Jón Holger Engelbrecht Holm fæddist í Reykjavík 26. júní 1940. Hann lést á Borgundarhólmi í Danmörku 26. desember 2024.
Foreldrar Jóns voru hjónin Hans Nikolaj Peter Holm, f. 1901, d. 1968, og Þórdís Todda Jónsdóttir Holm, f. 1907, d. 1986. Faðir Jóns flutti frá Danmörku til Íslands 1938, foreldrar hans voru Emma Kristine og Engelbrecht Holm. Foreldrar Þórdísar voru Ragnhildur Sigurðardóttir og Jón Sigmundsson.
Foreldrar Jóns hófu búskap á Laugavegi 8b þar sem faðir hennar, Jón Sigmundsson, hafði byggt hús og rak Skartgripaverslun Jóns Sigmundssonar ásamt gullsmíðaverkstæði. Árið 1947 flutti fjölskyldan á Grenimel 28.
Systur Jóns eru: Áslaug Ragnhildur Holm Johnson, f. 1943, maki Paul Sveinbjörn Johnson, f. 1921, d. 2013. Börn þeirra eru Birgir Þór, f. 1960, Pétur Snæbjörn, f. 1965, og Sonja Ragnhildur Liff, f. 1968; Emma Kristine Holm, f. 1952, maki Halldór Jens Óskarsson, f. 1949, d. 1985. Börn þeirra: Þórunn Hanna, f. 1971, Óskar Jens Holm, f. 1974, og Emil Holm, f. 1981. Seinni maður Emmu er Bjarni Kjartansson, f. 1941.
Jón kvæntist Eddu V. Guðmundsdóttur, f. 1943, þau skildu. Börn þeirra eru: 1) Linda Björk, f. 1961, maki Skúli Pétursson, f. 1961, börn þeirra Þórdís Edda, f. 1992, og Sturla, f. 1995. 2) Arnar Serafim, f. 1964, maki Magdalena Hansen, f. 1971.
Seinni kona Jóns er Pia Kjerholt, f. 1953, þau skildu.
Jón lærði gullsmíði á verkstæði afa síns Jóns Sigmundssonar. Eftir það flutti hann á Selfoss og opnaði þar gullsmíðaverkstæði og verslun á árunum 1963-1968. Þá fór hann í eitt ár til Chicago að kynna sér tölvuheiminn sem þá fór ört vaxandi. Hann kom heim 1970 og tók þá við rekstri Gullfiskabúðarinnar, sem var fjölskyldufyrirtæki, auk þess sem hann hóf nám í SÁL-leiklistarskólanum.
Jón var mjög hagur ljósmyndari og tók mikið af myndum bæði af listviðburðum og náttúrunni. Hann hélt nokkrar einka- og samsýningar bæði á Íslandi og á Borgundarhólmi. Hann vann til fyrstu verðlauna í ljósmyndakeppni á Borgundarhólmi með sérlega fallegri mynd af tveimur svönum sem hann þróaði áfram í skartgripagerð, það hálsmen var tákn Svaneke og varð afar vinsælt.
Jón var mjög bókelskur og kynnti sér vel Íslendingasögurnar, ljóð og almennar bókmenntir á íslensku, ensku og dönsku.
Árið 1980 fór hann á vegum Rauða krossins til Súdans og starfaði þar sem sjálfboðaliði um nokkurt skeið.
Jón var alltaf tengdur Danmörku, hafði búið þar á unglingsárum og 1982 flytur hann þangað alfarinn, fyrst til Kaupmannahafnar og síðar til Borgundarhólms þar sem hann dvaldi til dánardags.
Útför Jóns fer fram frá Svaneke-kirkju á Borgundarhólmi í dag, 14. janúar 2025, klukkan 13.
Nonni var stóri bróðir minn, ekki aðeins í bókstaflegri og hávaxnari merkingu heldur er ég 12 árum yngri. Þegar við fórum að vinna saman í Gullfiskabúðinni leit ég mjög upp til hans. Hann kenndi mér ýmislegt í rekstrinum. Nonni bróðir var ætíð spaugsamur en húmorinn var oftar en ekki með skammti af kaldhæðni og útúrsnúningi. Hann lærði gullsmíði í fjölskyldufyrirtæki afa okkar Jóns Sigmundssonar og fór að búa á Laugavegi 8b þar sem foreldrar okkar hófu búskap forðum.
Nonni kvæntist Eddu Vilborgu og eignuðust þau tvö börn, Lindu Björk og Arnar. Hann var líka hálfgerður bóhem; töffari á unglingsárunum og fór í leiklistarskólann SÁL ásamt Eddu sinni, því þau áttu þetta sameiginlega áhugamál. Það var oft glatt á hjalla hjá Nonna og Eddu í Gíslholti á Ránargötu 46. Þar bjuggu þau í gömlu virðulegu þrílyftu timburhúsi sem þau gerðu upp með hjálp Halldórs míns sáluga. Húsið var rómað fyrir það hve fallegt og smekklegt það var. Þau tóku niður milliveggi og bjuggu þar til hugguleg rými með mikilli sál. Stofan var með bókum upp um alla veggi og flygill á miðju gólfi. Nonni var mjög músíkalskur eins og pabbi okkar og hann spilaði mikið djass eftir eyranu. Hæfileikarnir leyndu sér ekki. Á sumrin héldu þau garðveizlur (alltaf með zetu). Þá birtist tilkynning í blöðunum um að nágrannar, vinir og aðrir væru velkomnir, bara koma með drykkjarföngin. Lögð var fram súpa og börnin fengu pylsur og málningu til að mála á bílskúrsvegg sem þar var. Þetta var skemmtilegt og skrautlegt uppátæki. Þar var hann líka stundum með nikkuna sína og vinir þeirra hjóna komu og spiluðu fyrir gesti. Eftirminnilegast var þegar Manuela Wiesler kom og spilaði.
Nonni var mjög hugmyndaríkur og góður hönnuður í skartgripagerð. Hann fór einn til Bandaríkjanna í eitt ár en þegar hann kom hann til baka tók hann við verslunarrekstri fjölskyldunnar í Gullfiskabúðinni. Hann var hugmyndaríkur frumkvöðull á marga vísu og var fyrstur til að flytja inn kattasand og katta- og hundafóður. Nonni var líka ljósmyndari með næmt auga og hélt ljósmyndasýningar meðal annars á Skólavörðustíg 5. Hann fór til Súdans á vegum Rauða krossins og tók þar margar eftirminnilegar myndir. Á erfiðu tímabili í mínu lífi kom hann með þá hugmynd að flytja íslenskt hraun til Þýskalands. Hann hvatti mig einnig til að standa með því sem ég gerði. Þannig bjargaði ég fjárhagnum meðan ég stundaði nám í öldungadeild MH.
Nonni og Edda skildu og Nonni fluttist til Danmerkur 1982. Þar kynntist hann Piu Kjerholt sem hann kvæntist síðar. Pia og Jón fluttu til Borgundarhólms á tíunda áratug síðustu aldar og bjuggu þar æ síðan. Þar hafði hann lítið gullsmíðaverkstæði þar sem hann smíðaði eigin hönnun sem var innblásin af norrænni goðafræði (t.d. Epli Iðunnar og Örlaganornirnar).
Elsku Nonni, ég er þér eilíflega þakklát fyrir það sem þú gafst af þér í gegnum tíðina, hvatninguna, stuðninginn, tónlistina, gleðina og húmorinn.
Far þú í friði Nonni minn. Við varðveitum minningu þína.
Saknaðarkveðjur,
Emma.