komið inn á en það vantar aðeins upp á sums staðar líka. Við erum samt orðnir mun heilsteyptara lið og rútíneraðra en við vorum. Stórmót í handbolta er langt mót og menn þurfa að vera með kveikt á öllum perum allan tímann.“

Handbragðið sést á liðinu

Snorri Steinn tók við þjálfun íslenska liðsins sumarið 2023 og er á leið á sitt annað stórmót með liðinu en Geir þjálfaði Snorra Stein hjá Val á sínum tíma og þeir þekkjast því vel.

„Mér finnst Snorri hafa vaxið mikið í starfi. Auðvitað þurfti hann að fikra sig áfram í þessu en við höfum verið í góðu sambandi. Hann er búinn að velta hlutunum mikið fyrir sér og prófa ýmislegt. Mér finnst hann vera á réttri leið með þetta. Við erum með marga leikmenn sem eru mjög snöggir á fótunum og það hefur aðeins vantað upp á þessa stærri leikmenn og skyttur. Hann hefur unnið vel úr því, líkt og hann gerði og var hans aðalsmerki hjá Val þar sem liðið spilaði mjög hraðan handbolta.

Hann er að reyna að framkvæma svipaða hluti með landsliðið og hann er á ákveðinni vegferð með liðið. Þetta er stórt verkefni og við vorum til dæmis í vandræðum með hraða miðju sænska liðsins í fyrri leiknum gegn þeim en náum svo að laga það í seinni leiknum. Það sést á leik liðsins að það er verið að vinna í ákveðnum hlutum og hans handbragð er farið að sjást á liðinu.“

Þarft gríðarlega einbeitingu

Hvað fer í gegnum hausinn á leikmönnum liðsins svona rétt fyrir mót?

„Ég vona að þeir séu fullir tilhlökkunar að takast á við verkefnið. Þetta er löng vegferð og ákveðið ferðalag, þessi stórmót. Þetta eru allt atvinnumenn auðvitað en þetta er fyrst og fremst mjög skemmtilegt verkefni. Þú þarft gríðarlega einbeitingu á þessum stórmótum og væntanlega hefur liðið sett sér ákveðin innri markmið fyrir mótið.

Það klassíska er að fara upp úr riðlinum en það er mjög mikilvægt að það sé líka eitthvert langtímamarkmið svo einbeitingin sé til staðar og liðið rói í sömu átt, til langs tíma litið.

Ég vona innilega að þeir séu vel samstilltir og svo þurfa menn líka að vera komnir inn í mótið, hvað hugarfarið varðar. Þú byrjar ekkert að hugsa um HM í fyrsta leik. Þú þarft að vera löngu byrjaður að hugsa um mótið og framhaldið, þannig að hægt sé að stilla saman strengina, taktinn og hvað menn ætla sér í raun og veru á mótinu,“ bætti Geir Sveinsson við í samtali við Morgunblaðið.

Höf.: Bjarni Helgason