Björgvin Páll Gústavsson - 1
Björgvin Páll, sem er 39 ára gamall, er samningsbundinn Val í úrvalsdeildinni hér heima en hann er uppalinn hjá HK í Kópavogi.
Hann hóf meistaraflokksferilinn með HK áður en hann gekk til liðs vð ÍBV í Vestmannaeyjum árið 2005, þar sem hann lék í eitt tímabil áður en hann gekk til liðs við Fram sumarið 2006. Eftir tvö tímabil með Fram hélt hann út í atvinnumennsku til Þýskalands og samdi við Bittenfeld í þýsku B-deildinni, en liðið heitir Stuttgart í dag.
Hann lék með Bittenfeld í tvö tímabil áður en hann söðlaði um og samdi við Kadetten í Sviss árið 2009. Hann varð tvívegis svissneskur meistari með Kadetten og árið 2011 gekk hann til liðs við þýska stórliðið Magdeburg þar sem hann lék í tvö tímabil. Þaðan lá leiðin til Bergischer, þar sem hann lék frá 2013 til 2017, en eftir fall liðsins úr efstu deild ákvað hann að snúa heim til Íslands og semja við Hauka.
Hann stoppaði stutt við á Íslandi og lék með Haukum í eitt tímabil áður en hann samdi við Skjern í Danmörku, þar sem hann lék frá 2018 til 2020. Hann gekk til liðs við Hauka á nýjan leik árið 2020 áður en hann samdi við Val árið 2021. Hann varð Íslands-, bikar- og deildarmeistari með Valsmönnum árið 2022.
Björgvin á að baki 275 A-landsleiki og er reynslumesti leikmaðurinn í íslenska hópnum en í þessum leikjum hefur hann skorað 24 mörk. Hann lék sinn fyrsta landsleik gegn Póllandi í Ólafsvík árið 2003. Heimsmeistaramótið í Króatíu, Danmörku og Noregi verður sautjánda stórmót markvarðarins og hans áttunda heimsmeistaramót. Hann jafnar þar með þátttökumet Guðjóns Vals Sigurðssonar á heimsmeistaramótum. Björgvin Páll var í silfurliði Íslands á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008 og í bronsliði Íslands á Evrópumótinu í Austurríki árið 2010.
Viktor Gísli Hallgrímsson - 16
Viktor Gísli, sem er 24 ára gamall, er samningsbundinn Wisla Plock í efstu deild Póllands, en hann gekk til liðs við félagið frá Nantes í Frakkland síðasta sumar og skrifaði undir eins árs samning í Póllandi.
Viktor Gísli er uppalinn hjá Fram, þar sem hann lék sinn fyrsta meistaraflokksleik tímabilið 2016-17, en sama tímabil var hann valinn efnilegasti markvörður úrvalsdeildarinnar.
Hann gekk til liðs við GOG í Danmörku sumarið 2019 og lék með liðinu í þrjú tímabil. Hann varð Danmerkurmeistari með GOG vorið 2022. Síðar um sumarið söðlaði hann um og gekk til liðs við Nantes í frönsku 1. deildinni þar sem hann varð bikarmeistari tímabilið 2022-23, ásamt því að leika með liðinu í Meistaradeildinni.
Viktor Gísli á að baki 62 A-landsleiki þar sem hann hefur skorað eitt mark en hann lék sinn fyrsta landsleik gegn Noregi í Bergen í apríl árið 2018. Markvörðurinn er á leið á sitt sjötta stórmót með íslenska landsliðinu.
Bjarki Már Elísson - 8
Bjarki Már, sem er 34 ára gamall, er samningsbundinn stórliði Veszprém í Ungverjalandi en hann gekk til liðs við ungverska félagið frá Lemgo í Þýskalandi sumarið 2022.
Hornamaðurinn er uppalinn hjá Fylki í Árbænum en lék einnig með Fram hér á landi áður en hann gekk til liðs við Selfoss árið 2006 þar sem hann lék til ársins 2009. Þaðan lá leiðin til HK þar sem hann varð Íslandsmeistari árið 2012 og markahæsti leikmaður úrvalsdeildarinnar tímabilið 2012-13.
Hann gekk til liðs við þýska B-deildarfélagið Eisenach árið 2013 þar sem hann lék í tvö tímabil áður en hann samdi við stórlið Füchse Berlín þar sem hann lék í fjögur tímabil og varð meðal annars heimsmeistari félagsliða í tvígang, 2015 og 2016. Hann samdi við við Lemgo í Þýskalandi árið 2019 og varð markakóngur þýsku 1. deildarinnar á sínu fyrsta tímabili með Lemgo. Þá varð hann bikarmeistari með liðinu árið 2020.
Hann hefur orðið ungverskur meistari með Veszprém undanfarin tvö tímabil, og einnig bikarmeistari í tvígang, ásamt því að leika með liðinu í Meistaradeildinni þar sem liðið er fastagestur.
Bjarki Már lék sinn fyrsta A-landsleik gegn Hollandi í Laugardalshöll árið 2012. Alls á hann að baki 120 landsleiki, þar sem hann hefur skorað 404 mörk, en hann er á leið á sitt áttunda stórmót.
Orri Freyr Þorkelsson – 19
Orri Freyr, sem er 25 ára gamall, er samningsbundinn Sporting í portúgölsku 1. deildinni en hann er uppalinn hjá Haukum í Hafnarfirði.
Hann lék sinn fyrsta meistaraflokksleik fyrir Hauka árið 2019 en hann gekk til liðs við Elverum í Noregi árið 2021 og varð deildar-, bikar- og Noregsmeistari með liðinu á sínu fyrsta tímabili. Hann lék í tvö tímabil í Noregi áður en hann gekk til liðs við Sporting sumarið 2023.
Hann varð Portúgalsmeistari með liðinu á sínu fyrsta tímabili í deildinni og þá varð hann einnig bikarmeistari með liðinu eftir sigur gegn Porto í úrslitaleik. Orri hefur leikið alla leiki Sporting í Meistaradeildinni á tímabilinu og er næstmarkahæsti leikmaður liðsins í keppninni með 49 mörk.
Hann lék sinn fyrsta A-landsleik gegn Litháen í Laugardalshöll í nóvember árið 2020 en alls á hann að baki 30 A-landsleiki og 44 mörk. Heimsmeistaramótið í Króatíu, Danmörku og Noregi verður annað stórmót Orra.
Óðinn Ríkharðsson - 2
Óðinn Þór, sem er 27 ára gamall, er samningsbundinn svissnesku meisturunum í Kadetten en hann er uppalinn hjá HK í Kópavogi.
Hornamaðurinn lék með HK frá 2013-2015 áður en hann gekk til liðs við Fram, þar sem hann lék í eitt tímabil. Þaðan lá leiðin til FH þar sem hann lék frá 2016 til ársins 2018.
Óðinn hélt út í atvinnumennsku árið 2018 þegar hann samdi við GOG í dönsku úrvalsdeildinni en hann lék með liðinu í tvö tímabil áður en hann söðlaði um í Danmörku og samdi við Holstebro.
Hann snéri heim úr atvinnumennsku árið 2021 þegar hann samdi við KA en stoppaði stutt við á Íslandi því seinni hluta tímabilsins 2021-22 gekk hann til liðs við Gummersbach í þýsku B-deildinni á láni frá KA. Leiðin lá svo til Sviss sumarið 2022 þar sem hann skrifaði undir þriggja ára samning en hann hefur tvívegis orðið svissneskur meistari með Kadetten og einu sinni bikarmeistari, á síðustu leiktíð.
Óðinn lék sinn fyrsta A-landsleik gegn gegn Svíþjóð árið 2017 en alls á hann að baki 44 landsleiki þar sem hann hefur skorað 131 mark. Heimsmeistaramótið í Króatíu, Danmörku og Noregi verður fjórða stórmót hornamannsins.
Sigvaldi Björn Guðjónsson - 22
Sigvaldi, sem er þrítugur, er samningsbundinn Kolstad í Noregi en hann gekk til liðs við norska félagið sumarið 2022 frá pólska stórliðinu Kielce þar sem hann lék í tvö tímabil, frá 2020 til 2022. Hann varð tvívegis Póllandsmeistari með liðinu.
Sigvaldi er uppalinn í HK en hann flutti 12 ára gamall til Danmerkur ásamt fjölskyldu sinni og lék um tíma með Vejle og Bjerringbro/Silkeborg þar í landi. Hann lék með Århus frá 2014 til ársins 2018 þegar hann gekk til liðs við Elverum í Noregi þar sem hann lék í tvö tímabil, frá 2018 tl 2020, en hann varð Noregsmeistari með Elverum árið 2020. Hann varð Noregsmeistari og norskur bikarmeistari með Kolstad á síðustu leiktíð og einnig á næstsíðustu leiktíð.
Hægri hornamaðurinn lék sinn fyrsta A-landsleik gegn Noregi í Elverum ári 2017 en alls á hann að baki 78 landsleiki þar sem hann hefur skorað 215 mörk. Hann er á leið á sitt sjöunda stórmót með íslenska landsliðinu.