Ragnar Þór Ingólfsson
Ragnar Þór Ingólfsson
Ný ríkisstjórn hefur tekið við á þjóðarheimilinu. Nú þegar hillir undir þingsetningu velta því sjálfsagt einhverjir fyrir sér hvort breyting verði á ásýnd stjórnmálanna sem undanfarin ár hafa að mestu snúist um kyrrstöðu og sérhagsmuni frekar en almannahagsmuni og framfarir

Ný ríkisstjórn hefur tekið við á þjóðarheimilinu. Nú þegar hillir undir þingsetningu velta því sjálfsagt einhverjir fyrir sér hvort breyting verði á ásýnd stjórnmálanna sem undanfarin ár hafa að mestu snúist um kyrrstöðu og sérhagsmuni frekar en almannahagsmuni og framfarir. Ég hafði sjálfur fest mig í því fari að missa trúna á að eitthvað jákvætt gæti komið frá stjórnmálunum. Eitthvað sem raunverulega gagnast fólkinu í landinu til lengri og skemmri tíma.

Eftir stutt kynni af því frábæra fólki sem samanstendur af þingmönnum og ráðherrum nýrrar ríkisstjórnar og ríkisstjórnarflokkanna er ég bjartsýnni en nokkru sinni fyrr á að okkur takist að lyfta stjórnmálunum upp á hærra plan og auka veg og virðingu Alþingis í þágu fólksins í landinu. Ekki vegna þess að ég telji sjálfan mig hæfari til verksins en aðra, heldur vegna þess að hópurinn, með öflugu liði starfsfólks og aðstoðarmanna, ætlar að vinna verkið sem ein liðsheild undir styrkri stjórn formanna flokkanna þriggja. Jákvæðnin og krafturinn í hópnum leynir sér ekki og hefur sannarlega smitast til okkar allra sem tókum þátt í að gera nýja ríkisstjórn að veruleika og við erum stolt af stjórnarsáttmála sem mikill sómi er að.

Róm var vissulega ekki byggð á einum degi en ég get með sanni sagt að bjartari tímar eru fram undan með hreinum stjórnarskiptum og öflugri liðsheild reyndra og nýrra þingmanna. Við munum ganga til verka fljótt og vel á nýju þingi. Þrátt fyrir málamiðlanir sem óumflýjanlega verða við stjórnarmyndanir þá geta flokkarnir og kjósendur þeirra vel unað við þá niðurstöðu sem er skráð í stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar. Því fer fjarri að þær málamiðlanir snúist um aðgerðaleysi og kyrrstöðu sem því miður hefur verið raunin síðustu ár. Því má með sanni segja að tími aðgerða og verka sé runninn upp og að stjórnmál sundurlyndis og stöðnunar séu liðin tíð.

Við munum standa undir væntingum og við munum bæta lífskjör almennings í landinu, því get ég lofað. Og við munum sjá árangur snemma á þessu kjörtímabili, því þó breytingar taki tíma þá er margt hægt að gera ef vilji til verka er fyrir hendi samhliða öflugri verkstjórn, sem svo sannarlega er til staðar innan ríkisstjórnarflokkanna.

Fólkið fyrst, svo allt hitt!

Höfundur er þingmaður Flokks fólksins í Reykjavíkurkjördæmi norður.

Höf.: Ragnar Þór Ingólfsson