Stéttarfélagið Efling veittist um helgina að löglegri starfsemi í Kringlunni og truflaði þar jafnt gesti verslunarmiðstöðvarinnar sem fyrirtæki sem þar starfa, einkum þó einn tiltekinn veitingastað. Formaður Eflingar talaði í gjallarhorn svo glumdi í og olli miklu ónæði, sem var auðvitað ætlunin. Til viðbótar stóð nokkur hópur fólks frá Eflingu í kringum formanninn með skilti og jók þannig á truflunina.
Efling virðist eiga eitthvað sökótt við SVEIT, samtök fyrirtækja á veitingamarkaði, og stéttarfélagið Virðingu sem er stéttarfélag fyrir launþega hjá veitinga- og gistihúsaeigendum. Heldur Efling því fram að Virðing sé „gervistéttarfélag“, stofnað af fyrirtækjum í greininni. Þessu hafnar stjórn Virðingar alfarið og bendir á í yfirlýsingu að félagsmenn þess hafi haft til þess „frelsi að mega stofna sitt eigið stéttarfélag“. Eflingu komi þetta ekki við og hafi „heldur engan einkarétt á því að semja við vinnuveitendur eða fyrir hönd þeirra sem hjá þeim vinna“.
SVEIT, sem hefur gert kjarasamning við Virðingu, hefur kvartað undan því að ekki sé hægt að semja við Eflingu. Það þarf út af fyrir sig ekki að koma á óvart miðað við hvernig Efling hefur gengið fram gagnvart fyrirtækjum í hótel- og veitingageiranum, en atlagan nú um helgina var fjarri því sú fyrsta af þessu tagi.
Hér á landi hafa menn sem betur fer aðrar leiðir en að láta dólgslega gagnvart öðrum til að ná sínu fram. Og rétt er að taka fram að það að lýsa skoðun sinni er allt annað en að fara með gjallarhorn, skilti og hóp fólks til að trufla aðra. Atlaga Eflingar hefur þess vegna lítið með tjáningarfrelsi að gera.
Ísland er réttarríki og Efling líkt og aðrir getur sótt rétt sinn fyrir dómstólum. Telji Efling sig eiga rétt á því að félagar í Virðingu gangi í Eflingu og greiði félagsgjöldin þangað, sem væri sérkennileg niðurstaða þegar horft er til stjórnarskrár og almennra viðhorfa til félagafrelsis, þá getur Efling leitað til dómstóla. Ætla má að Efling færi einmitt þessa leið ef forysta félagsins teldi sig hafa góðan málstað, en svo virðist ekki vera. Og þá er gripið til annarra og óframbærilegra aðferða.
Efling er ekki, frekar en nokkur annar hér á landi, hafin yfir lög. Hún getur ekki beitt aðra yfirgangi með hávaða og látum til að fá sitt fram. Vonandi átta forsvarsmenn félagsins sig á þessu og beita hér eftir lögmætum aðferðum til að vinna sjónarmiðum sínum fylgis eða fá sitt fram.