Tindastóll Skíðasvæðið hefur verið eftirsótt meðal skíðaunnenda en ekkert verið opið í vetur vegna snjóleysis.
Tindastóll Skíðasvæðið hefur verið eftirsótt meðal skíðaunnenda en ekkert verið opið í vetur vegna snjóleysis. — Ljósmynd/Skíðadeild Tindastóls
„Við erum að vinna í þessu hörðum höndum og reynum að vera bjartsýn á að niðurstaða fáist,“ segir Helga Daníelsdóttir, formaður skíðadeildar Umf. Tindastóls á Sauðárkróki, en ekki hefur verið hægt að opna skíðasvæðið í fjallinu…

„Við erum að vinna í þessu hörðum höndum og reynum að vera bjartsýn á að niðurstaða fáist,“ segir Helga Daníelsdóttir, formaður skíðadeildar Umf. Tindastóls á Sauðárkróki, en ekki hefur verið hægt að opna skíðasvæðið í fjallinu Tindastóli í vetur þar sem ekki hefur tekist að ganga frá rekstrarsamningi við sveitarfélagið Skagafjörð. Sveitarstjóri segir aðrar ástæður liggja þar að baki.

Að sögn Helgu rann síðasti samningur út í desember árið 2023 og á síðasta ári fékkst styrkur frá sveitarfélaginu til að halda skíðasvæðinu opnu, án þess að gerður væri nýr samningur. Var svæðið opið frá janúar í fyrra og fram að páskum, og aftur í smátíma í júní sl. er skíðalandslið Íslands var við æfingar í fjallinu.

Skíðadeildin setti inn færslu á Facebook-síðu sína sl. föstudag til að skýra af hverju ekki væri búið að opna skíðasvæðið. „Á meðan ekki hefur verið gengið frá samningi sér skíðadeildin sér því miður ekki fært að hafa svæðið opið og uppfylla um leið þær öryggiskröfur sem fylgja þarf. En sú vinna er í fullum gangi. Vonandi nást samningar sem fyrst svo hægt verði að opna svæðið og við komumst á skíði í vetur,“ sagði m.a. í færslunni.

Helga segir við Morgunblaðið að ekki sé miklu við þetta að bæta. Skíðasvæði norðan heiða hafi jafnframt verið að glíma við snjóleysi í vetur og vonandi verði þessi hlýindi ekki lengi áfram.

Óskað eftir frekara samtali

Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri í Skagafirði, segir sveitarfélagið hafa verið í góðum viðræðum við skíðadeild Tindastóls um gerð nýs samnings á fyrri hluta síðasta árs. Viðræðum hafi lokið með samkomulagi um nýjan samning sem samþykktur var hjá stjórn skíðadeildar í byrjun september sl. og í byggðarráði Skagafjarðar 18. september, sem staðfest var síðan í sveitarstjórn 24. október. „Sveitarfélagið hefur alla tíð staðið þétt á bak við rekstur skíðasvæðisins í Tindastóli eins og uppbygging undanfarinna ára vitnar um,“ segir Sigfús Ingi.

Hann segir að áður en til undirritunar samningsins kom hafi stjórn skíðadeildar hins vegar óskað eftir frekara samtali um nýjan samning. Síðan þá hafi uppbyggilegar og jákvæðar viðræður átt sér stað, og vonandi sé farið að sjást til lands í þeim efnum.

„Sveitarfélagið greiddi skíðadeild samt sem áður rekstrarframlag allt árið 2024 í samræmi við þann nýja samning sem samþykktur hafði verið aðila á milli en ekki ritað undir. Það er því ekki rétt að mati sveitarfélagsins að undirritun nýs samnings hafi komið í veg fyrir opnun skíðasvæðisins í Tindastóli. Þar liggja aðrar ástæður að baki,“ bætir sveitarstjórinn Sigfús Ingi við. bjb@mbl.is